Fara í efni

Áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á heilsufar búfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 



 
Á yfirstandandi sláturtíð verða tekin sýni úr samtals 60 lömbum frá tólf bæjum og 9 hrossum frá þremur bæjum á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. Lungu verða skoðuð á Tilraunastöðinni á Keldum með tilliti til stór- og smásærra breytinga, tennur m.t.t. breytinga í glerungi og flúor verður mælt í kjálkabeinum. Einnig verða tekin lifrar- og mjólkursýni til mælinga á kadmíum, kvikasilfri, blýi og flúor. Viðmiðunarsýni verða tekin úr lömbum og hrossum frá bæjum á Norðurlandi. Til rannsókna á langtímaáhrifum er fyrirhugað að taka sambærileg sýni úr kindum sem fæddar eru á þessu ári, sem drepast, verður lógað eða slátrað á næstu árum. Unnið er að þessum rannsóknum í samvinnu við hóp vísindamanna sem vinnur að rannsókn á áhrifum eldgossins á heilsufar fólks á svæðinu. Matvælastofnun á einnig fulltrúa í samráðshópi um flúorrannsóknir sem stofnaður var í vor og hefur stuðlað að samræmingu rannsókna á efnainnihaldi í vatni, jarðvegi, gróðri og fóðri.

Frá því gosið hófst hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar haft vakandi auga fyrir stórsæjum breytingum í öllum sláturdýrum frá áhrifasvæði eldgossins og tekið sýni þegar þeim hefur þótt ástæða til og sent að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þar voru í vor rannsökuð hræ af 13 dýrum en engar breytingar fundust sem rekja má til eldgossins. Í byrjun júní var kadmíum, kvikasilfur, blý og flúor mælt í mjólkursýnum úr 4 kúm og lifrarsýnum úr 6 kindum, 6 nautgripum og 4 hrossum af svæðinu. Öll gildi reyndust innan viðmiðunarmarka.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?