Fara í efni

Áhættumat og frammistöðuflokkun leiðir til markvissara eftirlits

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Frá því að Matvælastofnun hóf árið 2013 að meta eftirlitsþörf hjá matvælafyrirtækjum út frá áhættu og frammistöðu þeirra hefur fjölda eftirlitstíma fækkað umtalsvert. Með áhættu- og frammistöðuflokkun Matvælastofnunar gefst fyrirtækjum kostur á að fá minna eftirlit og þar með lægri eftirlitsgjöld með góðri frammistöðu. Reynslan frá 2013 til 2017 sýnir að sífellt fleiri fyrirtæki eru að færast í frammistöðuflokk A og að eftirlitskerfið sé að ná tilætluðum árangri, að verðlauna þá sem standa sig vel og beina þunga eftirlitsins þar sem áhættan er mest og niðurstöður úr eftirliti eru lakari.

Samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli og reglugerð nr. 106/2010 skal opinbert eftirlit með matvælum og fóðri vera áhættumiðað. Tíðni opinbers eftirlits skal þannig vera í réttu hlutfalli við áhættuna sem fylgir hráefninu, afurðinni og framleiðsluaðferðinni og umfangi framleiðslunnar, auk þess sem taka skal tillit til frammistöðu fyrirtækja í eftirliti og áreiðanleika þess innra eftirlits sem þau sinna.

Frammistaða eftirlitsþega skiptist í þrjá flokka og falla fyrirtæki ýmist í flokk A, B eða C. Farið verður sjaldnar í eftirlit til þeirra sem standa sig vel og eftirlitsgjöld sem þeir greiða verða af þeim sökum lægri. Við mat á áhættu framleiðslunnar m.t.t. matvælaöryggi er horft til þriggja áhættuþátta:

  1. Tegund vinnslunnar og hráefnisins sem unnið er með
  2. Stærð fyrirtækisins eða vinnslunnar
  3. Neytendahópur sem markaðssett er fyrir

Matvælastofnun hefur frá árinu 2013 metið eftirlitsþörf matvælafyrirtækja sem vinna matvæli úr dýraríkinu skv. sérstöku áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi. Fimm ára reynsla er nú komin á kerfið og hægt er að sjá hvernig eftirlitsþörf í fjölda eftirlitstíma hefur breyst á tímabilinu.


Af framangreindu línuriti má sjá að tímum sem áætlaðir eru til að sinna reglubundnu eftirliti með fiskvinnslum hefur fækkað úr 3212 tímum árið 2013 niður í 1978 tíma árið 2018. Þrátt fyrir að hluta af skýringunni megi rekja til fækkunar starfstöðva um 63, þá hefur áætlaður meðal tímafjöldi í eftirliti með fiskvinnslum farið úr 9 klst. niður í 6,4 klst.


Af framangreindu línuriti má sjá að tímum sem áætlaðir eru til að sinna reglubundnu eftirliti með kjötvinnslum, mjólkurbúum og sláturhúsum hefur fækkað úr 1108 tímum árið 2013 niður í 615 tíma árið 2018. Þrátt fyrir að starfstöðvum hafi fjölgað um 11. Þó tekið sé tillit til þess að hluti fjölgunarinnar hafi verið í smærri vinnslum þá fer áætlaður fjöldi tíma í eftirliti á hverri starfsstöð að meðaltali úr 21,3 klst. niður í 9,8 klst.

Ein skýringin á því að fjöldi eftirlitstíma hefur fækkað umtalsvert í vinnslum sem vinna matvæli úr dýraríkinu er sú að fyrirtækin hafa bætt starfsemi sína og fjöldi fyrirtækja sem færst hafa í A flokk hefur aukist ár frá ári. Fyrirtækin hafa þannig séð hag sinn í því að færast upp um frammistöðuflokk sem um leið fækkar eftirlitstímum hjá þeim og minnkar kostnað sem hlýst af eftirlitinu. Þá hefur sömuleiðis tekist betur til við að meta áhættu fyrirtækjanna og þar með raunverulega eftirlitsþörf hjá hverju og einu þeirra.

Eftirlitið hefur einnig orðið markvissara og ljóst að það markmið sem lagt var af stað með í lögunum um að tíðni eftirlits skuli vera í samræmi við áhættu og frammistöðu fyrirtækja hefur náð fram að ganga.

Stefnt er að því að gera upplýsingar um frammistöðu matvælafyrirtækja aðgengilegar almenningi þegar búið er að tryggja samræmingu á skráningu upplýsinga úr eftirliti og frammistöðuflokkun fyrirtækja milli Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Frumvarp sem búið er að leggja fyrir Alþingi gerir ráð fyrir slíkri samræmingu og veitir heimild til birtingar upplýsinga. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt verði að birta slíkar upplýsingar frá og með 1. janúar 2021.


Getum við bætt efni síðunnar?