Fara í efni

Aðgerðir gegn kampýlóbakter í kjúklingum í Evrópu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kampýlobaktersýkingar í fólki eru algengustu matarsýkingar i Evrópu og hefur tilfellum fjölgað stöðugt á meðan dregið hefur úr salmonellusýkingum um helming á síðustu 10 árum. Aukin tíðni kampýlobaktersýkinga er stórt lýðheilsuvandamál í Evrópu og veldur heilbrigðisyfirvöldum þar miklum áhyggjum. 

Á Íslandi varð faraldur kampýlóbaktersýkinga í fólki á árunum 1998-1999 eftir að sala ferks kjúklingakjöts var leyfð í verslunum. Eftir samstillt átak eftirlitsaðila og framleiðenda gegn kampýlóbakter hefur tíðni kampýlóbakters haldist lág hérlendis og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmynd í baráttunni gegn þessum algenga sjúkdómsvaldi.

Innan Evrópu er nú rætt um hvernig ná megi betri stjórn á hættum tengdum sjúkdómsvaldinum. Í meðfylgjandi skýrslu Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins (ESB) um aðgerðir gegn kampylóbakter (Campylobacter) í kjúklingum er gerð grein fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum í framleiðslu kjúklingakjöts í Evrópu. Allt kapp er lagt á að fækka kampýlobaktersmiti í kjúklingum, en bein tengsl eru á milli kampýlóbaktersýkinga í fólki og smits í framleiðslu kjúklingakjöts. Niðurstöður voru fengnar úr skoðunarheimsóknum í þremur ríkjum ESB og tveimur EFTA löndum, en Ísland var annað þeirra.

Einungis Ísland og Noregur (EFTA lönd) hafa ástundað frystingu á menguðu kjúklingakjöti sem fyrirbyggjandi aðgerð í baráttunni gegn kampýlóbakter. Frosið kjúklingakjöt er verðminna en ófrosið og hafa því aðgerðir gegn kampýlobakter í kjúklingum fyrst og fremst beinst að því að verja fuglana gegn smiti með góðum smitvörnum á búunum. Kappkostað er að framleiðendur geti sent frá sér ómengaða fuglahópa til slátrunar. Ekki er lögð áhersla á sértækar aðgerðir umfram góða starfshætti í sláturhúsum til að fyrirbyggja kampýlóbaktermengun. Í baráttu sinni við kampýlóbakter reyna EFTA löndin fyrst og fremst að fyrirbyggja smit í fuglana þannig að minni aðgerða sé þörf á síðari stigum framleiðslunnar.

Hin Evrópulöndin sem könnunin náði til telja hins vegar óvinnandi veg að fyrirbyggja kampýlobaktersmit í kjúklingum á búum. Leggja þau höfuðáherslu á áhættuminnkandi aðgerðir í slátruninni þ.e.a.s. á síðari stigum framleiðslunnar.

Stöðugt er verið að þróa og prófa nýjar aðferðir til að draga úr kampýlobaktermengun eftir slátrun, svo sem meðhöndla kjöt með heitri gufu eða hátíðnibylgjum/hljóði (ultrasound), eða snöggri yfirborðsfrystingu (crust freezing). Þrátt fyrir að hafa bætt sláturaðferðir sínar hafa Evrópulöndin ekki náð settum markmiðum um lægri tíðni kampýlóbakter í kjúklingum.

Markaðurinn kallar eftir fersku kjúklingakjöti en innan ESB er frysting kjöts frá smituðum eldishópum talin vera efnahagslega óframkvæmanleg. Bólusetningar á kjúklingum gegn kampýlóbakter hafa einnig verið prófaðar en ekki borið tilætlaðan árangur. Önnur leið getur verið að bólusetja kjúklinga með bakteríudrepandi veirum (bacteriophages) rétt fyrir slátrun en sú aðferð er dýr og getur valdið áhyggjum meðal neytenda.

Í stuttu máli blasir við að ríki ESB hafa ekki fundið viðunandi lausnir til að ná stjórn á kampýlobakter í kjúklingum og ekki náð að lækka tíðni smits í fólki. Frysting á kampýlóbaktermenguðu kjöti, eins og tíðkast hefur hér á landi í nær tvo áratugi, hefur til þessa reynst lang árangursríkasta aðgerðin í baráttunni gegn þessum sjúkdómsvaldi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?