Fara í efni

Áframhaldandi útbreiðsla afríkanskrar svínapestar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir hefur ekki tekist að stöðva útbreiðslu afríkanskrar svínapestar í Evrópu. Brýnt er að gæta smitvarna við flutning og ferðir milli landa, og við umgengni og fóðrun á svínum.

Um er að ræða alvarlegan sjúkdóm í svínum, sem í flestum tilvikum veldur dauða. Sjúkdómurinn berst ekki í önnur dýr né fólk. Veiran sem veldur sjúkdómnum getur m.a. borist með sýktum svínum og sæði, hráu kjöti af sýktum dýrum, sem og farartækjum, búnaði, fatnaði o.fl. sem mengast hafa af veirunni. Smitdreifing til nýrra landa er oftast rakin til matvæla og lifandi svína.

Til að sporna við því að smit berist hingað til lands er mjög mikilvægt að fólk sem ferðast erlendis, sérstaklega til þeirra landa sem sjúkdómurinn hefur greinst, taki alls ekki hrátt eða illa hitameðhöndlað kjöt með sér heim. Þau lönd í Evrópu sem um ræðir eru Rússland, Úkraína, Hvíta-Rússland, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkland, Rúmenía, Ungverjaland, Búlgaría, Moldavía, Belgía og ítalska eyjan Sardinía en ekki má gleyma að sjúkdómurinn er jafnframt til staðar í mörgum löndum Afríku. 

Mikilvægt er að svínaeigendur viðhafi ávallt góðar smitvarnir og tryggi að svínin komist ekki í matarleifar sem innihalda kjötafurðir. Jafnframt er rétt að minna á þá almennu reglu að bannað er að fóðra dýr sem alin eru til manneldis á dýrapróteinum, að undanskildu fiskimjöli.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gefið út myndband með fræðslu um sjúkdóminn og leiðbeiningar um varnir gegn honum

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?