Fara í efni

Æfing í viðbrögðum við alvarlegum dýrasjúkdómi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Þriðjudaginn 11. október mun fara fram æfing í viðbrögðum við alvarlegum dýrasjúkdómi á öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Heiti æfingarinnar er Autumn 2011. Hún er skipulögð af vinnuhópnum Nordic-Baltic Veterinary Contingency Group, sem styrktur er af Norrænu ráðherranefndinni.

  Tilgangur fjölþjóðlega hluta æfingarinnar er að þjálfa upplýsingamiðlun milli þeirra sem fara með stjórn dýraheilbrigðismála í löndunum, sendingu sýna milli landanna og hugsanleg lán á búnaði eða mannskap. Tilgangur íslenska hluta æfingarinnar er að þátttakendur fái þjálfun í að fylgja viðbragðsáætlun Matvælastofnunar vegna alvarlegra dýrasjúkdóma, finna veika punkta í áætluninni og tímamæla viðbrögðin. Jafnframt verða æfð samskipti milli starfsfólks Matvælastofnunar og Keldna í viðbrögðum við dýrasjúkdómum og sendingu sýna.

Þátttakendur frá Matvælastofnun í æfingunni verða yfirdýralæknir, tveir sérgreinadýralæknar, þrír héraðsdýralæknar, þrír til sex eftirlitsdýralæknar, lögfræðingur stjórnsýslusviðs, forstjóri og starfsmaður í móttöku. Frá Keldum taka þátt tveir til þrír sérfræðingar í örverufræðum.

Fundur um mat á æfingunni verður haldinn fimmtudaginn 13. október og stefnt er að því að gefa út skýrslu um íslenska hluta æfingarinnar fyrir miðjan nóvember en skýrsla um fjölþjóðlega hlutann verður væntanlega tilbúin í byrjun næsta árs.


Getum við bætt efni síðunnar?