Fara í efni

Aðgerðir Matvælastofnunar eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti með velferð búfjár.

Ríkisendurskoðun hóf í september 2022 stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár, nánar tiltekið grasbíta. Lokaskýrslu var skilað í nóvember 2023. Niðurstöður skýrslunnar sýndu fram á ákveðna þætti í starfsemi Matvælastofnunar sem nauðsyn væri að bæta og voru sett fram í sjö ábendingum til stofnunarinnar ásamt ábendingum sem var beint að Matvælaráðuneytinu. Umbótavinna tengd velferð dýra almennt var þegar hafin áður en Ríkisendurskoðun tók ákvörðun um úttekt um velferð grasbíta en sú vinna talar vel inn í niðurstöður úttektarinnar.

Matvælastofnun hefur nú tekið saman hvernig stofnunin hefur brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar í skýrslu. Skýrslan lýsir sömuleiðis hvernig stofnunin hefur lagt ríkari áherslu á stefnumótun og aðra umbótavinnu með það markmið að efla stofnunina í að sinna sínu hlutverki, hlúa betur að starfsfólki og efla traust almennings og viðskiptavina á störfum stofnunarinnar.

Breyttur verkferill við ákvarðanatöku á stjórnsýsluaðgerðum í dýravelferðarmálum hefur aukið skilvirkni og hraðað úrvinnslu mála. Sérstakt átaksverkefni til að efla samræmingu innan stofnunarinnar í eftirliti á landsvísu var innleitt. Eins var aukin áhersla lögð á að meta hæfni og getu umráðamanna til að halda dýr sem og geta þeirra til að sinna eigin eftirliti í samræmi við kröfur löggjafar.

Skýrslu stofnunarinnar má nálgast hér.


Getum við bætt efni síðunnar?