Fara í efni

Ábyrg matvælaframleiðsla er hagur allra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun telur afar mikilvægt að allir matvælaframleiðendur á Íslandi geri sér ljósa þá ábyrgð sem þeir bera.

Nýleg alvarleg tilfelli á erlendri grundu, þar sem neytendur eru vísvitandi blekktir, hafa skapað mikla ólgu á mörkuðum og rýrt tiltrú neytenda á gæði og uppruna þeirra matvæla sem þeim standa til boða. Upp hefur komist um svik bæði í fisk- og kjötframleiðslu. Í flestum tilfellum er um að ræða að ódýrari tegundum er vísvitandi blandað saman við dýrari.

Ísland er matvælaframleiðsluland og stór hluti þjóðartekna verður til við útflutning til annarra landa. Til viðbótar því að tryggja matvælaöryggi er ábyrgð framleiðenda því mikil. Jafnframt er Ísland hluti hins sameiginlega markaðar ESB samkvæmt EES-samningnum og gilda þess vegna sömu reglur hér og á meginlandinu. Samkvæmt þeim hafa neytendur rétt á að vörur séu rétt merktar. Það eru því eindregin tilmæli Matvælastofnunar að allir framleiðendur fari í átak til að tryggja réttar merkingar samkvæmt settum reglum og að neytendur geti treyst innihaldslýsingum og gæðum þeirra vara sem þeir kaupa, sama af hvaða uppruna þær eru. Matvælastofnun hefur á undanförnum vikum haldið afar fjölsótt námskeið um merkingar matvæla, sem sýnir áhuga matvælaframleiðenda á að standa rétt að hlutunum.

Matvælastofnun vaktar tilkynningar um hættuleg og ólögleg matvæli og fóður í samevrópska tilkynninganetinu RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed). Ísland hefur hingað til ekki verið á listum yfir lönd sem ólöglegum matvælum (kjöti og fiski) hefur verið dreift til, en grannt er fylgst með framvindu þessara mála á erlendri grundu.

Í nýlegri könnun Matvælastofnunar fundust vörur sem ekki voru rétt merktar með tilliti til efnainnihalds. Matvælastofnun mun í reglubundnu eftirliti leggja áherslu á að reglum sé fylgt og mun í samráði við aðra eftirlitsaðila taka sýni til að sannreyna ástandið ef tilefni er til.


Getum við bætt efni síðunnar?