Fara í efni

Áburðareftirlit Matvælastofnunar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Matvælastofnun hefur annað árið í röð birt skýrslu vegna eftirlits með áburði. Það er gert samkvæmt reglugerð nr. 291/2010 um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði. Áður var ekki heimilt að birta þessar niðurstöður samkvæmt stjórnsýsluúrskurði  sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins frá febrúar 2008.

  Matvælastofnun hefur eftirlit með að áburður sem er seldur á Íslandi og skráður hefur verið hérlendis sé í samræmi við vörulýsingar og reglur um efnainnihald. Eftirlitið felur í sér skráningu á öllum fyrirtækjum sem flytja inn eða framleiða áburð til sölu. Allar áburðartegundir sem boðnar eru til sölu ber einnig að skrá hjá stofnuninni.  Við skráningu skal vörulýsing með hlutföllum næringarefna liggja fyrir, ásamt yfirlýsingu frá framleiðanda um að kadmíum sé ekki yfir 50 mg á kg fosfórs, en það er það hámark sem leyft er hér.

Verklag stofnunarinnar við eftirlit felur í sér sýnatöku af áburði og vöruskoðun.

Innflutningur á áburði fer að mestu fram í apríl og fyrri hluta maí. Við sýnatöku er tekið heildarsýni sem er skipt niður í fjögur sýni. Viðkomandi fyrirtæki fær eitt sýni og eitt fer í efnagreiningu á vegum Matvælastofnunar, en tvö sýni eru í vörslu stofnunarinnar til frekari greininga ef þurfa þykir. Sýni Matvælastofnunar eru efnagreind hjá viðurkenndri efnagreiningastofu í Þýskalandi. Hafi áburðurinn verið í lagi á síðasta ári eru sýnin efnagreind án sérstaks forgangs og því getur tekið  6-8 vikur að fá niðurstöður. Þegar niðurstaða berst hefur áburðinum verið dreift til kaupenda og hann jafnvel kominn á tún og akra. Komi í ljós við efnagreiningar að áburðurinn stenst ekki kröfur um efnainnihald fær viðkomandi fyrirtæki rétt til að andmæla þeirri niðurstöðu með því að senda sitt sýni í efnagreiningu eða með öðrum hætti.  Séu niðurstöður Matvælastofnunar og fyrirtækisins samhljóða um frávik í efnainnihaldi er áburðurinn tekinn af skrá stofnunarinnar og er þá óheimilt að markaðsetja hann. Fyrirtækið þarf því að endurskrá viðkomandi áburðartegund með tilskildum upplýsingum og vottorðum. Við næsta innflutning eru sýni tekin af áburðinum og sala hans og afhending ekki heimiluð fyrr en búið er að sannprófa með sýnatöku og efnagreiningu að hann standist kröfur.

Slíðastliðið vor flutti Skeljungur hf. inn rúmlega 11 þúsund tonn af áburðartegundum undir heitinu Sprettur, sem breska fyrirtækið Carrs framleiðir. Í þessum áburði voru um 440 tonn af fosfór. Við  efnagreiningar á þessum áburði reyndist kadmíuminnihald vera ríflega tvöfalt það sem leyfilegt er samkvæmt íslenskum reglum. Fyrstu niðurstöður sem gáfu til kynna að kadmíum var yfir mörkum komu 20. maí og endanleg niðurstaða 9. júní. Heildarmagn kadmíums í þessum áburði var um 50 kg. Þessi áburður er fullgild vara í flestum Evrópulöndum, en þau hafa hærri eða engin mörk hvað innihald kadmíums varðar.

Á undanförnum árum hefur kadmíum í  áburði þessa fyrirtækis verið langt undir mörkum og oftast ekki í mælanlegu magni. Því var afhending og sala á áburðinum heimiluð á meðan á sýnatöku og efnagreiningu stóð.  Við næsta innflutning verður dreifing þessa áburðar ekki heimiluð fyrr en að efnagreining sýnir fram á að hann standist kröfur, eins og fram kemur í lýsingu á verklagi eftirlits að ofan.Í ljósi þess að þarna var um einstakt tilvik að ræða, ekki bráða hættu og að áburðurinn var að verulegu leyti farinn í dreifingu til kaupenda, var tekin sú ákvörðun krefjast ekki innköllunar á áburðinum.


Getum við bætt efni síðunnar?