Fara í efni

Kína - útflutningur matvæla

Sjá mikilvægar upplýsingar fyrir árslok 2022.

Kínversk yfirvöld setja ströng skilyrði fyrir erlenda framleiðendur matvæla sem ætla að flytja afurðir sínar til Kína. 

Frá 1. janúar 2022 þurfa allir erlendir framleiðendur matvæla að skrá sig í CIFER (China Import Food Enterprises Registration) undir Single Window gáttinni áður en þeir hefja útflutning til Kína.

Matvælastofnun leggur áherslu á ábyrgð framleiðenda að kynna sér vel það regluverk sem gildir í Kína varðandi erlenda framleiðendur og matvæli. Það er á ábyrgð framleiðenda að uppfylla allar kröfur. Á þessari síðu má nálgast ýmsar upplýsingar varðandi kröfur Kínverja og skráningarferlið.

Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu framleiðenda af ákveðnum afurðum og er það stjórnvald á Íslandi sem ber ákveðna ábyrgð á eftirliti með þeim sem hyggjast flytja matvæli til Kína.

GACC (General Administration of Customs of the People's Republic of China) er það stjórnvald í Kína sem fer með umsjón með málaflokknum.

Flokkar matvæla

Framleiðendum er bent á að nota upplýsingar úr kínversku tollskránni til að ákvarða í hvaða afurðarflokk þeirra afurðir falla. Eftirfarandi flokkun er notuð til ákvörðunar um hvers konar skráning í CIFER sé nauðsynleg. Sjá nánar í Tilskipun 248.

Mikil áhætta

Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu Í CIFER

Meðal áhætta

Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu í CIFER

Lítil áhætta

Fyrirtæki sjá sjálf um skráningu í CIFER

Kjöt og kjötafurðir
Lagarafurðir (sjávar og ferksvatns-afurðir)
Mjólkurafurðir
Hreiður

Garnir

Býafurðir
Egg og eggjaafurðir
Olíur og fitur
Fyllt brauðmeti
Korn
Malað korn og malt
Ferskt og þurrkað grænmeti og þurrkaðar baunir
Óristaðar kaffibaunir kakóbaunir
Bragðbætar (condiment)
Hnetur og fræ
Matvæli fyrir sérstaka hópa (special dietary purpose)
Functional foods (heilsufæði)

Vörur sem eru ekki flokkaðar með mikla eða meðal áhættu eru álitnar með litla áhættu. Framleiðendur þeirra afurða sækja sjálfir um leyfi til útflutnings til Kína í Single Window.

Framleiðendur þurfa auk þess að vera með viðskiptaaðila (innflytjanda) í Kína og þau tengsl þarf að skrá sérstaklega. Matvælastofnun kemur ekki að þessari skráningu.

Samþykktar afurðir og samningar

Framleiðendum er bent á að kanna hvort milliríkjasamningur sé nauðsynlegur grundvöllur fyrir útflutningi afurða þeirra til Kína.

 Skráningarferlið

Starfsleyfi á Íslandi

 • Fyrirtæki sem hafa ekki starfsleyfi til framleiðslu á Íslandi byrja á því að sækja um starfsleyfi í þjónustugátt MAST eða hjá heilbrigðiseftirlitinu í sínu umdæmi.

Útflutningsleyfi til Kína

 • Framleiðendur með starfsleyfi á Íslandi sækja um leyfi til útflutnings til Kína í þjónustugátt Matvælastofnunar  - Umsókn 4.36

Umsókn í Single Window

 • Matvælastofnun veitir framleiðanda aðgang að CIFER Single Window skráningarkerfinu. Aðeins einn aðgangur er búinn til fyrir hvert starfsstöðvarnúmer.
 • Nafn og heimilisfang skal vera skráð í nefnifalli.
 • Framleiðendur skrá inn ýmsar upplýsingar um fyrirtækið, afurðir sem þeir hyggjast flytja út (HS og CIQ kóðar) og hlaða inn gögnum sem óskað er eftir (stjörnumerkt) s.s. teikningum, starfsleyfi, yfirlýsingu o.fl. Allar upplýsingar og gögn þurfa að vera á ensku eða kínversku.

Gátlisti

 • Framleiðendur skulu fara yfir  gátlista sem vísar í viðeigandi reglur í Kína. Þessum gátlista þarf að svara og hann skal undirritaður af ábyrgðarmanni fyrirtækisins. Matvælastofnun staðfestir upplýsingarnar og áframsendir gátlistann til yfirvalda Kína þegar umsóknin telst fullunnin.
 • Framleiðendur þurfa að kynna sér vel þær kröfur sem eru gerðar eru í Kína til erlendra framleiðenda.

Úttekt

 • Matvælastofnun gerir úttekt á fyrirtækinu skv. kínverskum kröfum með áðurnefndan gátlista til grundvallar. Niðurstaða úttektarinnar ákvarðar hvort Matvælastofnun mæli með skráningu fyrirtækisins við kínversk yfirvöld eða hvort þurfi að gera lagfæringar áður. Þegar fyrirtækið telst uppfylla allar kröfur og allar upplýsingar eru til staðar í umsókninni er umsóknin send til kínverskra yfirvalda, með fylgigögnum.
 • Allur tilfallandi kostnaður af úttektinni greiðist af umsækjanda.

Myndbandsúttekt

 • Í einhverjum tilfellum munu kínversk yfirvöld óska eftir myndbandsúttekt á umsækjendum.
 • Umsækjandi þarf þá að standa straum af kostnaði t.d. vegna tækjaleigu eða annars svo hægt sé að framkvæma myndbandsúttektina á viðeigandi hátt.

Umsókn samþykkt - leyfi veitt

 • Þegar kínversk yfirvöld hafa samþykkt fyrirtækið fær fyrirtækið kínverskt skráningarnúmer.

Umsókn um breytingu

 • Þegar þarf að breyta upplýsingum þarf að sækja um breytingu á leyfi (modification application). 
 • Þessi umsókn á við t.d. þegar þarf að bæta við nýjum afurðum í leyfið, uppfæra gögn o.s.frv.
 • Allir forskráðir framleiðendur (sem voru á lista fyrir 1. janúar 2022) þurfa að uppfæra skráningu sína með breytingarumsókn fyrir 30. júní 2023. Ýmsar upplýsingar vantar og mikilvægt er að tryggja réttar upplýsingar.
 • Þær upplýsingar sem þarf að skrá eru m.a.:
  • Upplýsingar um tengiliði og stjórnendur
  • Nákvæmar upplýsingar um vörur sem framleiðandi vill flytja út (leyfi einskorðast við afurðir sem eru skráðar). Til þess þarf upplýsingar um kínversk tollskrárnúmer
  • Upplýsingar um vinnslu og mannauð
 • Með breytingarumsókn þurfa eftirfarin gögn að fylgja:
  • Afrit af starfsleyfi
  • Útfylltur og undirritaður gátlisti.
  • Útfyllt og undirituð yfirlýsing framleiðanda
  • Teikning af húsnæði
  • Flæðirit fyrir skráðar afurðir

Umsókn um endurnýjun

 • Leyfi er gefið út í fimm ár í senn. Þremur til sex mánuðum áður en leyfið rennur út þurfa framleiðendur að sækja um endurnýjun á leyfinu sínu. Upplýsingar um gildistíma skráninga er að finna á ciferquery.singlewindow.cn 
 • Með endurnýjunarumsókn þarf að fylgja ný  yfirlýsing frá framleiðanda (e. declaration of conformity for continued registration, hægt að nálgast inn í CIFER) og útfylltur og undirritaður gátlisti.

Mikilvægar upplýsingar fyrir árslok 2022

Þeir framleiðendur sem höfðu leyfi til útflutnings matvæla til Kína fyrir 1. janúar 2022 færðust sjálfkrafa inn í CIFER. Ýmsar upplýsingar vantar þó enn um alla þá framleiðendur og þeir þurfa að fullklára skráningu sína fyrir 30. júní 2023. Það skal gert með því að senda inn breytingarumsókn í gegnum CIFER með upplýsingum um neðangreind atriði.

GACC hafa veitt almennan frest til 30. júní 2023 til þess að klára ferlið en vakin er athygli á því að þónokkur fyrirtæki hafa leyfi sem rennur út fyrir þann tíma og munu þurfa að ljúka ferlinu fyrr.  Nánari upplýsingar veitir starfsfólk inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar en einnig er bent á tölvupóst til framleiðenda sem sendur var 9. september 2022.

 1. Upplýsingar um fyrirtæki: Skrá heiti fyrirtækis, heimilisfang og ábyrgðaraðila (legal representative). Ábyrgðaraðili er sá sem fer með ábyrgð á fyrirtækinu, s.s. forstjóri, framkvæmdastjóri, eigandi. Mikilvægt er að gæta þess að upplýsingar séu réttar þegar þær eru skráðar inn því erfitt getur verið að breyta þessum upplýsingum eftirá. Upplýsingar skulu vera í nefnifalli og í samræmi við útgefið leyfi Matvælastofnunar.
 2. Skráning afurða: Tryggja að í kerfinu séu skráðar þær afurðir sem fyrirtækið er að flytja til Kína. Bæta við ef það vantar og taka út afurðir sem eiga ekki við. Afurðir eru skráðar eftir HS/CIQ kóðum og best er að fá aðstoð frá viðskiptaaðilum í Kína til þess að finna réttu kóðana. MAST hefur ekki þekkingu á kóðunum. Yfirlit um afurðir má finna undir 'Product type query' inn í CIFER.
 3. Stjörnumerktir reitir og fylgiskjöl: Nauðsynlegt er að fylla út stjörnumerkta reiti og hengja við umsóknina þau gögn sem óskað er eftir í stjörnumerktum reitum. Öll gögn þurfa að vera á ensku (eða kínversku). Um er að ræða t.d. flæðirit, teikningu af húsnæði, starfsleyfi o.s.frv.
 4. Yfirlýsing: Ábyrgðarmaður fyrirtækisins fyllir út yfirlýsingu, kvittar og stimplar. Þegar umsókn er hafin sendir MAST viðkomandi fyrirtæki gátlista yfir kínverskar kröfur sem eru gerðar til erlendra framleiðenda sem fyrirtækið þarf einnig að fylla út og ábyrgðaraðili að kvitta og stimpla á.
 5. Umsókn send: Fyrirtækið sendir umsóknina frá sér þegar hún er tilbúin. Umsóknin fer í gegnum MAST. MAST fer yfir umsóknina áður en hún er send til GACC. Umsóknin er ekki send til GACC nema MAST telji að öll gögn séu til staðar og nægjanleg. Umsóknin getur verið send á milli fyrirtækis, MAST og GACC nokkrum sinnum áður en samþykki liggur fyrir.

COVID-19

Mikil áhersla hefur verið lögð á viðbrögð framleiðenda við COVID-19 í myndbandsúttektum sem GACC framkvæmir. Kínversk yfirvöld taka sýni af sendingum sem berast til landsins. Greinist COVID-19 á sendingu matvæla má búast við því að óskað verði eftir t.d. myndbandsúttekt, upplýsingum um verkferla, viðbrögð og úrbætur framleiðenda við COVID-19 smit o.s.frv. Ef niðurstaða úttektar GACC er neikvæð má búast við tímabundinni lokun eða afturköllunar skráningar.  

Hér fyrir neðan eru nokkrir hlekkir með upplýsingum.

Merkingar

Framleiðenum er bent á að kynna sér vel þær kröfur sem gerðar eru um merkingar. Tilskipun 249 fer m.a. yfir þær kröfur sem eru gerðar til merkinga ákveðinna afurðaflokka, bæði innri og ytri umbúða.

Lög og reglugerðir

 Gott að hafa í huga

Þegar farið er inn á CIFER birtist heimasíðan á kínversku, en hægt er að velja tungumál með hnappi í efra hægra horninu. Gott er þó að þýða heimasíðuna yfir á ensku, t.d. með Google translate tóli. 

Handbók fyrir CIFER. Nýjasta útgáfa er ávallt aðgengileg inn á CIFER.

Upplýsingafundur 3. október 2022

Inn-og útflutningsdeild Matvælastofnunar stóð að upplýsingafundi fyrir framleiðendur um CIFER kerfið þann 3. október 2022. Tilefnið var að aðstoða og hvetja framleiðendur til þess að vinna í skráningum sínum.
Áhugasömum framleiðendum er bent á að einnig er hægt að nálgast upptöku af fundinum með því að hafa samband við Inn-og útflutningsdeild.

Glærur af CIFER upplýsingarfundi

Uppfært 01.12.2022
Getum við bætt efni síðunnar?