Fara í efni

Skrautfuglar

Almenn meðferð og umhirða skrautfugla

Þegar fuglar eru hafðir saman, skal val á fuglum taka mið af tegund, aldri, kyni og öðrum þáttum sem minnka líkur á ósætti.

Óheimilt er að tjóðra búrfugla. Þó má í undantekningartilvikum festa band við fóthring í skamma stund ef nauðsyn krefur við sérstakar aðstæður, eins og við flutning á fuglinum, og þá undir stöðugu eftirliti.

Búrfuglar skulu hafa óheftan aðgang að vatni og fóðri sem hæfir tegundinni. Ef fleiri fuglar eru saman í búri skulu allir geta náð til fóðurs samtímis.

Búrfuglum skal almennt gefinn kostur á að fljúga. Aðeins má vængstýfa þá fugla sem ekki er hægt að halda öðruvísi og þá aðeins af aðila sem hefur reynslu og þekkingu á slíku, að mati Matvælastofnunar. Aðra fugla má þó vængstýfa tímabundið ef þörf er á í upphafi þjálfunar og tamningar. Vernda skal vængstýfða fugla fyrir óvinveittum dýrum. Óheimilt er að skilja búrfugla eftir án eftirlits lengur en einn sólarhring

Undaneldi og umönnun ungviðis

Verpandi fugli skal tryggð aðstaða, s.s. í varpkassa þar sem fugl er varinn fyrir áreiti úr umhverfi. Tryggja skal að varp og ungauppeldi búrfugla gangi ekki nærri holdafari eða heilsu þeirra.

Almennur aðbúnaður fugla

  • Tryggja skal aðstöðu og umhverfi sem uppfyllir þörf fuglsins fyrir afþreyingu og eðlilega hreyfingu. Staðsetning fuglabúrs skal vera þannig að fugl geti notið dagsbirtu eða lýsingar og sé varinn fyrir dragsúg og óþarfa áreiti.
  • Fuglabúr skulu þannig gerð, að þau henti fuglategundinni og þeir geti séð og heyrt það sem fram fer í umhverfi þeirra. Í fuglabúri skulu vera minnst tvö prik til að sitja á, af gerð og sverleika sem hentar fyrir tegundina. Botn skal vera heill með heppilegum undirburði. Séu margir fuglar í sama búri, skal vera það rúmt um fugla, að þeir geti allir setið samtímis á priki og unnt sé að fljúga á milli prika. Í búrum fyrir fleiri fugla skal jafnframt vera afdrep fyrir þá fugla sem er eiginlegt að draga sig í hlé, eða þá sem sýna merki um veikindi eða streitu. Búr ætluð páfagaukum skulu vera þannig að þeir geti klifrað í þeim. Lágmarkshæð fuglabúra frá gólfi mælt til hæsta setpriks skal vera 1,5 m. Stærð og gerð búra skal uppfylla lágmarkskröfur skv. 5. lið viðauka II.
  • Fuglar skulu njóta dagsbirtu eða lýsingar í minnst átta klst. á dag. Stöðug sterk lýsing og sterk lýsing að næturlagi er óheimil. Verpandi búrfuglar og fuglar sem settir eru í nýtt umhverfi skulu þó tímabundið hafa dauft næturljós. Hiti skal vera innan þeirra marka sem er tegundinni eðlilegt.
  • Sandbaðandi fuglar skulu hafa aðgang að hreinum fínkorna sandi. Baðandi fuglar skulu hafa reglulegan aðgang að hreinu baðvatni. Fuglabað skal vera af stærð og gerð sem hæfir tegundinni og skal ekki vera dýpra en svo að fuglinn geti staðið í botni þess.

Innflutningur skrautfugla til Íslands

Hér er að finna upplýsingar um innflutning skrautfugla sem haldnir eru sem gæludýr. Afla skal innflutningsleyfis Matvælastofnunar og leggja fram vottorð sem sýnir fram á að skrautfuglarnir uppfylli heilbrigðisskilyrði. Þeir skulu svo dvelja í sóttkví (heimaeinangrun) í 4 vikur við innflutning. 

Athugið að fyrir tegundir sem eru á válista (í útrýmingarhættu) skal afla sk. Cites vottorðs bæði í útflutningslandi og á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Cites málum. 

Útflutningur skrautfugla

Ef flytja á skrautfugl frá Íslandi til annars lands skal kynna sér reglur viðkomandi móttökuríkis. Í sumum löndum er gerð krafa um heilbrigðisvottorð vegna innflutnings. Mælt er með því að afla upplýsinga á opinberum vefsíðum viðkomandi ríkis, þ.e. dýralæknayfirvalda í viðkomandi landi og hefja undirbúning í samráði við dýralækni tímanlega. Athugið að fyrir tegundir sem eru á válista (í útrýmingarhættu) skal afla sk. Cites vottorðs bæði í útflutningslandi og á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Cites málum. 

 

 

Uppfært 20.04.2020
Getum við bætt efni síðunnar?