Fara í efni

Flutningur á heyi, hálmi og torfi

Flutningar á heyi, hálmi og torfi yfir varnarlínur eru í sumum tilfellum háðir leyfum Matvælastofnunar. Sumir flutningar krefjast ekki leyfis og aðrir flutningar eru hreinlega bannaðir út frá ákvæðum reglugerða og laga.

Skv. reglugerð um garnaveiki nr. 911/2011 er óheimilt að flytja af garnaveikibæjum búfjáráburð og hey, heyköggla, hálm, túnþökur og gróðurmold af landi sem húsdýraáburður hefur verið borinn á eða jórturdýr gengið á.

Skv. reglugerð um útrýmingu á riðuveiki nr. 651/2001 þá er óheimilt að flytja milli bæja innan riðusýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Í ákveðnum tilfellum getur héraðsdýralæknir veitt leyfi en þá þarf hey að vera í plöstuðum stórböggum eða rúllu. Þökur má aðeins nota á svæðum þar sem sauðfé kemst ekki að.

Skv. lögum um dýrasjúkdóma er óheimilt að flytja hey og annað sem getur borið smitefni, frá riðusýktum svæðum yfir á hrein svæði.

Ekki er þörf á leyfi þegar hey, heykögglar, hálmur, húsdýraáburður, túnþökur, gróðurmold o.s.fv. er flutt yfir varnarlínur frá hreinum svæðum sem eru laus við riðuveiki og garnaveiki.

Uppfært 13.02.2020
Getum við bætt efni síðunnar?