• Email
  • Prenta

Hófasperra í hrossum

Hófsperra er alvarlegur sjúkdómur sem lengi hefur verið þekktur í íslenska hestinum. Á meginlandi Evrópu verður hann nú sífellt algengari og virðist sú þróun stefna í sömu átt hér á landi. Í hugum margra hestamanna er þessi sjúkdómur að verða ein helsta ógnin við heilbrigði íslenska hrossakynsins. Gögn sænska tryggingafélagsins Agria sýna verulega aukningu á tíðni sjúkdómsins og er hófsperra nú orðin helsta orsök þess að félagið greiðir út tryggingabætur vegna íslenskara hesta, hvort heldur er vegna lækninga eða aflífunar. Samkvæmt gögnum félagsins er hófsperra algengari í íslenska hestinum en öðrum hrossakynjum.

Ástæður hófsperru

Hófsperra er flókinn sjúkdómur og ástæður hans eru enn ekki að fullu skýrðar.

Helsta ástæða bráðrar hófsperru er snögg fóðurbreyting þar sem hross komast í mikið af auðmeltanlegum sykrum. Þetta gerist t.d. þegar hestar komast fyrirvaralaust á græn grös (hættulegast á sólríkum en köldum dögum vor og haust þegar grösin innhalda mikið fruktan) eða í óheft kjarnfóður. Hin skyndilega fóðurbreyting lækkar sýrustigið í víðgirninu og raskar hinni mikilvægu þarmaflóru sem þar er. Við það skaðast þarmaveggurinn og eitruð efni eiga greiða leið inn í blóðrásina. Þessi eiturefni hafa í raun áhrif á allan líkamann en kvikan sem tengir hófbeinið við hófvegginn er sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þeirra. Röskun verður á blóðrás kvikunnar sem leiðir til kvikubólgu. Kvikubólga er það sem við í daglegu tali köllum hófsperru. Umfangsmikil og alvarleg kvikubólga getur leitt til þess að hófbeinið missir hina sterku tengingu við hófvegginn og getur tekið að snúast inni í hófnum. Ekki þarf að fjölyrða hversu sársaukafullt það er og þó svo hægt sé að draga úr bólgunni með lyfjagjöf er hætt við að hófurinn verði aldrei samur.

En fleira getur komið til og það er langt því frá að hægt sé að útskýra öll tilfelli hófsperru með framangreindum skýringum.

Í seinni tíð hafa rannsóknir beinst að efnaskiptum hrossa og hvort þar megi leita skýringa, einkum á langvinnri hófsperru. Vitað er að of feitum hrossum er sérstaklega hætt við hófsperru. Það er rakið til þess að oft hefur tiltekin röskun átt sér stað í efnaskiptum þeirra. Röskun þessi er að mörgu leyti sambærileg við sykursýki 2 í mönnum og kallast á ensku Equine Metabolic Syndrome (EMS). Við EMS fækkar viðtökum fyrir insúlíni í frumum líkamans sem veldur því að þær geta ekki nýtt sér glúkósa í blóðinu. Insúlín er hormón framleitt í briskirtli og er hlutverk þess að tempra styrk glúkósa í blóði. Það er nauðsynlegt fyrir upptöku glúkósa í öllum frumum líkamans að undanskildum frumum í heila, nýrum, æðum og þörmum. Vinnandi vöðvafrumur geta einnig nýtt sér glúkósa beint, án tilstuðlan insúlíns.

Vísbendingar eru um að smáhestar séu frá náttúrunnar hendi með færri insúlínviðtaka en önnur hrossakyn. Þetta hafi gerst við náttúruval þar sem þau ná þannig að spara þann takmarkaða glúkósa sem þau ná sér í fyrir lífsnauðsynlega starfsemi, s.s. í heila og nýrum, en brjóta niður fitu til orkugjafar fyrir aðra vefi líkamans. Þessi hæfileiki hefur hjálpað hrossum að lifa af tímabundinn fæðuskort og eflst við náttúruval. Bilið milli efnaskipta sem hjálpa hestinum við að lifa af erfiðar aðstæður og efnaskiptaröskunar, EMS, getur því verið stutt í hestum á norðlægum slóðum.

Hross sem hafa verið feit frá unga aldri og einkum þau sem safna fitu staðbundið í makka og ofan á taglrót eru líklegust til að þróa EMS sem aftur eykur verulega hættuna á að þau fái hófsperru. Erfitt getur verið að staðfesta að hross séu með EMS öðruvísi en út frá klínískum einkennum. Blóðrannsókn getur þó leitt í ljós hækkun á insúlíni og fitusýrum í blóði.

Kenningar eru um að það sé einmitt of mikið insúlín í blóði valdi m.a.samdrætti í smáæðum kvikunnar og þar með hófsperru.

Sjúkdómseinkenni

Sem fyrr segir er hósperra birtingarform sjúkdóms sem í raun herjar á allan líkamann. Hófsperra er afar kvalafullur sjúkdómur sem leiðir í verstu tilfellum til þess að hesturinn fær sig ekki hreyft. Alla jafna er sársaukinn meiri í framhófunum og standa hestar með hófsperru því gjarnan með afturfæturna langt innundir sig til að létta á framhlutanum. Í sumum tilfellum má sjá þá víxla stöðugt þunganum milli framfótanna en mjög erftitt getur þó verið að fá þá til að lyfta fæti. Við þreifingu má finna að hófarnir eru heitir með miklum slætti í aðliggjandi æðum. Batahorfur ráðast að miklu leyti af því hversu alvarleg sjúkdómseinkennin eru og hvort hófbeinið hafi hreyfst til innan í hófnum. Röntgenmyndataka er oftast nauðsynleg til að meta það en líðan hestsins og svörun við verkjastillandi meðhöndlun segir þó mest til um framvinduna. Nauðsynlegt getur verið að aflífa hross sem þjást mikið enda eru batahorfurnar þá litlar.

Í vægari tilfellum verða hestar stirðir til gangs en ekki er víst að eigandinn verði þess var, t.d. yfir sumarið, ef hesturinn er ekki í notkun á þeim tíma. Ef ástandið varir lengi munu afleiðingarnar þó sjást á hófunum, t.d. með breikkaðri hvítu línu. Fóðurbreytingalínur sem gleikka til jaðranna eru einnig öruggt merki um að hesturinn hafi fengið hófsperru. Hross með mjög mild einkenni geta fengið bata innan eins til þriggja daga.

Meðhöndlun

Bregðast verður skjótt við hófsperru og hafa strax samband við dýralækni. Ekki á að hreyfa hestinn úr stað því það eykur hættuna á að hófbeinið snúist eða færist niður. Æskilegt undirlag er þykkt lag af sandi eða mikið magn af sagi þannig að hesturinn geti vísað tánni niður á meðan það versta gengur yfir. Aðeins má gefa hestum með hófsperru gróft hey eða hálm og alls ekkert kjarnfóður. Gott er að setja heyið í net sem hengt er upp til að forða hestinum frá að teygja hálsinn niður. Verkjastillandi meðhöndlun er mikilvæg og þegar hesturinn hefur náð þeim bata að hann getur hreyft sig eða lyft fótum þarf að fá járningamann til að klippa hófana og sjúkrajárna.

Forvarnir

Hross sem fengið hafa hófsperru eru í mikilli hættu á að fá hana aftur. Þau þarf að verja sérstaklega fyrir fóðurbreytingum og gefa amk tvær til þrjár vikur í aðlögun að beit og þá helst eingöngu á útjörð. Jafnvel lítið magn sykurs getur haft bakslag í för með sér en mörg þessara hrossa geta aldrei farið aftur á beit sem þýðir í raun endalokin. Mikilvægustu forvarnirnar felast í að hindra að hross verði akfeit (holdastig 4 eða meira) og að tryggja þeim næga hreyfingu. Ekki er auðvelt að stjórna holdafari hrossa sem eru á frjálsri beit og verður varla gert nema með skipulagðri hreyfingu. Rannsóknir hafa sýnt að hross sem fá aðeins að fara á beit í stuttan tíma á dag éta þeim mun hraðar og ná þannig að vinna upp hinn tapaða beitartíma. Mörg íslensk hross á meginlandi Evrópu fitna strax sem ung hross, en mikilvægt er að reyna að koma í veg fyrir það.

Samantekt

Segja má að EMS sé velferðarsjúkdómur í hrossum sem orsakast að mestu leyti af offitu og hreyfingarleysi. Ung hross þurfa helst að alast upp á rúmu landi og í hópi hrossa á svipuðum aldri, svo þau geti hlaupið um og leikið sér. Fullorðin hross þurfa einnig mikla hreyfingu og geta ekki verið á óheftri beit. Sérstaklega ber að varast að beita hrossum á ræktað land nema þau séu í þeim mun meiri þjálfun og hafi fengið góða aðlögun að slíkri beit. Skynsamleg fóðrun og þjálfun hrossa – hvorki of eða van - er grundvöllur góðrar heilsu og þá ábyrgð verða eigendur að axla.

Tilvísanir: Durham A. E. Equine Metabolic Syndrome: Evolutionary Origins and Pathophysiology. Swedish Veterinary Congress 2010.
Durham A. E. Treatment and Management of Equine Metabolic Syndrome. Swedish Veterinary Congress 2010.
Ove Wattle. Fång. Equilibris 2010.


Höfundur: Rebecka Frey, dýralæknir
Þýtt og staðfært af Matvælastofnun