• Email
  • Prenta

Greiðslumark mjólkur

Samkvæmt reglugerð 190/2011  eiga viðskipti með greiðslumark mjólkur á lögbýlum sér stað á uppboðum sem haldin verða þann 1. apríl og 1. nóvember. Með reglugerð nr. 239/2014 bætist þriðji uppboðsmarkaðurinn við. Sá er haldinn 1. september og skal skila tilboðum vegna hans eigi síðar en 25. ágúst. Á uppboðsmarkaði mætast kaupendur og seljendur og er söluverð ákvarðað. Hverjum framleiðanda er í sjálfsvald sett hvaða verð er boðið.

Greiðslumark mjólkur er ákveðið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði. Kaup og sala á greiðslumarki mjólkur eru því í raun viðskipti með framleiðslurétt og þar með réttindi til að njóta beingreiðslna úr ríkissjóði. Með nýrri reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá 10. maí 2010 var komið á nýju fyrirkomulagi með þessi viðskipti. Kvótamarkaðir með greiðslumark mjólkur eru nú haldnir þrisvar á ári, þann 1. apríl, 1. september og 1. nóvember. Bændur sem hug hafa á að selja frá sér, eða afla sér frekara greiðslumarks, gera skrifleg tilboð þar sem fram kemur ósk viðkomandi um verð og magn. Verð sem myndast á kvótamarkaði er kallað jafnvægisverð. Öll viðskipti á kvótamarkaði þann 1. nóvember fara fram á því verði sem uppboðið skilaði.

Jafnvægisverð

Í samræmi við reglugerð nr. 190/2011 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum er jafnvægisverð fundið með eftirfarandi aðferð:

Framboðið magn greiðslumarks er raðað frá lægsta verði til þess hæsta og eftirspurðu kaupmagni raðað frá hæsta verði til þess lægsta.

Þessu næst er uppsafnað sölumagn á lægsta boðna söluverði fundið sem hlutfall af uppsöfnuðu boðnu kaupmagni á kaupverði sem er jafnt eða hærra en fyrrgreint lægsta boðna söluverð. Sé framangreint hlutfall minna en 1 er næsta uppsafnaða sölumagn á næsta söluverði reiknað út með sama hætti. Þannig er haldið áfram koll af kolli þar til það hlutfall er orðið sem næst eða jafnt og 1. Þar sem hlutfall þetta er sem næst einum kemur fram gildandi markaðsverð hverju sinni.

Hverjir geta keypt og selt á kvótamarkaði?

Viðskipti á kvótamarkaði byggjast á jafnvægisverði. Framleiðendur sem vildu selja greiðslumark sitt á lægra eða sama verði og hið endanlega jafnvægisverð geta nú selt greiðslumark sitt. Eins geta þeir framleiðendur sem voru reiðubúnir til að greiða jafnhátt eða hærra verð en fram kom á kvótamarkaðinum nú keypt greiðslumark.

Ítarefni