• Email
  • Prenta

Hvaða reglur gilda um Skráargatið?

Reglugerð nr. 428/2015 um Skráargatið gildir fyrir notkun merkisins við merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.

Reglugerðin byggist á 33 matvælaflokkum sem fram koma í viðauka 2 og eru mismunandi skilyrði um innihald eftirfarandi næringarefna fyrir hvern matvælaflokk:

  • Fitu (hámark)
  • Gerð fitu (hámark mettaðrar fitu)
  • Sykurtegundir; heildarsykurinnihald og viðbættar sykurtegundir (hámark)
  • Salt  (hámark)
  • Trefjar (lágmark)

Fjöldi skilyrða í matvælaflokkunum er breytilegur eftir því hvað á við í viðkomandi matvælaflokki og út frá mikilvægi matvælaflokksins fyrir mataræðið. Í sumum matvælaflokkum eru einnig sett skilyrði um hlutfall af heilkorni og/eða kartöflum og grænmeti ásamt orkuinnihaldi. 

Skráargatið má nota á matvæli ef þau uppfylla sértæku skilyrðin sem gilda fyrir hvern matvælaflokk sem og önnur almenn skilyrði reglugerðarinnar sem eru sameiginleg og gilda fyrir alla 33 matvælaflokkana.

Skráargatið má ekki nota á matvæli sem innihalda:

  • sætuefni (aukefni),
  • samþykkt nýfæði og ný innihaldsefni með sætueiginleika,
  • plöntusteróla, plöntusterólestera, plöntustanóla eða plöntustanólestera,
  • meira en 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni, 

Auk þess má ekki merkja matvæli, sem sérstaklega eru ætluð ungbörnum og smábörnum undir 3 ára aldri, með Skráargatinu.

Nánari upplýsingar um skilyrði og kröfur sem gilda um Skráargatið er að finna í Skráargatsreglugerðinni.

Er notkun Skráargatsins leyfisskyld?

Nei, notkun Skráargatsins er ekki leyfisskyld en hins vegar þarf að tilkynna til matvælastofnunar um notkun þess á umbúðum matvæla. 

Skráargatið er skilgreint sem næringarfullyrðing þar sem að merkið miðlar jákvæðum eiginleikum varðandi ákveðin næringarefni í matvælunum sem það bera. Þess vegna verður merkið að vera í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar á matvælum. Sú reglugerð tók gildi á Íslandi 2010 með reglugerð nr. 406/2010.

Skráargatsreglugerðin tekur mið af ákvæðum sem settar eru í reglugerð nr. 406/2010, m.a. kröfum um að matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar á Íslandi tilkynni allar næringar- og heilsufullyrðingar, þ.m.t. Skráargatið til Matvælastofnunar. 

Um er að ræða tilkynningarskyldu en ekki leyfisveitingu. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið svo framarlega sem vörurnar uppfylla öll skilyrðin til að bera merkið og eru í samræmi við gildandi reglugerð. Tilgangur með tilkynningarskyldunni er að hafa yfirsýn yfir þau matvæli sem bera merkið og markaðssett eru á Íslandi.

Ítarefni