• Email
  • Prenta

Saga Skráargatsins og norrænt samstarf

Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð frá árinu 1989 og varð að samnorrænu merki þegar það var tekið upp með reglugerð í Svíþjóð, Noregi og Danmörku þann 17. júní 2009. Ísland gerðist aðili að samstarfinu og innleiddi sömu reglugerð um notkun Skráargatsins þann 12. nóvember 2013.
  

Livsmedelsverket (Svíþjóð), Fødevarestyrelsen (Danmörku), Helsedirektoratet og Mattilsynet (Noregi) og nú Embætti Landlæknis og Matvælastofnun standa í sameiningu að Skráargatinu og því má segja að það sé opinbert samnorrænt merki.

Sameiginlegt norrænt fyrirkomulag er kostur fyrir neytendur, iðnað og verslun. Margar stórar matvælakeðjur og framleiðendur hafa starfsemi í fleiru en einu Norðurlandanna auk þess sem mikil viðskipti eru á milli landanna. Fyrirkomulag merkisins er einnig talið styrkja skoðanaskipti milli neytendasamtaka, atvinnugreina og yfirvalda.

Endurskoðun reglugerðar

Mikilvægt er að leggja áherslu á að Skráargatsreglugerðin er lifandi reglugerð og því er það mikilvægt að skilyrðin séu sett þannig að þau hvetji til vöruþróunar. Yfirvöld munu endurskoða matvælaflokka og skilyrði Skráargatsins þegar þekking á næringu og/eða breytingar á matvælamarkaði gefa tilefni til. Þetta er mikilvægt til þess að tryggja að Skráargatið geti einnig hjálpað neytendum framtíðarinnar að velja það sem betra er innan hvers matvælaflokks.

Reglugerð um notkun Skráargatsins hefur frá árinu 2011 verið í endurskoðun á hinum Norðurlöndum en fulltrúa Matvælastofnunar og Embættis landlæknis tóku þátt í endurskoðuninni fyrst sem áheyrnarfulltrúar en síðar með fullri aðild að samstarfinu. Afrakstur vinnunnar má sjá í tillögum að nýrri reglugerð og voru þær lagðar fram til umsagnar í öllum fjórum samstarfslöndunum í lok janúar sl. Umsagnarfrestur hér á Íslandi er til 24. mars. 

Gildistaka að nýrri reglugerð

Stefnt er að því að ný reglugerð um Skráargatið taki gildi um leið og ný upplýsingareglugerð EB nr. 1169/2011, þ.e. þann 13. desember 2014. Löndin munu fara sameiginlega yfir umsagnirnar og lokahönd á reglugerðina verður væntanlega lögð í apríl. Einnig er stefnt að því að tilkynna nýja reglugerð um Skráargatið, þ.e. þær breytingar sem á gerðar verða á henni til EB fyrir 1. maí nk. Sameiginlegar leiðbeiningar verða settar saman síðar.

Skráargatið í 25 ár 

  • 1989 Skráargatið er formlega sett af stað í Svíþjóð.
  • 2009 Skráargatið verður að sameiginlegu merki í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
  • 2011 Endurskoðun á reglugerð um Skráargatið hefst á haustmánuðum.
  • 2013 Ísland innleiðir reglugerð um Skráargatið þann 12. nóvember.
  • 2014 Endurskoðun reglugerðar um Skráargatið mun væntanlega ljúka í apríl. 
  • 2014 Nýja reglugerð um Skráargatið tekur væntanlega gildi 13. desember.
  • 2015 Núverandi og ný, endurskoðuð reglugerð munu gilda samhliða hvor annarri.
  • 2016 Nýja, endurskoðaða reglugerðin um Skráargatið mun gilda ein frá 1. janúar.

Ítarefni