• Email
  • Prenta

Merking og markaðssetning skráargatsmerktra vara

Merking og markaðssetning vara með Skráargatinu skal fylgja reglum sem settar eru fram í Skráargatsreglugerðinni auk annarra reglna sem gilda almennt um matvæli. Fyrirtæki eru sjálf ábyrg fyrir merkingu og markaðssetningu sinna vara.

Fullyrðingar við markaðssetningu, svo sem í auglýsingum, tilkynningum, bæklingum og plakötum í og fyrir utan verslanir eða sjónvarps- og blaðaauglýsingum eru einnig merkingar. Það þýðir að ekki má nota Skráargatið í markaðssetningu og auglýsingum nema heimilt sé að merkja vöruna með Skráargatinu samkvæmt reglugerð. 

Leyfilegt er að nota plaköt, hillumerkingar og annað efni til að vekja athygli neytenda á úrvali af skráargatsmerktri vöru. Við notkun á Skráargatinu í markaðssetningu, t.d. við hillumerkingar, skulu viðkomandi matvæli einnig vera merkt með Skráargatinu. Þetta á þó ekki við um ópakkaðan fisk, skelfisk, ávexti og grænmeti.

Forpakkaðar og óforpakkaðar matvörur

Skráargatið er mest notað á forpakkaðar vörur. Meginreglan er að merkið skal staðsetja á framhlið umbúða en það má einnig staðsetja annarsstaðar á umbúðum. 

Óforpakkaðar matvörur, sem má merkja með Skráargatinu, eru vörur eins og ávextir, ber, kartöflur og grænmeti sem seldar eru í lausri vigt. Sama á einnig við um fisk og skelfisk sem er seldur úr borði og pakkaður er á sölustað. Þessar vörur má merkja með Skráargatinu t.d. á skilti eða veggspjaldi. Skráargatið má eingöngu setja á forpakkað brauð, þ.e. brauð sem seld eru í pokum með fullri næringargildismerkingu og uppfylla skilyrðin í Skráargatsreglugerðinni. Brauð sem seld eru óforpökkuð í lausu má ekki merkja með Skráargatinu.

Skráargatið má jafnframt aðeins setja á forpakkaðar kjötvörur, þ.e. kjöt sem selt er innpakkað og með fullri næringargildismerkingu. Hér verður að fylgja ákvæðum í merkingareglugerð og kjötreglugerð ásamt því sem vörurnar skulu uppfylla skilyrði Skráargatsreglugerðarinnar. Óforpakkað kjöt og kjötvörur má ekki merkja með Skráargatinu.

Merking næringargildis

Notkun  Skráargatsins  í merkingum og markaðssetningu forpakkaðra matvara fylgir krafa um merkingu með næringargildi.  Sú krafa  á ekki við ópakkaðan fisk, skelfisk, ávextir, kartöflur og grænmeti.

Reglur um næringargildismerkingar þurfa að vera í samræmi við nýja reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011. Reglugerð þessi hefur verið innleidd með reglugerð nr. 1294/2014. Matvælastofnun hefur útbúið sérstakar leiðbeiningar um merkingu næringargildis matvæla og vísað er til þeirra.

Ítarefni