• Email
  • Prenta

Grafísk hönnun Skráargatsins

Skráargatsmerkið er skrásett vörumerki í eigu sænsku matvælastofnunarinnar Livsmedelsverket. Livsmedelsverket hefur gefið leyfi svo aðrir aðilar geti notað vörumerkið svo framarlega sem farið sé eftir gildandi reglum um það. Vörumerkið Skráargatið á alltaf að líta eins út óháð því hvar það er framsett . Ef merkið er notað án þess að fara eftir reglum er það brot á „vörumerkjalögum“.

Ávallt skal fylgja skilyrðum sem fram koma í reglugerðinni um notkun Skráargatsins. Til að tryggja samræmda og rétta meðferð á hönnun merkisins hafa yfirvöld í Svíþjóð (Livsmedelsverket), Noregi (Helsedirektoratet og Mattilsynet) og Danmörku (Fødevarestyrelsen) útbúið ”hönnunarhandbók” þar sem rétt grafísk hönnun Skráargatsins, hvað varðar lit, stærð o.fl. eru útskýrð og sýnd.

Grafísk hönnun Skráargatsins

Merkið samanstendur af hvítu skráargati á grænum eða svörtum hringlaga grunni og tákninu um skrásett vörumerki (®). Græni liturinn er aðallitur merkisins og hann skal nota ef mögulegt er. Ef umbúðirnar eru í svart-hvítu má nota svartan grunn. Skráargatsmerkið hefur sömu merkingu hvort sem það er á grænum eða svörtum grunni.

Litakóðar: PMS: 356; Euro: X1X0; CMYK: C:100 M:0 Y:100 K:10

Skráargatsmerkið (logó) má nálgast hér

Autt svæði umhverfis Skráargatið

Ávallt skal vera autt svæði umhverfis Skráargatsmerkið. Þar má ekkert annað vera, þ.e. ekki texti eða tákn, annað en táknið fyrir skrásett vörumerki (®). Breidd auða svæðisins er ¼ af þvermáli merkisins (4:1). Myndirnar hér að neðan sýna auða svæðið í hvítum lit en svæðið má vera í hvaða lit sem er. 

Rétt notkun merkisins

Á umbúðum matvæla skal skráargatið vera hvítt á grænum eða svörtum grunni. Táknið um skrásett vörumerki (®) skal alltaf fylgja merkinu. Ef bakgrunnur merkisins (þar með talið auða svæðið umhverfis merkið) er í svipuðum eða sama lit og merkið (grænn eða svartur) má setja hvíta útlínu umhverfis merkið til að greina það frá bakgrunnslitnum. Þannig að ef grænt skráargatsmerki er á grænum bakgrunni má setja hvíta línu umhverfis merkið. Útlínan má ekki vera í öðrum lit, t.d. svört. Skráargatsmerkið má eingöngu nota í þeim litatónum sem skilgreindir eru.

Röng notkun merkisins

Skráargatið í merkinu á að vera hvítt en má ekki vera í öðrum lit, t.d. grátt eða gegnsætt þannig að bakgrunnslitur umbúðanna skíni í gegn. Eins má ekki nota annan lit en grænan eða svartan í hringinn umhverfis hvíta skráargatið. Ekki má nota einstaka hluta merkisins fyrir sig eða sameina þá öðrum hlutum sem ekki tilheyra merkinu. Aldrei má setja svarta línu umhverfis skráargatið sjálft í merkinu. 
Nokkur dæmi um ranga notkun Skráargatsmerkisins eru eftirfarandi:


Slagorð Skráargatsins „Einfalt að velja hollara“ má ekki nota á umbúðum matvara. Slagorðið er eingöngu leyfilegt að nota í almennri markaðssetningu Skráargatsins.

Notkun merkisins og staðsetning þess á umbúðum vöru

Algengast er að Skráargatið sé staðsett á framhlið vöru en það má einnig vera annarsstaðar á umbúðum.

Í sumum tilfellum má merkja óforpakkaðar vörur með Skráargatinu, t.d. allar tegundir af óunnum ávöxtum og grænmeti, brauð, óunnið kjöt og hráan fisk. Við kynningu á skráargatsmerktum vörum þarf að hafa í huga að ekki sé notuð of víðtæk merking eins og t.d. plaköt með Skráargatinu fyrir ofan grænmetisborð þar sem einnig eru möndlur eða aðrar vörur sem ekki falla undir reglurnar um Skráargatið. Það gæti verið villandi fyrir neytendur. 

Nota má plaköt, hillumerkingu og annað efni til að vekja athygli neytenda á úrvali af skráargatsmerktri vöru. Við notkun á Skráargatinu í markaðssetningu, t.d. við hillumerkingar, skulu viðkomandi matvæli einnig vera merkt með Skráargatinu.


Ítarefni