• Email
  • Prenta

Ungbarnafæði

Hér er að finna ýmsar upplýsingar um barnamat fyrir ungbörn og smábörn og hvaða reglur gilda um hann.

Fæðuofnæmi

Um 1% íslenskra barna eru með staðfest fæðuofnæmi við 18-23 mánaða aldurinn (Eiríksson H, Árdal G, Lúðvíksson BR, Sigfússon Á, Valdimarsson H, Haraldsson Á: Ofnæmi og astmi hjá íslenskum börnum. Læknablaðið 2000;86:102-7). Í Noregi er talað um að ofnæmisviðbrögð við matvælum gerist hjá allt að 6 % barna undir þriggja ára aldri. Helstu ofnæmisvaldar eru mjólk, egg, fiskur, skelfiskur, hnetur, soja og hveiti. Í Noregi er talað um að 2-5 % barna hafi ofnæmi fyrir kúamjólk fyrsta æviárið. Börn vaxa í flestum tilvikum frá mjólkur- og eggjaofnæmi en hafi börn fisk- eða hnetuofnæmi eru heldur minni líkur á að þau vaxi frá því.

Brjóstagjöf er talin minnka líkur á fæðuofnæmi. Mælt er með því að hafa barn eingöngu á brjósti fyrstu 4-6 mánuðina þannig að ef barnið er vært og dafnar vel er engin þörf á annarri næringu er brjóstamjólk fyrstu 6 mánuðina. Eins er mælt með því að hafa barnið áfram á brjósti þar til fæðið er orðið nokkuð fjölbreytt og barnið farið að borða úr öllum fæðuflokkunum dag hvern.

Ef þarf að gefa þurrmjólk (ungbarnablöndu) fyrir 4 mánaða aldurinn ættu börn úr fjölskyldum þar sem ofnæmi er þekkt hjá foreldrum eða systkinum að fá þurrmjólkurblöndu með niðurbrotnum próteinum. Í svona tilvikum þarf að ráðfæra sig við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk.


Manneldisráð og Miðstöð heilsuverndar barna gaf út bækling um næringu ungbarna árið 2003 og er hægt að skoða ráðleggingarnar hér .

Eins er hægt að nálgast ýmsan fróðleik um ofnæmi og óþol
hér. 

Varnarefni og leifar í barnamat

Varnarefni eru efni sem notuð eru gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu og geymslu matvæla, bæði til að verja þau og til að draga úr rýrnun uppskerunnar. Varnarefni má ekki nota nema fyrir liggi mat á áhrifum þeirra á heilsufar manna, dýra og umhverfið. Notuð eru há öryggismörk við áðurnefnt mat og m.a. tekið tillit til barna sem eru viðkvæmari en fullorðið fólk. Ný reglugerð hefur tekið gildi þar sem mörk fyrir notkun á varnarefnum eru það ströng að í reynd finnast ekki varnarefnaleifar í ávöxtum, grænmeti og korni sem notað er í barnamat. Skimað var fyrir varnarefnaleifum í barnamat í fyrsta skipti á Íslandi árið 2002
(sjá skýrslu hér) og fundust engar leifar varnaefna í þeim. Einnig voru tekin tvö sýni af barnamat úr korni árið 2003 og greindust engar varnarefnaleifar af þeim 81 varnarefnaleifum sem skimað var fyrir.

Aukefni í barnamat

Smábörn (1-3 ára) og ungbörn (0-12 mánaða) erum mun viðkvæmari á allan hátt en fullorðið fólk. Er varðar inntöku á mat ber að hafa í huga að börn á áðurnefndu aldursbili hafa mikla orkuþörf fyrir hvert kíló líkamsþyngdar og borða oft einhæfari fæðu en eldri börn og fullorðnir einstaklingar. Fyrir aukefni sem og önnur efni er til svokallað ADI-gildi (ADI=Acceptable Daily Intake) en það er í þessu tilviki það magn aukefnis í mat sem talið er óhætt að neyta daglega alla ævi án þess að hætta stafi af. Magn efnis er gefið upp í mg efnis/kg líkamsþyngd. Fyrir börn er meiri hætta á að fara yfir þessi mörk en fyrir aðra hópa. Eins er ekki gert ráð fyrir að börn séu komin með fullþroskað maga- og þarmakerfi fyrr en við þriggja ára aldurinn. Því eru mjög strangar reglur í gildi um notkun aukefna í barnamat og til að mynda engin litarefni né sætuefni leyfð við framleiðslu þeirra.

Í reglugerð nr. 285/2002 um aukefni í barnamat er að finna lista í viðauka II sem sýnir í hvaða matvælaflokka viðkomandi aukefni eru leyfð og í hvaða magni. Í aukefnaflokki 13.1 má sjá hvaða aukefni eru leyfð í ungbarna- og stoðblöndur og í aukefnaflokki 13.2 má sjá hvaða aukefni eru leyfð í barnamat.

Rannsókn á mataræði íslenskra barna

Rannsóknir á mataræði ýmissa hópa í þjóðfélaginu eru nauðsynlegar af mörgum ástæðum. Með þeim er m.a. hægt að safna upplýsingum um:

  • Matarvenjur
  • Neyslu einstakra næringarefna
  • Hvort neysla næringarefna sé í samræmi við ráðleggingar

Unnið var að viðarmikilli rannsókn á mataræði íslenskra ungbarna á rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala á árunum 1995-2000. Hægt er að skoða skýrslu frá þeirri rannsókn hér.

Löggjöf og eftirlit

Eftirlit með þessum vörum er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Megin markmið eftirlitsins er að tryggja að barnamatur og mjólkurvörur fyrir börn uppfylli ákvæði gildandi reglugerða.