• Email
  • Prenta

Örbylgjuofnar

Örbylgjur eru rafsegulbylgjur koma hreyfingu á sameindir matvælanna og mynda þannig varma sem hitar matinn. Örbylgjur eru ekki það kröftugar að þær valdi skaðlegum breytingum á mat sem hitaður er í örbylgjuofni.

Það má hita næstum öll matvæli í örbylgjuofni. Hann hentar best til upphitunar og matreiðslu frekar lítilla skammta. Einnig getur verið hentugt að þíða upp í örbylgjuofni (en það sparar orku að gera það frekar í kæliskápnum).

Vítamín og bragðefni, ásamt safanum varðveitast vel í grænmeti og fiski sem matreidd eru í örbylgjuofni, vegna þess að lítið vatn er notað og hitunartíminn er stuttur.

Kjöt í örbylgjuofni brúnast ekki, sem getur verið heilsusamlegra því við steikingu geta myndast óæskileg efni.

Fitunotkun minnkar því það er ekki nauðsynlegt að nota fitu við matreiðslu í örbylgjuofni.

Ókostur við örbylgjuofna er að hitinn dreifist ekki jafnt, svo að oft er nauðsynlegt að hræra í (grautar, sósur) eða láta matinn standa nokkurn tíma meðan hitinn dreifist jafnt. Best er að nota grunn kringlótt ílát. Hitinn jafnast betur ef lok, diskur eða filma eru höfð yfir. Mikilvægt er að huga vel að þessu við matreiðslu í örbylgjuofni til að tryggja útrýmingu baktería og gilda þá ákveðin hitamörk. Maturinn þarf að hitna allur í 75°C til að tryggja að hættulegar bakteríur drepist.

Stór kjötstykki og steikur þurfa að standa nokkuð lengi eftir hitun eða amk 15 mínútur.