• Email
 • Prenta

Salmonella

Almennt um salmonellu:

Eftirlit með salmonellu:

Verklagsreglur vegna salmonellu - Tilkynningar og boðleiðir:

ÍtarefniHvað er salmonella ?

Salmonella er hópur þarmasýkla og er hún sjálfstæð ættkvísl. Salmonella er í raun bara ein tegund sem kallast Salmonella enterica, en í dag er litið svo á að tegundinni tilheyri 7 undirtegundir og 2200 sermigerðir. Allar sermigerðirnar geta valdið sjúkdómum hjá mönnum en algengustu afbrigðin sem valda sýkingum eru S.typhimurium og S.enteritidis.

Hvar finnst salmonella ?

Salmonella hefur lengi verið þekktur sýkingarvaldur og finnst hún víða í náttúrunni. Náttúruleg heimkynni hennar er jarðvegur, vatn, fóður, matvæli og meltingarvegur dýra eins og til dæmis búfénaður, villt dýr, nagdýr, fuglar, skriðdýr og skordýr. Salmonellusýkt dýr sýnir sjaldan einkenni sýkingar heldur eru dýrin í allflestum tilfellum frískir smitberar. Bakterían heldur til í meltingarvegi dýranna og getur borist með saur milli dýra. Mikil hætta getur verið á krossmengun við slátrun ef dýr er sýkt af salmonellu.

Kjörhitastig bakteríunnar er um 37 °C en hún getur vaxið við hitastig allt frá 5°C upp í 47°C. Bakterían er mjög hitanæm og drepst við 70°C, kjörsýrustig hennar er 7,0, hún getur vaxið í matvælum með saltinnihald allt upp 8% auk þess getur hún lifað af þurrkun. Salmonella er valfrjáls þ.e. hún getur vaxið bæði við loftfirrðar og loftháðar aðstæður.

Salmonellusýking

Eins og áður hefur komið fram eru náttúruleg heimkynni salmonellu meltingarvegur manna og dýra. Uppspretta sýkingar er því annar sjúkur maður eða dýr og jafnvel heilbrigðir (einkennalausir) smitberar. Sýklarnir geta borist með saur eða þvagi á ýmsan hátt, t.d. í matvæli eða drykkjarvatn sem síðan er neytt af öðrum einstaklingum. Salmonellusýkingar eru þekktar um allan heim og virðist ekki hafa dregið úr tíðni þeirra eða útbreiðslu á síðustu árum þrátt fyrir almennt aukinn þrifnað. Ástæðan fyrir þessu gæti verið aukning á flutningi matvæla, fóðurvara og dýra milli landa eða landshluta, en slíkt getur átt ríkan þátt í útbreiðslu bakteríunnar. Einnig mætti nefna breytingu á neysluvenjum fólks á síðari árum í átt til meiri notkunar á ýmsum tilreiddum eða tilbúnum matvælum sem hlotið hafa margvíslega og oft misjafna meðferð á löngu vinnsluferli. Flestar salmonellutegundir þurfa að berast ofan í fólk í talsverðu magni til þess að sýking hefjist. Yfirleitt er talið að til þess þurfi um hundrað þúsund bakteríur á hvert gram matvælis en þetta er þó einstaklingsbundið. Slíkur fjöldi getur þó hæglega myndast á nokkrum klukkustundum í ýmsum matvælum séu þau geymd við ófullnægjandi aðstæður.

Einkenni

Helstu sjúkdómseinkenni salmonellusýkingar eru magaverkur, niðurgangur, hiti, höfuðverkur, uppköst og ógleði. Þessum einkennum fylgir oft eirðarleysi og þróttleysi. Fyrstu einkenni sjúkdómsins geta komið fram 8 til 72 klukkustundum eftir að neytt hefur verið matar sem smitaður er. Sjúkdómurinn varir venjulega í um 2-3 daga, en í alvarlegum tilfellum getur sjúkdómurinn varað í nokkrar vikur og geta eftirköstin verið liðagigt, bólgur í hjartavöðva og sjúkdómar í taugakerfi. Salmonellusýking getur mögulega valdið dauða hjá mjög viðkvæmum einstaklingum.

Sýkingarhætta er háð aldri neytandans, heilsufarsástandi, afbrigði salmonellu og tegund matvælis sem sýkt er. Hafa ber í huga að eftir veikindi getur fólk oft verið smitberar frá nokkrum vikum upp í mánuði.

Hvernig er hægt að draga úr hættu á salmonellu ?

 1. Með réttu hitastigi. Góð kæling (við minna en 5°C) til að hindra vöxt. Nægileg hitun matvæla (uppí 75°C) til þess að drepa bakteríuna.
 2. Með hreinlæti.

Dæmigerðar ástæður matarsjúkdóma af völdum salmonellu er ófullnægjandi upphitun eða kæling matvara, mengun frá starfsfólki, hráefnum eða óhreinum áhöldum í tilbúin matvæli.

Almennar ráðleggingar

 1. Huga að hreinlæti, þvo hendur oft og án undantekninga eftir salernisnotkun, bleyjuskipti og hreinsun úrgangs eftir gæludýr.
 2. Halda soðnum matvælum frá hráum matvælum til að hindra krossmengun. Þvoið alltaf skurðbretti  og önnur áhöld þegar skipt er úr einni gerð hráefnis yfir í aðra.
 3. Gæta þess vandlega að matvæli séu nægilega elduð/hituð áður en þeirra er neytt. Ef halda þarf tilbúnum mat heitum, haldið honum þá vel heitum eða yfir 60°C.
 4. Skola allt hrátt grænmeti og salöt vel fyrir neyslu.


Verklagsreglur vegna salmonellu - Tilkynningar og boðleiðir

Skilgreiningar

Grunur um salmonellu:
Öll nauðsynleg próf á rannsóknarstofu gefa til kynna að salmonellu sé að ræða og stofninn er tilbúinn til sendingar á sýkladeild Landspítalans eða annað til týpugreiningar. 

Staðfesting á grun:
Þegar rannsóknarstofa hefur fengið svar símleiðis eða skriflega frá sýkladeild Landspítalans, eða öðrum, um týpugreiningu.

Grunur ekki staðfestur:
Þegar rannsóknarstofa hefur fengið svar símleiðis eða skriflega frá sýkladeild Landspítalans, eða öðrum, um að ekki hafi verið um salmonellu að ræða.

Dýr:
Öll dýr.

Bú:
Öll Bú.

Efst á síðu

Tilgangur verklagsreglna

 1. Að viðkomandi héraðsdýralæknum og viðkomandi sérgreinadýralæknum (og þar með yfirdýralækni) sé ávallt kunnugt um þegar grunur er á eða þegar staðfesting liggur fyrir um salmonella í dýri, hópi dýra, sýni eða búi.
 2. Að tilkynningar berist sem fyrst til réttra aðila svo grípa megi sem fyrst til viðeigandi aðgerða og koma í veg fyrir frekara smit.
 3. Að eðlileg samhæfing og samræming sé til staðar hvar sem er á landinu eins og við á hverju sinni í aðgerðum og úrbótum vegna salmonella.
 4. Að efla samvinnu milli hlutaðeigandi aðila til úrbóta og aðgerða.
 5. Að efla samstarf starfsmanna yfirdýralæknis.
 6. Að forða óþarfa álagi á rannsóknarstofum vegna fyrirspurna um niðurstöður úr sýnarannsóknum.
Meginreglan skal vera sú að rannsóknarstofa tilkynni strax símleiðis (með tölvupósti ef símhringingar reynast árangurslausar) til sendanda sýnis og viðkomandi sérgreinadýralæknis þegar grunur um salmonella liggur fyrir og þegar staðfest svar hefur borist.

Verklagsreglur þessar eiga við þegar um eftirfarandi sýnatökur er að ræða:

a) Öll sýni
b) * Stroksýni í Tecra próf (sjá næstu málsgrein)

* Þegar um stroksýni er að ræða af svínaskrokkum sem rannsökuð eru með Tecra og/eða Vidas prófi er óþarfi að tilkynna sérgreinadýralækni um niðurstöður úr þeim nema með afriti af svari þegar það er sent skriflega til sendanda sýnis.

Tilkynna skal þó strax símleiðis um niðurstöður þegar þær liggja fyrir til sendanda sýnis eða með símbréfi til fulltrúa hans eða annars aðila sem hann tilnefnir.

Efst á síðu

Yfirlit

 1. Frá rannsóknarstofu
  - Til sendanda sýnis
  - Til viðkomandi sérgreinadýralæknis

 2. Frá sérgreinadýralækni
  - Til yfirdýralæknis
  - Til héraðsdýralæknis (ef hann er ekki sendandi sýnis)
  - Til fóðurframleiðanda/sala
  - Til viðkomandi búgreinafélags

 3. Frá héraðsdýralækni (afmarkast við umdæmið)
  - Til eiganda dýra
  - Til sláturhúss
  - Til flutningsaðila dýra

 4. Frá yfirdýralækni
  - Til sóttvarnarlæknis
  - Til Hollustuverndar ríkisins og þar með heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna
  - Til Aðfangaeftirlits
  - Til fjölmiðla (ef þannig háttar til eða þess gerist þörf)
Efst á síðu

Umfjöllun

1. Tilkynning frá rannóknarstofu


                        - Til sendanda sýnis

                        - Til viðkomandi sérgreinadýralæknis

Ekki er víst að alltaf sé óskað eftir týpugreiningu á salmonella að hálfu sendanda sýnis. Á eyðublöðum með innsendum sýnum skal þess vegna vera unnt að krossa við slíka greiningu þegar óskað er eftir þess háttar rannsókn. Ef ekki er krossað við slíka beiðni fer týpugreining ekki fram.

Tilkynna skal strax til sendanda sýnis og viðkomandi sérgreinadýralæknis með símtali eða með tölvupósti ef ekki næst í viðkomandi í síma, þegar um grun eða staðfest svar er að ræða. Skriflegt svar skal senda til sendanda með afriti til sérgreinadýralæknis þegar um grun er að ræða og þegar staðfest svar hefur borist frá sýkladeild Landsspítalans eða öðrum.

Ef sendandi sýnis er ekki héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir á hans vegum skal viðkomandi sérgreinadýralæknir strax tilkynna til héraðsdýralæknis um gruninn og þegar staðfest svar liggur fyrir.

Gera má ráð fyrir þegar eftirlitsdýralæknar senda inn sýni til rannsókna að þau séu opinberlega skráð á viðkomandi héraðsdýralæknisumdæmi, þó svo eftirlitsdýralæknir skrifi undir á sýnatökueyðublaði.

Rannsóknarstofu er í flestum tilfellum ekki heimilt að tilkynna öðrum (þ.e. nema sendanda sýnis og viðkomandi sérgreinadýralækni) um gruninn. Enda er tilkynning til sérgreinadýralæknis lögð að jöfnu og tilkynning til yfirdýralæknis (sérgreinadýralæknir ber ábyrgð á að tilkynna til yfirdýrlaæknis).

Á rannsóknarstofu skal skrá í sérstaka bók hvenær tilkynnt er um grun eða staðfestingu, hverjum er tilkynnt, hvaðan sýnin eru og annað sem skiptir máli.

Viðkomandi rannsóknarstofa sér um samskipti við sýkladeild Landspítala Íslands eða álíka aðila, og er ekki gert ráð fyrir því að sendandi sýnis, sérgreinadýralæknir eða aðrir sjái um þessi samskipti.

Í þessu samhengi er ávallt nauðsynlegt að ljóst sé hverjum beri að tilkynna þegar viðkomandi sérgreinadýralæknar eru ekki í starfi vegna sumarleyfa, ferða eða annarra orsaka. Er það á ábyrgð yfirdýralæknis og starfsmanna hans að skipuleggja hvernig að þessum málum skulu staðið og í framhaldi af því hvernig þau eru tilkynnt til viðkomandi aðila.

2. Tilkynning frá sérgreinadýralækni

                        - Til yfirdýralæknis
                        - Til héraðsdýralæknis/héraðsdýralækna (ef hann er ekki sendandi sýnis)
                        - Til fóðurframleiðanda/sala
                        - Til búgreinafélags

Sérgreinadýralæknir tilkynnir með símtali og/eða tölvupósti til viðeigandi aðila.

Sendandi sýnis, héraðsdýralæknir og sérgreinadýralæknir meta eftir atvikum hvort frekari sýnatökur þurfi að fara fram áður en grunur er staðfestur.

Viðkomandi sérgreinadýralæknir og héraðsdýralæknir geta eftir atvikum metið hvort nauðsynlegt sé að tilkynna viðeigandi aðilum um gruninn svo sem sláturleyfishöfum, flutningsaðilum dýra og fóðurs, búgreinafélagi og öðrum tengdum málinu. Í sumum tilvikum getur verið nægilegt að tilkynna um salmonella þegar staðfest svar liggur fyrir. Gert er þó ráð fyrir að meginreglan sé sú að sérgreinadýralæknar tilkynni til viðeigandi aðila þegar grunur er um salmonella í sýnum.

Öðrum aðilum er ekki tilkynnt um grun, nema yfirdýralæknir meti það nauðsynlegt.

3. Tilkynning frá héraðsdýralækni (afmarkast við umdæmið)

                         - Til eiganda dýra
                         - Til sláturhúss
                         - Til flutningsaðila dýra

Héraðsdýralæknir tilkynnir fyrst símleiðis og síðan skriflega eftir atvikum til viðkomandi aðila.

Tilkynningar frá héraðsdýralækni til viðkomandi aðila afmarkast við umdæmi hans. Eðlilegast er að héraðsdýralæknir tilkynni eiganda eða umráðamanni dýrsins eða búsins. Einnig að hann tilkynni til sláturhússins ef það er í hans umdæmi. Það sama á við um flutningsaðila dýra. Nægir oft í þeim tilvikum að héraðsdýralæknir fari fram á við sláturleyfishafann að hann sjái um að upplýsingar berist til gripaflutningsmanna og geri viðeigandi ráðstafanir samkvæmt leiðbeiningum hans.

Ef hins vegar sláturhúsið, sem slátrar dýrum frá framleiðendum í umdæmi héraðsdýralæknisins, er ekki í umdæmi hans né heldur flutningsaðilar dýranna skal viðkomandi sérgreinadýralæknir tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni. Þegar um þessháttar samvinnu er að ræða milli umdæma skal viðkomandi sérgreinadýralæknir stýra þeim og samhæfa.

Eðlilegast er að líta á lið 2 og 3 hér að framan sem einn lið, því ætla má að samvinna á milli sérgreinadýralækna og héraðsdýralækna sé farsælust í þessu samhengi. Árangur er einnig líklegri ef menn einangrast ekki í sínum störfum heldur finni að um teymisvinnu sé að ræða.

4) Tilkynning frá yfirdýralækni 

                         - Til Sóttvarnarlæknis
                         - Hollustuvernd ríkisins og þar með Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna
                         - Aðfangaeftirlit

Efst á síðu

Reglur um farbann vegna salmonellasýkinga í búfé 

Efst á síðu

Vöktun / skimun fyrir salmonellu í sláturhúsum

Embætti yfirdýralæknis lætur taka sýni og skimar fyrir salmonellu í kjöti í sláturhúsum til þess að koma í veg fyrir að mengaðar afurðir berist á markað. Hluti af þeirri sýnatöku fer fram með vöndlum en vöndlar eru settir í niðurföll í sláturhúsum þegar slátrað er og þeir síðan rannsakaðir með tilliti til salmonellu. Greinist salmonella í vöndlasýni er kannað frá hvaða bæjum slátrað var þann dag og í framhaldi af því er gripið til aðgerða sem fela í sér frekari sýnatökur og bann við flutningi dýra og afurða frá viðkomandi býli.

Yfirlit yfir sýnatökur í sláturhúsum

Svín Vöndlasýni eru tekin einu sinni í mánuði frá hverju svínabúi.
Greinist salmonella er sett bann við flutningi afurða og lífdýra frá viðkomandi býli og frekari sýnatökur framkvæmdar til að kanna útbreiðslu smits. Í sláturhúsinu eru tekin stroksýni af hverjum skrokki og þau eru rannsökuð með hraðvirkum aðferðum. Þá skrokka sem salmonella greinist á má einungis setja á markað að lokinni hitameðferð. 
Hross    Vöndlasýni eru tekin þegar slátrað er til útflutnings.
Greinist salmonella er sett bann við flutningi afurða og dýra frá viðkomandi býli (þ.e. bannað að slátra dýrum frá býlinu) og frekari sýnatökur framkvæmdar til að kanna útbreiðslu smits.
Nautgripir  Engin vöndlasýni eru tekin.
Sauðfé    Engin vöndlasýni eru tekin.
Alifuglar Sýni (saursafnsýni) eru tekin úr hverjum eldishópi og ræktuð með tilliti til salmonellu. Við slátrun eru tekin sýni úr hálsaskinnum. Greinist salmonella er öllum fuglum úr viðkomandi eldishópi fargað.

Ef dýr veikjast og greinast með salmonellu heima á býli eru tekin saursýni til að kanna útbreiðslu smits og bann sett við flutningi afurða og dýra auk þess sem umferð manna og tækja er takmörkuð. Sé um mjólkurframleiðslu að ræða eru varúðarráðstafanir viðhafðar vegna sölu mjólkur (sem einungis má setja gerilsneydda á markað).

Efst á síðu

Leiðbeiningar um aðgerðir á svínabúum sem smitast hafa af salmonellu

Leiðbeiningar um meðhöndlun húsdýraáburðar sem mengaður er af salmonellu

Starfshópur um salmonellu og kampýlóbakter í dýrum og umhverfi á Suðurlandi

14. febrúar 2000 skipaði landbúnaðarráðherra starfshóp sem hafa átti það hlutverk að standa fyrir viðamikilli úttekt, með tilliti til helstu smit- og mengunarleiða í lífríki og umhverfi á Suðurlandi. Skipun starfshópsins kom í kjölfar þrálátra sýkinga í dýrum og mengunar af völdum salmonellu og kampýlóbakter í dýrum og ýmsum búvörum sem framleiddar eru á Suðurlandi.

Efst á síðu

Tilnefning rannsóknastofa fyrir mælingar á salmonellu í matvælum og fóðri

Ítarefni