• Email
  • Prenta

Tilkynningarskylda

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1925/2006 gerir kleift að aðildarríkin geti krafist þess að framleiðandinn eða sá sem setur íblönduð matvæli á markað tilkynni lögbæru yfirvaldi um markaðssetninguna. Yfirvöld á Íslandi hafa ákveðið með innleiðingu reglugerðar nr. 327/2010 skuli tilkynna íblöndun vítamína, steinefna og annarra efna í matvæli á markaði hérlendis til Matvælastofnunar.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 327/2010 skulu matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar tilkynna markaðssetningu slíkra matvæla til stofnunarinnar. Þetta á einnig við um íblöndun koffíns í matvæli, t.d. orkudrykki sem innihalda koffín ásamt öðrum efnum.

Tilkynning um íblöndun fer fram í gegnum Þjónustugátt Matvælastofnunar (sjá kafla - Rafrænt tilkynningareyðublað). Með tilkynningunni þarf að fylgja sýnishorn af merkimiða/merkingu vörunnar.

Ef íblöndun koffíns er hins vegar hærri en heimilt er skv. 4. gr. reglugerðar nr. 453/2014 um (3.) breytingu reglugerð nr. 327/2010 þurfa matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar að sækja um leyfi fyrir íblönduninni til Matvælastofnunar. Í þessum tilfellum er ekki lengur um tilkynningarskyldu heldur um leyfisveitingu að ræða.

Rafrænt tilkynningareyðublað

Matvælastofnun hefur útbúið sérstakan rafrænan aðgang, Þjónustugátt, sem gerir notendum kleift að senda inn rafrænar umsóknir (þ.m.t. tilkynningar) og fylgjast með eigin málum innan stjórnsýslunnar. Rafrænt tilkynningareyðublað um íblöndun („eyðublaðið um íblöndun“) verður hægt að senda inn beint til stofnunarinnar en nauðsynlegt verður fyrst að skrá sig inn til að fá aðgang að rafrænum umsóknum

Þegar notandi er skráður er mikilvægt að fylla út í alla reiti sem merktir eru með rauðri stjörnu. Tilkynnandi sendir eyðublaðið um íblöndun þegar allar umbeðnar upplýsingar hafa verið færðar inn á eyðublaðið. Skilaboð berast tilkynnanda með tölvupósti frá Þjónustugáttinni þegar erindi eru móttekin, tekin til afgreiðslu eða þegar vinnu við þau er lokið.

Ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar um Þjónustugátt Matvælastofnunar.

Meðferð tilkynninga

Matvælastofnun skoðar hvort eyðublaðið um íblöndun sé útfyllt á fullnægjandi hátt. Ef ekki, er tilkynnandi beðinn um að senda þær upplýsingar sem vantar til stofnunarinnar. Skilaboð berast tilkynnandanum með tölvupósti frá Þjónustugáttinni þar sem staðfest er um móttöku tilkynningar. 

Við skoðun á tilkynningum er aðallega horft að þeim þáttum sem reglugerð nr. 327/2010 um íblöndun nær til. Svo dæmi sé tekið er skoðað hvort form vítamína og steinefna séu leyfileg, framsetning næringargildismerkingar rétt og íblöndun annarra efna örugg og ekki hættuleg heilsu manna. Hlutverk stofnunarinnar er ekki að rýna yfir vöruna í heild og skoða nákvæmlega hvort varan uppfylli skilyrði annarra reglugerða sem varða t.d. aukefni, bragðefni eða aðrar almennar kröfur sem gilda um merkingu matvæla, t.d. geymsluþol, innihaldslýsingu eða merkingar um erfðabreytt matvæli. Ef við skoðun tilkynningarinnar hins vegar koma í ljós vísbendingar um möguleg brot á öðrum reglugerðum ber stofnuninni að upplýsa stjórnendur matvælafyrirtækja um það.

Móttaka tilkynningar felur því ekki í sér samþykki Matvælastofnunar fyrir hinni tilkynntu vöru. 

Upplýsingar um tilkynntar vörur eru veittar skoðunarmönnum Matvælastofnunar eða eftirlitsmönnum Heilbrigðiseftirlits sveitafélaga eftir því sem við á.