• Email
  • Prenta

Tilgangur tilkynningarskyldu og ábyrgð matvælafyrirtækis

Tilgangur Matvælastofnunar með tilkynningarskyldu um íblöndun er að hafa yfirsýn yfir þau matvæli, sem vítamínum, steinefnum eða öðrum efnum hefur verið bætt í og markaðssett eru á Íslandi.

Það ber að hafa sérstaklega í huga að það eru matvælafyrirtækin, þ.e. stjórnendur þeirra, sem bera ávallt ábyrgð á því að matvælin sem þau framleiða og/eða markaðssetja séu í samræmi við gildandi matvælalög. Ef stjórnendum matvælafyrirtækis yfirsést reglur sem gilda um eigin framleiðslu, innflutning eða dreifingu er slíkt ekki á ábyrgð eftirlitsaðila. Það er því mikilvægt að kynna sér vel gildandi reglugerðir áður en markaðssetning matvara hefst á íslenskum markaði.

Á heimasíðu Matvælastofnunar er að finna lög og reglugerðir sem gilda um matvæli.

Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu hafa í huga að starfsemi fyrirtækja sem standa að framleiðslu, innflutningi og dreifingu matvæla eru háð starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og í sumum tilvikum háð starfsleyfi Matvælastofnunar. 

Leita skal til viðkomandi heilbrigðiseftirlits svæða þar sem fyrirtæki er skráð og til Matvælastofnunar þegar við á (sjá Matvæli - Íblöndun - Eftirlit).