• Email
  • Prenta

Óleyfileg íblöndun - lyf og lyfjavirk efni í matvælum

Komi fram rökstuddur grunur um að vara, sem reglugerð þessi nær til, sé hættuleg heilsu manna og/eða hún innihaldi lyf eða lyfjavirk efni er heimilt að takmarka eða banna framleiðslu, innflutning og sölu á viðkomandi vöru sbr. 28. og 29. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.

Samkvæmt 11. grein matvælalaga nr. 93/1995 er óheimilt að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leikur vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist til lyfja ber Lyfjastofnun að skera úr um slíkt. 

Á heimasíðu Lyfjastofnunar eru birtir listar yfir ýmis efni, jurtir og aðrar lífverur sem stofnunin hefur áður tekið til skoðunar með tilliti til lyfjalaga nr. 93/1994. Á þessum listum Lyfjastofnunar eru efni flokkuð í A og B flokk og skilgreinir Lyfjastofnun flokkana á eftirfarandi hátt:

  • A = Lyfjastofnun metur vöru ekki sem lyf út frá þessu innihaldsefni, óháð magni.

  • B = Vara með þessu innihaldsefni gæti fallið undir lyfjalög. Senda þarf vöruna í flokkun hjá Lyfjastofnun.

Matvælastofnun álítur óheimilt að flytja inn eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni með innihaldsefnum sem Lyfjastofnun flokkar sem B nema Lyfjastofnun hafi flokkað viðkomandi vöru sem „ekki lyf“. Hið sama gildir um innihaldsefni sem hafa aldrei verið skoðuð af Lyfjastofnun en kunna að flokkast sem lyf.

Stjórnandi fyrirtækis ber að kanna að efni (innihaldsefni) sem notuð eru í framleiðslu vöru séu örugg og ekki hættuleg heilsu manna og að þau flokkist ekki skv. lyfjalögum. Ber að hafa í huga að á heimasíðu Lyfjastofnunar er listi yfir þær vörur (aðallega fæðubótarefni) sem stofnunin hefur tekið til flokkunar og fellt undir lyfjalög. Á þessum lista má sjá hvaða innihaldsefni hafa orðið til þess að vara er felld undir lyfjalög.

Ítarlegar upplýsingar um vöruflokkun er að finna á heimasíðu Lyfjastofnunar