• Email
  • Prenta

Tilkynningaskylda

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 624/2004  um fæðubótarefni skal tilkynna til Matvælastofnunar um ný fæðubótarefni sem sett eru á markaði á Íslandi. Þetta þýðir að öll fæðubótarefni sem komið hafa á markað frá 30. júlí 2004 (þá tók reglugerðin gildi) þarf að tilkynna.

Tilkynningar skulu berast Matvælastofnun í gegnum Þjónustugátt MAST. Með tilkynningu þarf að fylgja sýnishorn af umbúðum vörunnar sem tilkynnt er. Æskilegt er að sýnishorn séu á rafrænu formi.  Sýnishorn þarf að sýna öllum hliðum (útlit) vörunnar ásamt innihaldslýsingu, næringargildismerkingu og aðrar skylduupplýsingar skv. reglugerð nr. 624/2004. 

Ef efnasamsetningu eða notkunarleiðbeiningum er breytt þá þarf að tilkynna vöruna aftur og það sama gildir um vörur sem voru á markaði áður en reglugerðin tók gildi þ.e. ef efnasamsetning eða notkunarleiðbeiningar breytast þá þarf einnig að tilkynna vöruna á.

Meðferð tilkynninga

Við afgreiðslu tilkynninga skoðar stofnunin aðallega virk innihaldsefni vöru og skylduupplýsingar, sem eiga að koma fram skv. reglugerð nr. 624/2004. Ber að hafa í huga að fæðubótarefni þurfa auk þess að uppfylla almenn ákvæði reglugerðar  nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, reglugerð nr. 406/2010 um næringar- og heilsufullyrðingar og reglugerð nr. 978/2011 um aukefni svo dæmi séu nefnd. Stofnuninni er heimilt skoða þessa þætti og benda á atriði sem eru ekki í samræmi við gildandi reglur við afgreiðslu tilkynninga. Það eru alls ekki öll atriði skoðuð og því fellur móttaka tilkynningar ekki í sér samþykki Matvælastofnunar fyrir hinni tilkynntu vöru.  

Tilgangurinn með tilkynningaskyldu er að hafa yfirsýn yfir þau fæðubótarefni sem markaðssett eru hér á landi. 

Upplýsingar um þær vörur sem tilkynntar eru sendar áfram til Heilbrigðiseftrlitssvæðis þar sem tilkynnandi hefur starfsleyfi. Hlutverk Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga er að hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerða sem hér eru nefndar þegar varan er á markaði.