• Email
  • Prenta

Reglugerðir

Reglugerð  nr. 624/2004 um fæðubótarefni tók gildi þann 30. júlí 2004.  Þetta gerðist í kjölfar þess að ákvörðun var tekin hjá Evrópusambandinu um að fæðubótarefni skyldu skilgreind sem matvæli.  Fimm breytingar hafa verið gerðar á reglugerðinni ( nr. 684/2005, nr. 399/2007, nr. 651/2012, nr. 914/2012 og nr. 964/2014).

Reglugerðin um fæðubótarefni er byggð á tilskipun frá Evrópusambandinu þannig að hér er um að ræða samræmdar reglur um fæðubótarefni fyrir alla Evrópu. 

Markmiðið með tilskipuninni er m.a. að veita neytendum vernd og koma í veg fyrir viðskiptahindranir milli landa. Fyrir tilkomu þessarar reglugerðar var ekki til skilgreining á fæðubótarefnum, né neinar samræmdar reglur. 

Ekki eru þó til samræmdar reglur hvað varðar öll atriði sem lúta að fæðubótarefnum og á þeim sviðum gilda landslög og reglugerðir í hverju landi. Til dæmis eru ekki til samræmdar reglur um leyfileg innihaldsefni í fæðubótarefnum, önnur en vítamín og steinefni. Ekki eru heldur til samræmd hámarksgildi fyrir magn vítamína og steinefna í fæðubótarefnum.

Einnig gilda um fæðubótarefni lög um matvæli nr. 93/1995 sem og aðrar reglugerðir sem gilda almennt um matvæli, s.s. reglugerð um merkingar matvæla (nýtt heiti: reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda), reglugerð um aukefni og reglugerð um næringar og heilsufullyrðingar. 

Þeir sem framleiða eða flytja inn vörur þurfa að kunna góð skil á þeim reglum sem um þeirra vörur gilda. Á heimasíðu Matvælastofnunar er að finna helstu reglugerðir sem gilda um fæðubótarefni og önnur matvæli.