• Email
  • Prenta

Eftirlit og starfsleyfi

Mikilvægt er að hafa í huga að öll ábyrgð á markaðssettri matvöru hvílir á herðum framleiðenda, innflutningsaðila og dreifingaraðila. Ef hlutaðeiganda yfirsést reglur sem gilda um eigin framleiðslu, innflutning eða dreifingu er slíkt ekki á ábyrgð eftirlitsaðila. Eftirlitsaðili sér aftur á móti til þess að reglur um matvæli séu uppfylltar. 

Samkvæmt 9. gr. laga um matvæli er öll dreifing matvæla starfsleyfisskyld, þ.m.t. innflutningur.  Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefur út starfsleyfi fyrir dreifingu og innflutningi fæðubótarefna.

Eftirlit með fæðubótarefnum á markaði er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.  Matvælastofnun fer með innflutningseftirlit.

Matvælastofnun túlkar reglugerðir er lúta að starfsviði hennar fyrir einstaklinga eða fyrirtæki sé þess óskað. 
Stofnunin tekur ekki að sér að fara yfir einstakar vörur/fæðubótarefni með tilliti til gildandi reglna og greina frá hvort þessar vörur uppfylli tilsett skilyrði eða hvort einhverju sé ábótavant. 

Stofnunin hefur yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti, m.a. með matvælum, og það samræmist ekki að veita ráðgjöf og þar með vilyrði um heimild fyrir vörurnar og hafa síðan yfirumsjón með eftirliti með þessum sömu vörum. Þess í stað er einstaklingum eða starfsfólki fyrirtækja, sem flytja inn eða framleiða fæðubótarefni, bent á sjálfstætt starfandi þjónustufyrirtæki sem sjá um að fara yfir vörur með tilliti til gildandi laga og reglugerða um matvæli. Eins geta einstaklingar og starfsfólk fyrirtækja sjálft farið yfir vörurnar og má finna reglur um matvæli á heimasíðu Matvælastofnunar.