• Email
 • Prenta

Stjórnskipulag matvælaeftirlits

Samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli fellur opinbert matvælaeftirlit á Íslandi undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Matvælastofnun er ráðherra til ráðgjafar, en heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Matvælastofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum. Í umboði heilbrigðisnefnda starfa heilbrigðisfulltrúar hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga (HES), en landinu er skipt upp í tíu heilbrigðiseftirlitssvæði. Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi matvæla og sér um samræmingu eftirlits HES.

Samkvæmt 6. grein laganna annast Matvælastofnun opinbert eftirlit með:

 •    frumframleiðslu,
 •    innflutningi og útflutningi búfjárafurða,
 •    kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum, að undanskildum kjötvinnslum sem starfræktar eru í smásöluverslunum,
 •    mjólkurstöðvum og eggjavinnslu.
 •    smitsjúkdómum búfjár,
 •    meðferð, skoðun og mati á sláturafurðum,
 •    heilbrigðisskoðun eldisfisks,
 •    meðferð, flutningi, geymslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, að undanskilinni smásölu,
 •    innflutningi annarra matvæla en getið er hér að ofan

Önnur störf tengd matvælaeftirliti eru m.a. þau að stofnunin:

 • er tengiliður Íslands við RASFF (Rapid Alert System for Food and Feed) viðvörunarkerfi Evrópusambandsins.
 • sér um skipulag sýnatöku og rannsóknir á varnarefnum í grænmeti, ávöxtum og kornvörum.

Samstarfsnefnd um sóttvarnir (SSUS)

Í stjórnskipaðri samstarfsnefnd um sóttvarnir (SSUS), sbr. 11. gr. Sóttvarnarlaga nr. 19/1997, sitja sóttvarnalæknir, sem jafnframt er formaður, tveir fulltrúar tilnefndir af Matvælastofnun (annar sérfróður um matvælaöryggi og hinn um smitsjúkdóma í dýrum), einn frá Geislavörnum ríkisins og einn frá Umhverfisstofnun (sérfróður um eiturefni). Hlutverk nefndarinnar er að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu eða hættu sem stafar af dýrum, matvælum, starfsemi, vatni, skolplögnum, loftræstingu eða öðru í umhverfinu sem getur dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum, eiturefnum eða geislavirkum efnum sem ógna heilsu manna. Nefndinni er heimill aðgangur að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin skal gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta hættu af völdum smits, eiturefna eða geislavirkra efna.