• Email
  • Prenta

Fiskur og fiskafurðir

Eftirlit með fiskvinnslum:


Tilgangur opinbers eftirlits

Um sjávarafurðir gilda lög nr. 93/1995 um matvæli auk sérlaga nr. 55/1998 um sjávarafurðir og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim. Tilgangur laga þessara er að tryggja neytendum að íslenskar sjávarafurðir séu heilnæmar, standist settar kröfur um öryggi matvæla, séu unnar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður og að merkingar og upplýsingar um þær séu fullnægjandi. Íslenskar reglur varðandi kröfur til sjávarafurða eru hinar sömu og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Matvælastofnun fer með yfirstjórn þessa málaflokks hjá öllum aðilum sem hafa á hendi veiðar, meðferð, vinnslu og dreifingu fiskafurða að undanskildum aðilum í smásölu. Slátrun og vinnsla eldisfisks (ferskvatns- og sjávarfiska) fellur undir sama fyrirkomulag og er undir stjórn Matvælastofnunar.

Upplýsingar um fyrirkomulag opinbers eftirlits

Með innleiðingu evrópsku matvælalöggjafarinnar um hollustuhætti og eftirlit á Íslandi sem gekk í gildi fyrir fiskafurðir og fóður þann 1. mars 2010, tóku gildi tvær reglugerðir sem segja til um hvernig fyrirkomulag eftirlits með dýraafurðum skuli háttað.


  • Reglugerð nr. 105/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem ætlaðar eru til manneldis.
  • Reglugerð nr. 106/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 882/2004 um opinbert eftirlit.

Reglubundið eftirlit í starfsstöðvum

Matvælastofnun annast framkvæmd reglubundins eftirlits með fiskvinnslufyrirtækjum, frysti- og vinnsluskipum auk eftirlits með meðferð afla og hreinlæti um borð í veiðiskipum. Stofnunin gerir jafnframt reglubundnar kannanir á hollustuháttum við löndun og fyrstu sölu. Matvælastofnun vinnur áhættumat fyrir starfsgreinina og fyrir starfsemi hverrar starfsstöðvar og ákveður tíðni eftirlits á grundvelli þess. Matvælastofnun gerir eftirlitsáætlanir til lengri og skemmri tíma og stillir upp áætlun um heimsóknir fyrir hverja starfsstöð. Þessi gögn verða aðgengileg fyrir eftirlitsþega ýmist á vef Matvælastofnunar eða sem upplýsingar fyrir hvern og einn leyfishafa.

Eftirfylgni

Matvælastofnun annast úttektir vegna leyfisveitinga (sjá kafla um starfsleyfi). Stofnunin sér einnig um reglubundið opinbert eftirlit. Báðum þessum verkefnum fylgir eftirlit vegna eftirfylgni þar sem stofnunin fylgir eftir úrbótum frávika hjá leyfishöfum. Komi upp alvarlegt frávik er leyfishafa skylt að bæta strax úr þeim en að öðrum kosti getur komið til þess að þvinga þurfi fram úrbætur, þ.á.m. getur leyfishafi misst leyfi sitt um lengri eða skemmri tíma. 


Með innleiðingu eftirlitsreglugerða Evrópusambandsins 1. mars 2010, skal kostnaður vegna eftirfylgnieftirlits borinn af viðkomandi eftirlitsþega. 

Skoðunarhandbók - Samræmi í skoðunum

Samtímis gildistöku reglugerða um opinbert eftirlit tóku gildi reglur um hollustuhætti sem eru kröfur sem beint er til stjórnenda matvælafyrirtækja. Þessar kröfur eru nú settar fram með ólíkum hætti en áður. Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu tryggja að matvæli sem framleidd eru í fyrirtækjum þeirra, séu örugg og bera þeir fulla ábyrgð á þeim. 

Í því skyni ber þeim að lýsa starfsháttum við framleiðslu matvælanna með verklagsreglum sem byggja á aðferðum HACCP og geta sýnt fram á að það verklag skili tilætluðum árangri.

Eitt af hlutverkum Matvælastofnunar er að hafa eftirlit með því á samræmdan hátt að matvælaframleiðendur uppfylli þessar kröfur. Í þeim tilgangi gefur stofnunin út skoðunarhandbækur þar sem kröfur eru túlkaðar og því lýst hvernig haft er eftirlit með þeim. Þessar kröfur varða leyfi, innra eftirlit, starfsumhverfi, starfsfólk, vinnsluaðferðir og rekjanleika afurða.

Skoðunarhandbækur gegna þar af leiðandi lykilhlutverki varðandi samræmt eftirlit. Að öðru leyti tryggir stofnunin sem mest samræmi í skoðunum eftirlitsmanna með þjálfun og fræðslu, leiðbeiningum, samanburðareftirliti, tölfræðiathugunum og fundahöldum með eftirlitsmönnum.

Skoðunarhandbók fyrir „lagarafurðir og lifandi samlokur“ hefur tekið gildi.

Matvælastofnun hvetur leyfishafa í fiskvinnslu til að kynna sér skoðunarhandbókina.

Eftirlit ESA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) kemur í heimsóknir til Íslands vegna eftirlits með framleiðslu sjávarafurða með óreglubundnu millibili. Heimsóknir ESA hafa þann tilgang að fylgjast með hvernig hið lögbæra yfirvald, í þessu tilviki Matvælastofnun, framfylgir ákvæðum EES samningsins og gerðar eru athugasemdir ef frávik eru á því að mati ESA. Hluti þessa eftirlits felst í að heimsækja fyrirtæki í fiskvinnslu til að meta hversu skilvirkt eftirlit Matvælastofnunar með fyrirtækjunum er. Fyrirtækjaheimsóknir ESA eru ýmist tilkynntar hlutaðeigandi fyrirtækjum fyrirfram eða eru ótilkynntar.

Fyrirtæki eru ekki nafngreind í skýrslum ESA.


Skýrslur um heimsóknir stofnunarinnar má lesa á heimasíðu ESA.