• Email
 • Prenta

Notkunarskilyrði

Notkunarskilyrði bragðefna og innihaldsefna matvæla með bragðgefandi eiginleika og grunnefna þeirra

Öll bragðefni skulu uppfylla almenn skilyrði sem gilda um notkun bragðefna.  Suma flokka bragðefna má einungis nota ef þau hafa verið sérstaklega samþykkt. Vissum efnum má ekki blanda í matvæli og sum efni sem eru náttúrulega til staðar mega aðeins finnast í ákveðnu magni.  Viss grunnefni er ekki heimilt að nota.

Efni sem ekki skal bætt í matvæli

Efnum sem talin eru upp í A-hluta III. viðauka við reglugerð ESB nr. 1334/2008 er ekki leyfilegt bæta í matvæli í óbreyttri mynd. 

Efni sem eru náttúrulega til staðar en mega aðeins finnast í matvælum í ákveðnu hámarksmagni

Tiltekin efni sem eru til staðar frá náttúrunnar hendi í bragðefnum og innihaldsefnum matvæla með bragðgefandi eiginleika mega einungis vera til staðar í tilbúnum matvælum í  hámarksgildum sem tiltekin eru í B-hluta III. viðauka við reglugerð ESB nr. 1334/2008.

Grunnefni sem ekki má nota eða eru háð takmörkunum

Í viðauka IV við reglugerð ESB nr. 1334/2008 eru talin upp grunnefni fyrir bragðefni eða innihaldsefni matvæla með bragðgefandi eiginleika sem ekki er heimilt að nota eða notkun þeirra er háð ákveðnum takmörkunum.

Almenn skilyrði um notkun bragðefna

Notkun skal ekki hafa í för með sér áhættu fyrir heilbrigði neytenda og notkun má ekki villa um fyrir neytendum.

Bragðefni og innihaldsefni matvæla með bragðgefandi eiginleika sem nota má án þess að þau séu sérstaklega samþykkt

 • Bragðefnablöndur sem unnar eru úr matvælum með viðeigandi eðlisfræðilegri, ensím- eða örverufræðilegri aðferð úr efninu óunnu eða unnu með hefðbundinni matvælavinnslu aðferð[1]
 • Bragðefni sem eru unnin úr matvælum með viðeigandi  varmaferli[2].
 • Forefni bragðefna sem eru unnin úr matvælum.
 • Innihaldsefni matvæla með bragðgefandi eiginleika (öll).
 • Þau þurfa þó ávalt að uppfylla önnur skilyrði reglugerðarinnar t.d.  skilyrði um skaðleysi og að þau villi ekki um fyrir neytendum.

Notkunarskilyrði fyrir reykbragðefni

Um notkun reykbragðefna gildir sérstök reglugerð.  Sjá umfjöllun um hvað gildir um notkun reykbragðefna.

Bragðefni og grunnefni sem einungis má nota, séu þau á skrá yfir samþykkt bragð-/grunnefni

 • Bragðgefandi efni
 • Bragðefnablöndur sem unnar eru úr jurta- eða dýraríkinu eða af örverufræðilegum uppruna, öðru en matvælum , með  viðeigandi eðlisfræðilegri, ensím- eða örverufræðilegri aðferð úr efninu óunnu eða unnu með hefðbundinni matvælavinnsluaðferð1.
 • Bragðefni, unnin með varmaferli úr öðrum grunnefnum en matvælum og/eða sem ekki eru framleidd með viðeigandi varmaferli2.
 • Forefni bragðefna, unnin úr öðrum grunnefnum en matvælum.
 • Bragðefni sem falla undir skilgreininguna „önnur bragðefni“ (sjá Skilgreiningar).
 • Grunnefni önnur en matvæli.

Skrá yfir samþykkt bragðefni og grunnefni

Skrá yfir samþykkt bragð og grunnefni er birt í nokkrum listum í A-F hlutum  viðauka I við reglugerð ESB nr. 1334/2008. Listarnir eru eingöngu fyrir bragð-/grunnefni sem eru háð sérstöku samþykktarferli.  Upplýsingar úr skránni má einnig finna í bragðefnagagnagrunni Evrópusambandsins.

Bragðgefandi efni

Listi yfir leyfileg bragðgefandi efni og takmarkanir á notkun, ef einhverjar eru, er að finna  í A-hluta viðauka I í reglugerð ESB 1334/2008.

Listinn var innleiddur með reglugerð ESB nr. 872/2012 (IS 408/2013).  Þau matvæli sem innihalda bragðgefandi efni sem ekki eru á lista, en voru löglega markaðssett, eða merkt fyrir 22. október 2014, má setja á markað til síðasta lágmarksgeymsluþols eða síðasta notkunardags. 

Bragðgefandi efni sem enn er verið að meta má nota á meðan mat stendur yfir.  Í bragðefnagagnagrunninum er að finna upplýsingar um hvort efni eru til skoðunar.

Grunnefni og bragðefni, önnur en bragðgefandi efni

Listar yfir samþykkt bragðefni (önnur en bragðgefandi efni) og grunnefni sbr. upptalningu hér að ofan verða birtir í B-F-hluta í viðauka I við reglugerð ESB 1334/2008 (980/2011).  Gildistaka þeirra er 22. október 2016, en umbreytingarráðstafanir eru til 22. apríl 2018. Þ.e. markaðssetja má matvæli sem innihalda bragðefni/grunnefni sem ekki komast á listana, en voru löglega markaðssett eða merkt fyrir 22. apríl 2018, til síðasta lágmarksgeymsluþols eða síðasta notkunardags.


[1] „Hefðbundnar matvælavinnsluaðferðir“ eru skilgreindar í II viðauka við reglugerð ESB nr. 1334/2008 (IS 187/2015).

[2] Skilyrði fyrir framleiðslu bragðefna með „viðeigandi“ varmaferli er að finna í viðauka V við reglugerð ESB nr. 1334/2008 (IS 187/2015).