• Email
  • Prenta

Rotvarnarefni

E 200 - 299

Rotvarnarefni eru notuð til að bæta geymsluþol matvæla þar sem aðrar aðferðir eins og kæling duga ekki til. Salt hefur lengi verið notað til að auka geymsluþol og sykur er notaður í sama tilgangi, en þessi efni teljast til hráefna í matvælum og eru notuð í hlutfallslega miklu magni. Hitun og gerilsneyðing eru aðferðir sem notaðar eru til að auka geymsluþol matvæla eins og mjólkurafurða, en þessum aðferðum er hægt að beita á ýmsar aðrar vörutegundir. Aðrar þekktar geymsluaðferðir eru súrsun, reyking og þurrkun matvæla, en þær hafa minna vægi í dag en áður var. Rotvarnarefni þarf ekki að nota í miklu magni og þau hafa flest ekki áhrif á bragð eða útlit matvæla. Notkun þeirra hefur því aukist með meiri fjölbreytni í matvælaframleiðslu og breyttum geymslu- og dreifingaraðferðum. Meðal rotvarnarefna sem geta valdið óþoli eru nokkur sem algengt er að finna í matvælum og má þar nefna bensósýru og bensóöt (E210-219), sorbínsýru og sölt (E 200-203) og brennisteinsdisoxíð og súlfít (E220-228).

E númer Efni
E 200 Sorbínsýra
E 202 Kalíumsorbat
E 203 Kalsíumsorbat
E 210 Bensósýra
E 211 Natríumbensóat
E 212 Kalíumbensóat
E 213 Kalsíumbensóat
E 214 Etýl-p-hýdroxýbensóat
E 215 Natríumetýl-p-hýdroxýbensóat
E 218 Metýl-p-hýdroxýbensóat
E 219 Natríummetýl-p-hýdroxýbensóat
E 220 Brennisteinsdíoxíð
E 221 Natríumsúlfít
E 222 Natríumvetnissúlfít
E 223 Natríummetabísúlfít
E 224 Kalíummetabísúlfít
E 226 Kalsíumsúlfít
E 227 Kalsíumvetnissúlfít
E 228 Kalíumvetnissúlfít
E 234 Nísín
E 235 Natamýsín
E 239 Hexametýlentetramín
E 242 Dimetýldíkarbónat
E 243 Etýlláróýlargínat
E 249 Kalíumnítrít
E 250 Natríumnítrít
E 251 Natríumnítrat
E 252 Kalíumnítrat
E 260 Ediksýra
E 261 Kalíumasetöt
E 262 Natríumasetöt
E 263 Kalsíumasetat
E 270 Mjólkursýra
E 280 Própíónsýra
E 281 Natríumprópíónat
E 282 Kalsíumprópíónat
E 283 Kalíumprópíónat
E 284 Bórsýra
E 285 Natríumtetrabórat (bórax)
E 290 Koltvísýringur
E 296 Eplasýra
E 297 Fúmarsýra


Reglugerð EB nr. 1333/2008 (innleidd með 978/2011) segir til um hvaða rotvarnarefni má nota í hvaða matvæli og í hvaða magni. Listar yfir það eru birtir í viðaukum við reglugerðina. Sjá nánar upplýsingasíðu Matvælastofnunar um aukefni.

Ítarefni