• Email
  • Prenta

Almennt um aukefni

Aukefni eru efni sem aukið er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla. Í innihaldslýsingum sjáum við að efnin eru ýmist auðkennd með efnaheitum eða E númerum. E númerin eru bæði til að einfalda innihaldslýsingar og eiga að auðvelda fólki að varast tiltekin efni, s.s. ofnæmisvalda. Þegar aukefni eru notuð í vörur þarf einnig að greina frá tilganginum með notkun efnisins. Það er gert með því að setja flokksheiti á undan efnaheitinu eða E númerinu
Dæmi: Rotvarnarefni: Natríumbensóat, eða rotvarnarefni: E 211.

Aukefni fá ekki E fyrir framan númer sitt fyrr en eftir mikla umfjöllun og að Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur metið þau og viðurkennt (áður vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli (SCF)). Bókstafurinn E stendur fyrir Evrópu, númerin eru hinsvegar alþjóðleg. Aukefni í matvæli eru heimiluð á evrópskum vettvangi fyrir öll aðildarríki EB og EFTA ríkin þrjú, Ísland, Lichtenstein og Noreg. Það er gert til að einfalda viðskipti milli landa. Notkun aukefna í Evrópu er endurskoðuð hvenær sem rökstuddur grunur kemur upp um óæskileg áhrif þeirra á neytendur. 

Mikill munur er á einföldum lista yfir númer aukefna og aukefnalista sem segir til um í hvaða matvörur og í hvaða magni leyfilegt er að nota aukefni. Í aukefnalista við reglugerð EB/1333/2008 sem innleidd er með reglugerð nr. 978/2011 um aukefni er matvælum skipt upp í 18 flokka og þeim síðan í undirflokka. Undir hverjum flokk eru listuð þau aukefni sem heimilt er að nota í þann matvælaflokk og tilgreint í hvaða magni má nota aukefnin og hvaða skilyrði eru fyrir notkuninni. Aukefnalistinn er svokallaður jákvæður listi, svo að þau efni sem ekki eru á listanum eru ekki leyfð í þeim matvælaflokki. Sjá upplýsingar um nýja reglugerð og aukefnalista hér neðar á síðunni.

Aukefni sem notuð eru í matvæli verða að vera ætluð í matvæli þ.e. „food grade“ og þau verða að uppfylla kröfur sem fram koma í reglugerð nr. 397/2013 um gildistöku reglugerðar EB nr. 231/2012 um nákvæmar skilgreiningar á aukefnum í matvælum. Nánari upplýsingar er að finna í neðangreindum leiðbeiningum og ítarefni.

Ítarefni

    Reglugerðir og leiðbeiningar

E númer 

    Evrópusambandið

    CODEX