• Email
  • Prenta

Neysluvatn

Það eru fáar þjóðir ef nokkrar sem búa yfir jafnmiklum vatnsauðlindum og íslendingar. Það hefur verið metið að magn vatns á hvern íslending sé um 530 þúsund tonn, þetta er í raun gríðarlega mikið magn. Ef við berum það saman við lönd eins og Noreg sem er einnig mjög ríkt af vatni þá er sambærileg tala þar um 80 þúsund tonn, Danir hafa um 3 þúsund tonn á hvern íbúa. Það sem er einnig nokkuð sérstakt við neysluvatn okkar íslendinga er að 98% af því er ómeðhöndlað grunnvatn.
 
Það má líta á neysluvatn sem mikilvægasta matvæli okkar. Gott neysluvatn er einnig forsenda fyrir því að annar matvælaiðnaður gangi, s.s. mjólkurstöðvar, sláturhús og fiskvinnslur.

Kröfur um gæði og aðrar reglur um drykkjarvatn eru settar hjá Evrópusambandinu og eru innleiddar í íslenska löggjöf. Sú tilskipun sem skiptir höfuðmáli fyrir neysluvatn er númer 98/83 (Council directive 98/83/EC, the Drinking Water Directive, DWD). Þessi tilskipun hefur verið innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.

Tilgangurinn með neysluvatnsreglugerðinni er að vernda heilsu fólks með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint.

Eftirlit með neysluvatni er í höndum heilbrigðisnefnda, hlutverk Matvælastofnunar er að samræma eftirlitið, veita leiðbeiningar, umsagnir og upplýsa. Ef vatnsveitur þjóna færri en 50 manns eða 20 heimilum/sumarbústöðum þá hafa heilbrigðisnefndir ekki reglubundið eftirlit með þeim, nema að veiturnar þjóni matvælafyrirtækjum.

Á þessari síðu er að finna eftirfarandi efni um neysluvatn:Reglugerðir

Um neysluvatn gildir reglugerð nr. 536/2001 sem sett er með hliðsjón af tilskipun EB 98/83. Reglugerðin gildir einnig um átappað vatn sem sérreglur gilda ekki um.

Fyrir fyrirtæki sem hyggjast markaðssetja vatn sem náttúrulegt ölkelduvatn („mineral water“) eða sem átappað lindarvatn („spring water“) þá gildir reglugerð nr. 405/2004 um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn. Þessi reglugerð er innleiðing á tilskipun 2003/40/EB um skrá yfir innihaldsefni ölkelduvatns, styrkleikamörk þeirra og kröfur sem eru gerðar um merkingar vegna þeirra og skilyrði fyrir notkun ósonauðgaðs lofts við meðhöndlun ölkelduvatns og uppsprettuvatns.

Vatnsveitur og átöppunarfyrirtæki verða jafnframt að uppfylla ákvæði í matvælalöggjöfinni þar sem neysluvatn er skilgreint sem matvæli í lögum nr. 93 frá 1995 um matvæli. Af því leiðir að vatnsveitur og átöppunarfyrirtæki eru matvælafyrirtæki og þurfa að uppfylla ákvæði í ofangreindum lögum og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim.

Ítarefni

Leiðbeiningar

Til að auðvelda eftirlitsaðilum og öðrum að starfa eftir neysluvatnsreglugerðinni þá hefur Matvælastofnun gefið út nokkrar leiðbeiningar. Þær snúa m.a. að aðferðum við sýnatöku á neysluvatni, gæði og meðhöndlun yfirborðsvatns og hagnýtingu og markaðssetningu ölkelduvatns. Stefnt er að því að setja inn fleiri leiðbeiningar, t.d. til að auðvelda eftirlitsaðilum skýrsluskil til Matvælastofnunar.

Leiðbeiningar:

Skýrslur

Í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn er að finna í 16.gr. ákvæði um skýrslugerð. Þar segir m.a að heilbrigðisnefndir skuli árlega skila skýrslu til Matvælastofnunar (MAST) um niðurstöður úr sýnatökum á neysluvatni. Það er síðan hlutverk MAST að taka saman þessar upplýsingar og birta skýrslu árlega um ástand neysluvatns í þeim tilgangi að upplýsa neytendur. Ekki hefur verið unnt að safna saman þessum upplýsingum og birta. Það er stefnt að því að vinna leiðbeiningar fyrir heilbrigðiseftirlitið sem gerir þessi upplýsingaskil auðveldari og skilvirkari.

Þess utan þá ber Íslandi sem aðila af EES samningnum að skila skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á þriggja ára fresti. Það eru ákvæði í tilskipun EB, 98/83 um neysluvatn sem kveða á um að aðildarríki skuli skila upplýsingum um gæði neysluvatns og eftirlits með því til Framkvæmdastjórnar EB. Í tilviki Íslands þá þarf að skila þessum upplýsingum til ESA.

Fræðsluefni

Samorka

World Health Organization (WHO)

Mattilsynet í Noregi