• Email
  • Prenta

Varnarefnaleifar

Varnarefni eru efni sem notuð eru við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvara, til að draga úr eða koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Til varnarefna teljast plöntulyf (skordýra- og sveppaeitur), illgresiseyðar og stýriefni. Stýriefni notuð til að hafa áhrif á vöxt og viðgang ákveðinna tegunda matvæla, t.d. til að draga úr spírun kartaflna og auka þar með geymsluþol. Ákveðnar reglur gilda um notkun varnarefna á vaxtartíma, t.d. hve langur tími skal líða frá notkun þar til kemur að uppskeru. Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða varnarefnaleifar (þ.e. leifar af varnarefnum eða umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra) mega mælast í mismunandi matvælum og í hvaða magni. Rétt notkun varnarefna við framleiðslu og geymslu matvæla á að tryggja að litlar sem engar leifar þeirra finnist í matvælum sem tilbúin eru til neyslu. Engu að síður er mikilvægt að fylgjast með magni varnarefna í reglubundnu eftirliti þar sem ýmislegt getur farið úr skorðum á leiðinni frá haga til maga.

Umhverfisstofnun

Sér um eftirlit með innflutningi og markaðssetningu plöntuverndarvara, og þurfa allar vörur sem eru á markaði hér að hafa fengið markaðsleyfi hjá UST eða vera á lista yfir tímabundnar skráningar

Heilbrigðiseftirlit Sveitarfélaga

Fer með eftirlit með frumframleiðslu matjurta, pökkun í neytendaumbúðir og verslunum sem selja matjurtir. Einnig eftirlit með innflutningsfyrirtækjum sem flytja inn og dreifa matjurtum, kornvörum og víni. Flest sýni eru tekin á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningsfyrirtæki eru staðsett. Önnur svæði taka sýni af framleiðslu á sínu svæði.

Matvælastofnun

Hefur yfirumsjón með verkefninu, skipuleggur sýnatökur fyrir hvert ár, safnar saman niðurstöðum, tekur þær saman í skýrslu og sendir til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) fyrir 31. ágúst ár hvert.

Matís ohf.

Tekur að sér greiningar sýna af ávöxtum, grænmeti, kornvörum, safa og víni. Greinir leifar um 188 efna sem flokkast sem leifar varnarefna og hjálparefna.

Rreglugerð nr. 672/2008 um hámarksgildi varnarefnaleifa í matvælum og fóðri tók gildi í júlí 2008 og eru nú sömu hámarksgildi yfir hundruðir efna á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Breytingar á hámarksgildum eru mjög tíðar og viðauki með hámarksgildum er orðinn of stór til að birta á vefnum, (yfir 2400 bls). Handhægt er að leita í gagnagrunn ESB yfir hámarksgildi sem er að finna hér: Gagnagrunnur ESB  

Ítarefni