• Email
  • Prenta

Transfitusýrur

Transfitusýrur eru ein gerð harðrar fitu í matvælum en mikil neysla á þeirri gerð fitu er þekkt fyrir að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum

Hvernig myndast þær?

Transfitusýrur eru ýmist í matvælunum frá náttúrunnar hendi eða vegna þess að þær hafa myndast við vinnslu/meðhöndlun. Þær koma fyrir á þrennan hátt í matvælum og myndast:

  • þegar lin fita er hert að hluta (fljótandi fita gerð hörð)
  • í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería sem þar er að finna
  • við háan hita í steikingarfeiti
Stærsti hlutinn verður til þegar olía er hert að hluta. Tilgangurinn með herslunni er að breyta áferð og bræðslumarki fitunnar, en auk þess eykst geymsluþolið.

Áhrif á heilsu

Rannsóknir sýna að neysla á transfitusýrum eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en inntaka á annarri harðri fitu. Það er ekki nóg með að neysla á transfitusýrum hækki hlutfall óæskilegrar blóðfitu (LDL kólesteról) heldur lækkar hún líka magn hinnar jákvæðu blóðfitu (HDL-kólesteról). Rætt er um hvort neysla á transfitusýrum auki líkur á krabbameini og svokallaðri fullorðinssykursýki, en rannsóknir eru misvísandi og fleiri rannsókna er þörf til að skera úr um hvort neyslan hafi þessi áhrif. Ekki er vitað hvort transfitusýrur sem eru í matvörunum frá náttúrunnar hendi (kjöt, mjólkurvörur) hafi sömu áhrif á heilsu og þær sem myndast við vinnslu/meðhöndlun en engar forsendur eru fyrir að ætla annað.

Ekki má gleyma því að þó að transfitusýrur séu hér til umræðu að önnur hörð fita hefur líka óæskileg áhrif á heilsufar og það er því mikilvægt að draga úr neyslu á allri harði fitu.

Magn transfitusýra

Transfitusýrur í afurðum jórturdýra geta verið um 3-6% af heildarfitumagni. Ef ekkert er að gert þegar verið er að herða fitu eins og t.d. þegar bökunar- eða steikingarfita er búin til með því að herða olíu að hluta, þá getur hlutfall transfitusýra í afurðinni orðið allt að 60%. Ef fitan er alveg hert (harður klumpur) myndast ekki transfitusýrur. Þetta eru smjörlíkisframleiðendur farnir að nýta sér í seinni tíð. Þeir nota þá alveg herta fitu í framleiðsluna og blanda svo í hana olíum á eftir til að mýkja afurðina upp.

Hvernig var ástandið á Íslandi?

Ísland var eitt þátttökulanda í evrópsku rannsóknarverkefni ásamt 13 öðrum löndum árið 1995. Verkefnið hét: Neysla trans fitusýra og áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma í Evrópu (TRANSFER). Þessi rannsókn leiddi í ljós að meðalneysla Íslendinga á transfitusýrum var 5,4g á dag, ef tekið var mið af landskönnun 1990 hvað neyslu varðar.

Samkvæmt niðurstöðum síðustu neyslukönnunar Manneldisráðs (Hvað borða Íslendingar, 2002) er meðalneysla transfitusýra um 3,5 g á dag eða 1,4% af heildarorkuinntöku og dreifist þannig á fæðuflokka:

Kornvörur

30 %

Mjólk og mjólkurvörur

15 %

Kjöt og kjötafurðir

14 %

Feitmeti

11 %

Snakk

11 %

Ostar

10 %

Annað

9 %

Hefur ástandið breyst?

Lýðheilsustöð tekur saman töflur yfir framboð matvæla og samkvæmt þeim hefur feitmeti minnkað úr 5,1 kg á mann á ári fyrir árið 2002 niður í 4,2 kg (17,6% minnkun) fyrir árið 2005.

Samkvæmt upplýsingum frá framleiðendum hefur verið unnið að því markvisst að minnka transfitusýrur í smjörlíki, annarri bökunarfeiti og steikingarfeiti.

Af framansögðu má ætla að neysla á transfitusýrum hafi minnkað frá síðustu neyslukönnun en ekki er vitað hvort hún samræmist markmiði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem er <1% orkuinntöku. Mikilvægt er að fá úr því skorið með nýrri neyslukönnun og efnagreiningu á þeim vörum sem eru á markaði.

Danskar mælingar

Danskur prófessor Steen Stender hefur mælt transfitusýrur í matvælum sem keyptar voru á Íslandi á undanförnum mánuðum. Hann mældi meðal annars hversu mikið væri af transfitusýrum miðað við 100g af fitu í matvælunum. Mesta magn sem hann fann var eftirfarandi:

Djúpsteiktur skyndibiti

25,9 g

Örbylgjupoppkorn

58,1 g

Kex og kökur

33,7 g

Hvað gera aðrir?

Frá 1. janúar 2006 er skylda að geta um magn transfitusýra við merkingu næringargildis matvæla í Bandaríkjunum. Innan Evrópusambandsins hefur verið rætt um að taka einnig upp skyldumerkingar á transfitusýrum.

Í Danmörku var á árinu 2003 sett reglugerð sem kveður á um að það feitmeti sem reglugerðin nær til megi ekki innihalda meira en 2 grömm af transfitusýrum per 100 grömm af fitu. Þessi reglugerð nær ekki til transfitusýra sem eru í vörunni frá náttúrunnar hendi. Evrópusambandið gerði í fyrstu athugasemd við þessa reglugerð þar sem hún var talin standa í vegi fyrir frjálsu flæði matvæla innan sambandsins. Siðan ákvað sambandið að láta reglugerðina afskiptalausa.

Merkingar á matvælum

Um merkingar á matvælum fer samkvæmt reglugerðum nr. 503/2005 um merkingu matvæla og nr. 586/1993 um merkingu næringargildismatvæla. Samkvæmt þessum reglugerðum er hvorki skylt né leyfilegt að geta um magn transfitusýra á umbúðum matvæla, nema að fengnu leyfi til að setja fullyrðingar um transfitusýrur á umbúðir (Sækja þarf um það til Umhverfisstofnunar sbr. reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla IV kafli).

Aftur á móti er skylt að merkja matvæli með innihaldslýsingu (með fáeinum undantekningum). Þar koma fram þau hráefni sem notuð eru við framleiðsluna og skulu þau talin upp í minnkandi magni. Með því að skoða innihaldslýsing má iðulega finna út hvort líklegt sé að varan innihaldi transfitusýrur. Gera má ráð fyrir að viðkomandi vara innihaldi transfitusýrur ef á umbúðum stendur að hún innihaldi fitu sem er hert að hluta eða hálfhert.

Á erlendum tungumálum stæði “partially hydrogenated oil”, “delvist hærdet fedt/olie”, “delvis härdet olje/fett” eða “delvis hydrogenert olje/fett”. Ef eingöngu kemur fram að fitan sé hert (hydrogenated, hærdet, härdet) er ekki hægt að vita hvort hún er hert að hluta eða alveg hert og innihaldi þá ekki transfitusýrur.

Helstu iðnaðarframleiddar matvörur sem búast má við að innihaldi transfitusýrur eru smjörlíki bæði bökunar- og borðsmjörlíki, steikingarfeiti, djúpsteiktur matur, kex, kökur, vínarbrauð, poppkorn ,kartöfluflögur og annað djúpsteikt snakk og auk þess sumar tegundir af sælgæti. Frá náttúrunnar hendi má búast við að finna transfitusýrur í litlu magni í smjöri, rjóma, ostum, feitu kjöti og afurðum gerðum úr þessum vörum.

Fleiri upplýsingar um transfitusýrur