• Email
  • Prenta

Histamín

Hvað er histamín?

Histamín tilheyrir hópi efna sem nefnast lífræn amín. Önnur efni í sama flokki eru til dæmis tyramin, phenylethylamin, dopamin, tryptamin, serotonin, putrescin, cadaverin, spermidin, spermin og agmatin.

Í hvaða matvælum getur histamín myndast?

Histamín getur verið náttúrulega til staðar í ýmsum matvælum og í eðlilegu magni er það ekki talið skaðlegt fyrir fólk. Þau matvæli sem líkleg eru til að innihalda histamín og önnur lífræn amín eru t.d. rauðvín, ostar, spægipylsa, ákveðnar fisktegundir og fiskafurðir.

Hvernig myndast histamín?

Histamín myndast við efnabreytingar á amínósýrunni histidíni. Ef matvæli eru geymd á rangan hátt t.d. við of hátt hitastig í langan tíma, geta bakteríur stuðlað að myndun histamíns og annarra amína. Matvæli með of mikið magn af histamíni geta valdið matareitunum. Mikil histamínmyndun getur átt sér stað í vissum fiskafurðum og valdið svonefndri skombroíðeitrun.

Eitrun

Eituráhrif getur valdið ofnæmisviðbrögðum hjá fólki allt frá óþægindum á húð upp í ógleði, uppköst og niðurgang.

Einkenni eitrunar getur verið roði í andliti, háls og bringu, höfuðverkur, ógleði, uppköst, magaverkir, bólgnar varir og kláði. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða kláða, svima og í verri tilfellum, taugaáfall/lost, sársauki í lungum og truflanir á andardrætti.

Ráðleggingar

Setjum kælivörur strax í ísskáp eftir innkaupaferðir.

  • Geymum kælivörur við 0-4°C.
  • Kælum matarafganga strax að máltíð lokinni.
  • Viðkvæmra matvæla ætti ekki að neyta eftir síðasta söludag.
  • Þíðum frosinn mat í ísskáp eða á köldum stað.
  • Höfum matinn í ílátum við geymslu til að tryggja að ekkert leki yfir í önnur matvæli.
  • Höfum hreinlæti í fyrirrúmi.