• Email
  • Prenta

Glýfosat / Roundup

Hvað er glýfosat?

Glýfosat, (e. glyphosate) N-(phosphonomethyl)glycine, er virka efni í illgresiseyðinum Roundup sem seldur er um mestallan heim. Það er líka virka efnið í illgresiseyðum sem seldir eru undir öðrum nöfnum, eins og Ameda, Clinic og Keeper. Stórfyrirtækið Monsantó setti Roundup fyrst á markað árið 1974 og notkun þess hefur aukist á hverju ári síðan. 

Hvernig er leyfð notkun á glýfosati? 

Glýfosat má nota í atvinnuskyni til eyðingar á húsapunti, grastegundum og breiðblaða illgresi í kornrækt. Til eyðingar á húsapunti og breiðblaða illgresi, sem og til að svíða niður plöntur fyrir uppskeru í repjuræktun. Til eyðingar á illgresi og grassverði fyrir sáningu eða plöntun nytjaplantna. Til valkvæðrar eyðingar á illgresi innan um annan gróður. Til að varna endurvexti og myndun rótarskota eftir fellingu á stórum trjám. Til eyðingar á illgresi á gróðurlausum svæðum. Uppskerufrestur: Úðun á korni fyrir uppskeru má ekki eiga sér stað síðar en 10 dögum fyrir uppskeru. 

Almenningur getur einnig keypt efni sem innihalda glýfosat og notað það til varnar gegn húsapunti og öðrum fjölærum grastegundum svo og tvíkímblaða illgresi á slegnum ökrum, óræktuðum svæðum og í skógum. 

Er glýfosat notað á Íslandi? 

Umhverfisstofnun veitir markaðsleyfi og fer með eftirlit með innflutningi, dreifingu og markaðssetningu plöntuverndarvara. Í maí 2018 voru 10 vörur með tímabundið markaðsleyfi. Árið 2016 tók Matvælastofnun þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfósati. Ekkert glýfósat greindist í vörunum. 

Hvers konar matvæli innihalda glýfosat? 

Illgresiseyðar eru mest notaðir fyrir útplöntun eða sáningu matjurta og korns og eru því lítið eða ekkert af leifum glýfosats almennt í matjurtum. Í kornrækt er það að aukast að glýfosati sé úðað yfir akrana fyrir uppskeru, en það flýtir fyrir að kornið verði fullþroskað og auðveldar uppskeru þar sem plönturnar drepast. Eftir úðun verður samt að bíða í 10 daga (uppskerufrestur) þar til uppskera hefst. 

Það getur verið hægt að finna örlitlar leifar glýfosats í mörgum matvælum, sérstaklega ef tekin eru mörg sýni og leitað vel. Í skýrslu EFSA um niðurstöður eftirlits með plöntuverndarvörum árið 2016 kemur fram á bls. 67 að glýfosat fannst í linsubaunum í 38% sýna, hörfræjum í 20% sýna, soja baunum í 16% sýna og tei í 10% sýna. Í kornvörum fannst glýfosat aðallega í bókhveiti og öðrum gervikornum (24% af sýnum) og þar á eftir bygg (19% sýna), millet (18%), hveiti (13%) og rúgur (4%). Glýfosat fannst ekki í neinu sýni af hrísgrjónum. 

Hvernig tengist glýfosat erfðabreyttum matvælum? 

Það eru þónokkrar gerðir af erfðabreyttum plöntum ræktaðar víða um heim sem eru kallaðar Round-up ready en þá hefur tekist með erfðabreytingunni að mynda þol hjá plöntunni gagnvart virka efninu í illgresiseyðinum, glýfosati. Þar af leiðandi þola plönturnar að vera úðaðar ítrekað yfir vaxtartímann með Roundup eða öðru efni sem inniheldur glýfosat. 

Ræktun erfðabreyttra plantna er mjög mikil takmörk sett á Íslandi og í Evrópu en er aftur á móti orðin stór hluti ræktunar í öðrum heimshlutum.

Er glýfosat hættulegt? 

Já, sérstaklega þeim sem vinna með glýfosat, við að blanda og úða því eða vinna á ökrum með erfðabreyttum jurtum sem eru úðaðir oft á vaxtartímanum. Það má búast við að einhverjar leifar séu enn til staðar þegar matvælin koma á diskinn okkar. En reglur eru skýrar um leyfða notkun og hversu mikið magn er leyfilegt í matvælum. Vel er fylgst með ræktun og matvælum á markaði í Evrópu. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) segir í áhættumati sínu 2018 að miðað við það magn sem finnst í matvælum í Evrópu stafi heilsu almennra neytenda ekki hætta af glýfosati. 

Er ekki hámark á hve mikið glýfosat megi finnast í matvælum? 

Jú, hámark fyrir varnarefnaleifar í matvælum og fóðri eru sett í reglugerð 672/2010 (sem innleiðir EB/396/2005). Þar eru hámarksgildi fyrir allar matjurtir, ávexti, ber, grænmeti, korn, baunir o.s.frv. Flest hámarksgildin eru mjög lág, eða við greiningamörk, þ.e. glýfosat má ekki finnast. En fyrir jurtir sem leyft er að nota roundup á vaxtartíma plöntunnar (t.d. korn og soya) eru hærri gildi, en samt það lág að almenningi stafi ekki hætta af. Hægt er að skoða hámarksgildi í gagnagrunni Evrópusambandsins sem er hér: http://ec.europa.eu/food/plant/pesticides/eu-pesticides-database/public/?event=pesticide.residue.selection&language=EN 

Á ég að breyta neysluvenjum mínum? 

Miðað við fyrirliggjandi gögn, bæði niðurstöður mælinga á matvælum í Evrópu og áhættumat EFSA er ekki ástæða til þess. 

Matvælastofnun vill þó leggja ríka áherslu á að fjölbreytt mataræði kemur í veg fyrir að eitt efni geti orðið í miklu magni í fæði einstaklings.

Ítarefni