• Email
  • Prenta

Flokkun

Hægt er að skipta aðskotaefnum í fjóra flokka eftir því hvernig þau berast í matvælin.

Efni sem berast úr umhverfinu í matvælin

Efni sem berast úr umhverfinu yfir í matvæli geta komið frá ýmsum iðnaði eða vegna náttúruhamfara eins og eldgoss. Þessi efna geta verið skaðleg heilsu manna og eru þau ekki æskileg í matvælum yfir hámarksgildum sem gefin eru upp í reglugerðum. Dæmi um efni sem geta borist í matvæli úr umhverfinu eru þungmálmar eins og blý, kadmíum, kvikasilfur, tin og arsen. Dæmi um efni sem geta borist í matvæli og eiga uppruna úr iðnaði eru díoxín, PCB efni, PAH efni og DDT. Geislavirk efni geta einnig borist í matvæli úr umhverfinu, þau er að finna í umhverfinu bæði vegna umsvifa mannsins og sem hluta af náttúrunni.

Efni sem notuð eru við framleiðslu ýmissa matvæla

Í matvælaframleiðslu eru notuð mörg mismunandi efni. Varnarefni eru notuð við framleiðslu og geymslu matvæla. Lyfjaleifar geta verið til staðar í dýraafurðum ef dýrum er gefið lyf til lækninga. Efni til þrifa og gerileyðinga í matvælafyrirtækjum þarf að gæta sérstaklega að berist ekki í matvæli.

Efni sem myndast við framleiðslu matvæla

Ýmsar aðferðir eru notaðar við framleiðslu og meðhöndlun matvæla áður en þeirra er neytt. Matvæli eru soðin, steikt, reykt eða bökuð, einnig hafa ýmsar nýjar aðferðir komið til söguna eins og hitun í örbylgjuofni, geislun og fleira. Í sumum tilfellum geta skaðleg efni myndast við framleiðslu og meðhöndlun matvæla, sem dæmi má nefna 3-MCPD, PAH og akrýlamíð.

Óæskileg efni geta einnig borist í matvælin frá efnum og hlutum sem snerta matvælin eins og umbúðum og eldhúsáhöldum.

Náttúrleg eiturefni

Í flestum tilfellum finnast náttúrleg eiturefni í matvælum í svo litlu magni að ekki er talin hætta á heilsuskaða við neyslu, en þó eru undantekningar á þessu. Til dæmis geta ákveðnir myglusveppir myndað sveppaeitur í matvælum, þörungar geta myndað þörungaeitur í skelfiski og enn aðrir þörungar geta myndað þörungaeitur í neysluvatni.

Sum eiturefni eyðileggjast við hitun, eins og Lektíner í þurrkuðum baunum. Í öðrum tilfellum getur röng geymsla ákveðinna matvæla aukið innihald náttúrulegra eiturefna í óæskilegt magn eins og sólanín í kartöflum eða histamín í fiski.