• Email
  • Prenta

Díoxín

Hvað eru díoxín?

Díoxín, fúran og díoxínlík PCB efni (PolyChlorinated Biphenyls) eru þrjú af tólf þrávirkum lífrænum mengunarefnum sem eru sérstakt áhyggjuefni vegna áhrifa þeirra á umhverfið og heilsu almennings. Efnin geta borist í matvæli úr umhverfinu. Þau hafa ekki áhrif á heilsu okkar samstundis, en geta valdið vandamálum ef þau berast í líkamann í talsverðu magni yfir langt tímabil. Þrávirk lífræn efni er samheiti yfir hóp efnasambanda sem eru mjög stöðug bæði í náttúrunni og í lífverum ef þau berast í þær. Þau eru fituleysanleg með langan helmingunartíma sem þýðir að þau brotna hægt niður í náttúrunni og safnast þar af leiðandi upp í fituvefjum manna og dýra. 

Díoxín og fúran eru oft nefnd í sömu andrá sem díoxín þar sem bygging þeirra og efnaeiginleikar eru svo lík. Ákveðin PCB efni hafa svipaða eiturvirkni og díoxín og eru kölluð díoxínlík PCB. Af 419 díoxín skyldum efnum sem hafa fundist eru bara 30 talin hafa verulega eiturvirkni. Af þeim er díoxín (2,3,7,8-tetrachlorodibenzo-para-dioxin eða 2,3,7,8-TCDD) það eitraðasta.

Hvaðan koma efnin?

Díoxín og furan hafa aldrei verið framleidd viljandi. Þau myndast sem aukaafurð við málmiðnað, ýmsan iðnað sem notar klór, bleikingu í pappírsiðnaði, framleiðslu varnarefna og brennslu, m.a. sorpbrennslu. Efnin verða einnig til í náttúrunni, t.d. við eldgos og skógarelda. Nú orðið er vandlega fylgst með að losun frá iðnaði uppfylli reglugerðir um mengunarvarnir til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið. 

PCB efni (Polychlorinated biphenyls) er stór hópur efna sem hafa verið notuð síðan á 4.áratugnum, aðallega í rafmagnsiðnaði. Framleiðsla og notkun á PCB efnum lagðist af á 8.áratugnum en efnin geta þó enn verið til staðar í gömlum rafmagnleiðslum og tækjum.

Hvernig dreifast efnin?

Díoxín og PCB efni dreifast með lofti, vatni og jarðvegi og finnast því um allan heim. Dýr og fiskar taka þau svo upp með fæðu sinni og jarðvegi og seti. Efnin eru vatnsfælin og setjast í líkamsfitu dýra þar sem þau safnast fyrir. Helmingunartími díoxína í líkamanum er talinn vera frá 7 til 11 ár. Díoxín safnast fyrir í fæðukeðjunni og því er meira af díoxínum ofar í fæðukeðjunni. 

Mataræði einstaklinga er mjög breytilegt og einnig hve mikið magn af þessum efnum þeir fá í sig. Mest fær fólk úr matvælum sem innihalda mikið af dýrafitu eins og mjólk, kjöt, fisk og egg (og matvæli unnin úr þeim). Þó eru þessi efni í snefilmagni í öllum matvælum.

Hversu hættuleg eru díoxín?

Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um matvæli er ásættanleg dagleg neysla (Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB efna sé 2 picogrömm á hvert kg líkamsþunga. 
Mesta áhættan stafar af því að borða mat með miklu innihaldi díoxína yfir langt tímabil. Staðfest hefur verið að þau valdi ýmsum kvillum í dýrum, þar á meðal krabbamein og skaða á ónæmiskerfi og æxlunarfærum. Þó virðast menn ekki vera jafn viðkvæmir og tilraunadýr.

Hvernig eru eituráhrif efnanna metin ?

Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvirkni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildar eitrunaráhrif er síðan summa TEQ gildanna. 

Hámarksgildi

Hámarksgildi fyrir díoxín og díoxínlík PCB efni í matvælum eru sett í reglugerð Evrópusambandsins nr 1881/2006 sem tók gildi á íslandi með reglugerð 265/2010. Nýjustu hámarksgildi voru skilgreind í EES-viðbæti nr. 1259/2011 og má nálgast hér að neðan:

Hvernig er best að forðast díoxín og díoxínlík PCB efni?

Díoxín og díoxínlík PCB efni finnast í öllum matvælum í mismiklu magni, líka þeim matvælum sem eru rík af mikilvægum næringarefnum. Það er nær ómögulegt að fjarlægja þessi efni úr matnum þegar þau eru komin inn í fæðukeðjuna. Almennt er viðurkennt að besta leiðin til að minnka díoxín og PCB í fæðu sé að koma í veg fyrir losun þeirra út í umhverfið.

Niðurstöður vöktunar á lífríki sjávar sýna að ætilegur hluti matfisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur almennt lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni og díoxínlíkum PCB efnum samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá þeim sem borða mikinn fisk af menguðum hafsvæðum eins og t.d. Eystrasaltinu.

WHO ráðleggur neytendum að skera fitu af kjöti og neyta frekar fituminni mjólkurvara til að minnka díoxín í fæði. Fjölbreytt fæði sem inniheldur ávexti, grænmeti og kornvörur í hæfilegu magni minnkar hættuna af mengun frá einum uppruna ef upp koma mengunartilfelli eins og í írsku svínakjöti haustið 2008. Þessi ráð hafa helst áhrif til langs tíma litið og á helst við um stúlkur og konur á barneignaaldri til að minnka skaðleg áhrif díoxíns á fóstur og ungbörn á brjósti sem þær eiga hugsanlega eftir að eignast. Barnshafandi konum og konum með barn á brjósti er einnig bent á að borða ekki sjávarspendýr (sel, hval) og stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk).

Hvað gerir Matvælastofnun?

Matvælastofnun hefur eftirlit með aðskotaefnum í búfjárafurðum og reglulega eru sýni tekin af mjólk, eldisfiski og sláturafurðum þar sem m.a. er skimað fyrir bendi-PCB efnum. Einnig er skimað fyrir aðskotaefnum í fóðri bæði innfluttu og innlendu. Niðurstöður þessa eftirlits er að finna á heimasíðu MAST. 


Hluti af innflutningseftirliti Matvælastofnunar er að fylgjast með tilkynningum sem berast með viðvörunarkerfinu Rapid Alert System of Food and Feed (RASFF). RASFF sem er kerfi Evrópusambands og EFTA landanna um upplýsingaflæði um hættuleg matvæli og fóður á markaði. Í gegnum það koma m.a. upplýsingar um vörur sem greinast með magn díoxína og díoxínlíkra PCB efna yfir hámarksgildum í öðrum Evrópulöndum, bæði framleidd í Evrópu og flutt inn frá þriðju ríkjum. Árið 2007 bárust 30 tilkynningar vegna díoxíns, 20 vegna matvæla og 10 vegna fóðurs. Þessar 20 tilkynningar vegna matvæla voru flestar (17) vegna díoxína og díoxínlíkra PCB efna í niðursoðinni fisklifur.

Ítarefni

    Reglugerðir

    Eftirlit

   Fróðleikur