• Email
  • Prenta

3-MCPD

1 . Hvaða efni er 3-MCPD og hvernig myndast það?

3-MCPD er skammstöfun fyrir 3-monochloropropane-1,2-diol (CH2OHCHOHCH2Cl) og getur efnið myndast þegar sojasósa er framleidd. Hægt er að framleiða sojasósu á tvo vegu annars vegar, með súru vatnsrofi og hins vegar með gerjun. Mun minni hætta er á að 3-MCPD myndist þegar sojasósa er framleitt með gerjun.

2. Er 3-MCPD hættulegt?

Samkvæmt áliti vísindanefndar Evrópusambandsins um matvæli (SCF) er 3-MCPD krabbameinsvaldandi og á því ekki að finnast í matvælum. Neysla 3-MCPD veldur ekki bráðum heilsuskaða en langvarandi neysla þess getur stuðlað að myndum krabbameina.

3. Hvað er hámarksgildi fyrir 3-MCPD?

Hámarksgildi fyrir sojasósur er 0,02 ppm skv. reglugerð nr. 662/2003 um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum. Hámarksviðmiðunargildi er gefið upp fyrir afurðina á vökvaformi með 40% þurrefnainnihaldi sem samsvarar hámarksviðmiðunargildinu 0,05 mg/kg í þurrefninu. Aðlaga þarf mörkin hlutfallslega í samræmi við þurrefnisinnihald afurðanna.

4. Af hverju myndast 3-MCPD aðeins í sumum tegundum sojasósa?

Efmið myndast við framleiðsluna, það er óæskilegt og gegnir engu hlutverki. Stýring framleiðslunnar hefur mikið að segja um það hvort efnið myndast eða ekki og er það því hlutverk framleiðandans að haga framleiðslunni þannig að engin óæskileg efni myndist.

5. Myndast 3-MCPD líka í einhverjum öðrum matvælum?

Fjölmörg lönd í Evrópu hafa gert mælingar á 3-MCPD í ýmsum tegundum matvæla en það virðist aðallega vera að mælast í sojasósu.

6. Hvernig er 3-MCPD mælt og er hægt að mæla það á Íslandi?

Efnið er mælt með gasgreini með massaskynjara, þetta eru bæði mjög dýrar og sérhæfðar mælingar sem ekki hafa verið framkvæmdar hérlendis.

7. Hefur 3-MCPD alltaf verið til staðar í sojasósum?

Eins og fram hefur komið þá er þessu efni ekki bætt í framleiðsluna heldur getur það myndast ef stýring á framleiðslunni er ekki nógu góð. Það er því ekki hægt að útiloka að það hafi verið til staðar í einhverjum tegundum af sojasósum.