• Email
  • Prenta

Sauðfjárrækt

Um stuðningsgreiðslur í sauðfjárrækt er fjallað um í samstarfssamningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt og reglugerð um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum sem gefin er út árlega í byrjun hvers árs.

Beingreiðslur og greiðslumark

Matvælastofnun heldur skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila, er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.

Beingreiðslur greiðast með níu jöfnum mánaðarlegum greiðslum 1. hvers mánaðar frá janúar til september ár hvert, þó þannig að greiðsla fyrir janúar fer fram 1. febrúar ásamt greiðslu fyrir þann mánuð. Handhafar geta nálgast upplýsingar um greiðslumark lögbýla á Bændatorginu.

Sjá nánar reglugerð nr. 1221/2015 um greiðslumark sauðfjár á lögbýlum 2016.

Gæðastýring

Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt kröfum sem settar eru fram í þessari reglugerð um aðbúnað og umhverfi, sauðfjárskýrsluhald, jarðrækt, fóðrun, heilsufar, lyfjanotkun, afurðir, landnýtingu og skyld atriði. Matvælastofnun fer með framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Framleiðandi sá sem óskar eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu skal senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar. Sjá þar til gert eyðublað í þjónustugátt Matvælastofnunar. Umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár. Framleiðandi er aðili að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu á milli ára, án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði hennar og óskar ekki eftir að hún verði felld niður. Álagsgreiðslur greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 20. desember ár hvert. 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í mánuðunum janúar til október skulu greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í nóvember skulu greiðast eigi síðar en 20. desember. Lokauppgjör skal fara fram eigi síðar en 5. febrúar ár hvert. Sjá nánar reglugerð nr. 1160/2013 og breytingarreglugerð nr. 536/2015 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Ullarnýting

Samkvæmt 4. gr. samningsins, greiðir ríkissjóður árlega framlög til ullarnýtingar á samningstímanum og hefur Matvælastofnun umsjón með ráðstöfun fjárins. Sauðfjárbændur fá greiddar beingreiðslur fyrir ull og skal þeirri fjárhæð sem er til ráðstöfunar deilt niður hlutfallslega eftir gæðaflokkum á hvert kíló hreinnar ullar miðað við alla innlagða ull á tímabilinu 1. nóvember – 31. október samkvæmt verðskrá sem Matvælastofnun útbýr. Skilyrði fyrir greiðslu fjármuna til bænda er að ullin hafi verið flokkuð og metin í samræmi við lög nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, og reglugerð nr. 856/2003, um ullarmat.