• Email
 • Prenta

Upplýsingastefna Matvælastofnunar

Matvælastofnun hefur það að stefnu að veita neytendum, eftirlitsþegum og eftirlitsaðilum hagnýtar upplýsingar sem varða og stuðla að neytendavernd, matvælaöryggi, plöntuheilbrigði og heilbrigði og velferð dýra með gildi stofnunarinnar að leiðarljósi. Stofnunin mun hafa aðgengilegt á vef sínum útgefið efni, eftirlitsniðurstöður, leiðbeiningar og upplýsingar um verkefni hennar.

Fréttaflutningur

Matvælastofnun mun birta eftirfarandi upplýsingar sem frétt á vef að lokinni skoðun á upplýsingagildi:


 • Leiðbeiningar til almennings og eftirlitsþega
 • Sölustöðvun og innköllun á vörum
 • Stöðvun eða verulega takmörkun á starfsemi
 • Kærur til lögreglu og ákvörðun stjórnvaldssekta
 • Áminningar og álagning dagsekta
 • Svik og blekking gagnvart neytendum
 • Vörslusvipting dýra
 • Aðgerðir vegna ólöglegs flutnings dýra
 • Stöðvun á innflutningi þegar öryggi matvæla eða heilbrigði plantna og dýra er ógnað
 • Greiningar á alvarlegum dýra- eða plöntusjúkdómum og aðgerðir vegna þeirra
 • Viðvaranir erlendra stofnana um hættuleg matvæli eða plöntu-/dýrasjúkdóma sem hætta er á að berist til landsins
 • Aðrar hættur sem ógna öryggi matvæla, fóðurs, áburðar, plantna eða dýra
 • Niðurstöður dóma og úrskurða sem tengjast stofnuninni
 • Niðurstöður ytri úttekta á stofnuninni
 • Nýjustu lög og reglur
 • Kynning og uppgjör átaks- og samstarfsverkefna
 • Kynning mikilvægra áfanga í starfseminni
 • Árlegar samantektarskýrslur og tölfræði

Dýravelferðarmál

Eftirfarandi á við um fréttaflutning, útgefið efni og afhendingu upplýsinga frá stofnuninni um dýravelferðarmál: Upplýst er um mál vegna dýrahalds í atvinnuskyni og mál sem leitt hafa til ofangreindra aðgerða, ef það er ekki andstætt lögum. Stofnunin veitir ekki upplýsingar um önnur dýravelferðarmál nema í formi almennra samantekta án þess að tilgreina eftirlitsþega.

Nafnbirting

Nöfn aðila sem eftirlit og aðgerðir Matvælastofnunar beinast að eru að jafnaði ekki birt á vef og í útgefnu efni stofnunarinnar og ekki er upplýst um nöfn þegar mál eru kærð til lögreglu. Stofnunin nafngreinir þó aðila þegar það hefur upplýsingagildi fyrir almenning og/eða aðra eftirlitsþega og það er ekki andstætt lögum. Nafngreint er þegar:

 • Alvarlegir smitsjúkdómar greinast í dýrum eða plöntum
 • Vörur eru innkallaðar eða starfsemi stöðvuð
 • Sýni eru tekin til rannsóknar í átaks- og samstarfsverkefnum

Þá eru veittar frekari upplýsingar um aðila að brotum gegn dýravelferð og málum þar sem beitt er dagsektum, stjórnvaldssektum og áminningum, ef eftir því er leitað og það samræmist ákvæðum upplýsingalaga.

Ábyrgð

 • Forstjóri og yfirstjórn bera ábyrgð á upplýsingastefnunni og endurskoðun hennar
 • Forstöðumenn og yfirmenn starfseininga, hver á sínu starfssviði, bera ábyrgð á miðlun upplýsinga um starfsemi sviðsins og þjónustu, markverðar nýjungar og breytingar bæði inn á við og út á við
 • Allir starfsmenn eru ábyrgir fyrir að vísa fyrirspurnum fjölmiðla á fræðslustjóra
 • Fræðslustjóri ber ábyrgð á móttöku beiðna fjölmiðla og framvísun til þeirra starfsmanna sem hafa mesta þekkingu á efninu. Fræðslustjóri upplýsir forstöðumenn um samskipti og forstjóra eftir þörfum

Áherslur

 • Að starfsmenn hafi góða þekkingu á starfsemi stofnunarinnar og stefnu
 • Að almenningur og fjölmiðlar eigi þess kost að fylgjast með stefnu og starfsemi stofnunarinnar með það að markmiði að auka gagnkvæmt traust í samskiptum við stofnunina og stuðla að auknu matvælaöryggi, plöntu- og dýraheilbrigði í landinu
 • Að starfsmenn skuli af ábyrgð leggja sitt af mörkum til miðlunar frétta af starfsvettvangi sínum m.a. inná heimasíðu stofnunarinnar, í samráði við forstöðumenn
 • Að upplýsinga- og fræðslugögn séu sett saman á einfaldan og skýran máta og birt með samræmdum hætti auðkennd stofnuninni
 • Að skjalavarsla stofnunarinnar, bæði skráning og vistun, sé í samræmi við stjórnsýslu- og upplýsingalöggjöf
 • Að efni frá stofnuninni sé birt undir formerkjum stofnunarinnar en ekki einstaklingsins

Afhending upplýsinga skv. upplýsingalögum

Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í upplýsingalögum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn. Helstu gögn sem ekki væri skylt eða eftir atvikum óheimilt að veita aðgang að eru rakin hér að neðan.

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Vinnugögn eru undanþegin upplýsingarétti en það eru gögn sem stjórnvöld hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Vinnugögn ber þó að afhenda þegar þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls, upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr upplýsingalaga, upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, og þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.

Ekki er skylt að afhenda bréfaskipti við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað.

Ekki er skylt að afhenda gögn um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera ef þær yrðu þýðingarlausar eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þær á almannavitorði.

Í undantekningartilfellum er heimilt að hafna beiðni um upplýsingar ef meðferð hennar tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni eða ef sterkar vísbendingar eru um að beiðni sé sett fram í ólögmætum tilgangi.