• Email
  • Prenta

Kröfur og vottun

Til aðila er hlotið hafa vottun vegna viðarumbúða

Hér skal bent á nokkur mikilvæg atriði vegna reglna um viðarumbúðir. Flest viðskiptalönd okkar eru að taka upp alþjóðlegan staðal, ISPM 15 (International standards for phytosanitary measures), er gerður var á vegum FAO (Landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna). Samkvæmt þessum staðli á að meðhöndla trjávið sem notaður er í viðarumbúðir með hita, metýlbrómíð gasi eða á annan hátt sem drepur skaðvalda, einkum skordýr og þráðorma, er borist geta með viðnum. Eini raunhæfi kosturinn hér á landi er hitameðhöndlun og því er eingöngu fjallað um hana. Staðallinn leggur það á herðar hins opinbera plöntueftirlitsaðila í hverju landi að framfylgja reglunum og því kom það í hlut plöntueftirlits Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem frá 1.1.2005 breyttist í plöntueftirlit Landbúnaðarháskóla Íslands og frá 1.1.2006 í plöntueftirlit Landbúnaðarstofnunar og loks frá 1.1.2008 í plöntueftirlit Matvælastofnunar, að annast þetta.

Skilgreining á viðarumbúðum

Með viðarumbúðum er átt við trékassa, vörubretti og hvers kyns trjávið sem notaður er til þess að bera, styðja við eða verja vörur í flutningi þeirra á áfangastað. Þessar reglur eiga þó ekki við umbúðir sem að öllu leyti eru gerðar úr unnum viði. Með unnum viði er átt við trjávið sem mótaður er með límingu, hitun og pressun s.s. krossvið, spónarplötur o.fl. Heflaður viður telst ekki unninn og gilda þar sömu reglur og um óheflaðann við.

Vottun

Um er að ræða tvenns konar vottun:

  • Vottun til aðila sem geta útvegað trjávið sem hitaður hefur verið á fullnægjandi hátt og þannig tilbúinn til umbúðagerðar. Viðurinn getur verið hitaður hér á landi eða fluttur inn frá timburframleiðanda erlendis sem hlotið hefur vottun hjá þarlendum yfirvöldum. Við þurrkun viðarins er hitinn hafður nægjanlegur til að uppfylla kröfur staðalsins. Þessum aðilum ber að sjá til þess að þegar viðurinn er seldur til umbúðagerðar þá komi skýrt fram á vörureikningum að um hitaðann við sé að ræða.
  • Vottun til aðila sem smíða umbúðir úr viði sem hefur verið hitaður eða sem hita tilbúnar umbúðir. Þessum aðilum ber að merkja umbúðirnar á réttan hátt til staðfestingar á að rétt hitun hafi átt sér stað. Við vottunina fá menn heimild til að nota einkennismerki staðalsins og fá úthlutað einkennisnúmeri.

Trjábörkur

Þar sem mest hætta er talin á að börkurinn geti borið skaðvalda eiga viðarumbúðir til útflutnings að vera lausar við allan börk.

Ormaför

Ef vart verður við kringlótt göt í viðnum, 2-4 mm í þvermál, er það vísbending um að þar hafi bjöllulirfur verið á ferð. Slíkan við ætti ekki að nota í viðarumbúðir til útflutnings.

Hitun

Fullnægjandi hitun er þegar hitinn kemst í minnst 56°C inni í innsta kjarna viðar og sem varir þannig í minnst 30 mínútur. Þegar timburbúnt eru hituð þarf að gæta þess að þessum hita sé náð inni í miðju búnti og í miðjum kubb þegar bretti eru hituð. Með því að staðsetja hitanema á þessum stöðum má tryggja þetta.

Merkið


Táknið fyrir framan með IPPC er einkennismerki staðalsins. Einungis þeir er vottun hafa hlotið mega nota það. Talan á eftir IS- er einkennisnúmer þess sem merkir. HT stendur fyrir hitameðhöndlun “heat treatment” og DB fyrir afbarkað eða barkarfrítt, debarked. Merkið skal setja á tvær gagnstæðar hliðar umbúðanna með brennimerki, stimplun, málun eða sprautun. Liturinn á að vera vatnsheldur og einhver annar en rauður og rauðgulur. Merkið skal vera vel læsilegt. Brennimerki er besti en dýrasti kosturinn en flestir hafa notað stimpla og vatnshelt blek. Matvælastofnun getur sent merkið í tölvupósti til þeirra er útbúa stimpla eða mót sé þess óskað.

Geymsla

Mikilvægt er að aðgreina vel hitaðann og óhitaðann við til þess að menn villist ekki á um hvort er að ræða. Ekki er hætta á að hitaður viður smitist og er enginn krafa um að hann sé geymdur innandyra.

Eldri merkingar

Þegar viðarumbúðirnar uppfylla sett skilyrði og búið er að setja viðhlítandi merkingu á þær á ekki að þurfa að hita þær aftur nema gert sé við þær með því að setja inn nýjan við. Sá sem gerir við merkt bretti þarf að fjarlægja merkið sem fyrir var og hita aftur og merkja síðan með sínu merki. Ef gert er við með forhituðum viði þarf ekki að hita brettið aftur. Með merki er einungis átt við ofangreint merki en ekki önnur merki sem á umbúðunum kann að vera. Ekki er tilgreint nánar í staðlinum hvernig fjarlægja skuli eldra merkið þegar gert er við en í tillögum að endurskoðun staðalsins er nefnd yfirmálun og slípun.

Kostnaður og eftirlit

Fyrir upphafsvottun er innheimt gjald skv. gjaldskrár Matvælastofnunar. Ekki er á þessari stundu komið á árgjald fyrir vottunina og reynt verður að halda eftirlitskostnaði í lágmarki. Það er á ykkar ábyrgð að umbúðir þær sem þið útvegið útflytjendum uppfylli þær kröfur sem gerðar eru, þ.e.a.s. lausar við börk og göt eftir skordýranag, umbúðirnar smíðaðar úr forhituðum viði eða hitaðar á fullnægjandi hátt og síðan merktar á réttan hátt. Eftirlit Matvælastofnunar felst í því annars vegar að tryggja okkur að þeir sem smíða úr forhituðum viði geti framvísað vörureikningum er sýni kaup á slíkum viði og hins vegar að þeir er hita við eða umbúðir hafi fullnægjandi aðstöðu til hitunar.

Gildistími vottunar

Upphafleg vottun gildir einungis í eitt ár. Áður en vottunin verður endurnýjuð mun reynt að heimsækja alla og meta aðstæður. Reglugerðin gefur möguleika á allt að þriggja ára gildistíma.