• Email
  • Prenta

Inngangur

Það er algengt að gerðar séu kröfur til timburs í milliríkjaviðskiptum til að draga úr líkum á að með því berist plöntuskaðvaldar. Hins vegar hafa menn lengi litið fram hjá þeim viði sem notaður er til að bera, styðja við og verja alls kyns vörur í flutningi þeirra á áfangastað þótt sá viður sé engan veginn hættulaus. Mest er hættan þegar nýr og ferskur viður er notaður í umbúðir og skaðvaldar sem voru í trjánum á vaxtarstaðnum berast áfram með viðnum. Árið 1996 fannst í fyrsta sinn bjalla nokkur af ætt trjábukka (Cerambycidae) á trjám í New York í Bandaríkjunum. Ber hún enska heitið Asian longhorned beetle (Anoplophora glabripennis) og veldur skaða á ýmsum tegundum harðviðartrjáa. Telja Bandaríkjamenn að meindýr þetta hafi borist með viðarumbúðum frá Asíu. Einnig má nefna sem dæmi furuþráðorminn  (Bursaphelenchus xylophilus) sem finnst í N-Ameríku, Japan, Kína og víðar í Asíu en hefur enn ekki náð fótfestu í Evrópu, ef Portúgal er undanskilið, og gæti hæglega borist með viðarumbúðum.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) gaf í mars 2002 út leiðbeinandi reglur um viðarumbúðir (ISPM 15) sem eiga að stuðla að því að draga úr hættunni á að með þeim berist skaðvaldar, Guidelines for regulating wood packaging material in international trade-International standards for phytosanitary measures nr. 15. Þar er mælt með að trjáviðurinn sé svældur með metýlbrómíð gasi eða hitaður og síðan merktur á ákveðinn hátt til að staðfesta að tilskilin meðhöndlun hafi átt sér stað. Plöntueftirlitsaðilum í hverju landi er falið að annast vottun á fyrirtækjum sem smíða og meðhöndla tréumbúðir fyrir útflutning. Eins og er lítur út fyrir að þessi alþjóðlegi staðall verði almennt gildandi í alþjóðaviðskiptum. Undanskilinn er ýmis konar unninn viður sem til er orðinn við límingu, hitun eða pressun eins og krossviður og spónarplötur. Einnig eru undanskildar viðarafurðir eins og sag, tréhálmur, hefilspænir og kurl undir 6 mm á þykkt.

Kínverjar settu reglur um viðarumbúðir er tóku gildi haustið 2002, Kanadamenn  í janúar 2004 og Ástralir 1. september 2004. Reglur Evrópusambandsins tóku gildi 1. mars 2005 og frá og með 16. september 2005 boðuðu Bandaríkin, Kanada og Mexíkó að reglum um viðarumbúðir yrði framfylgt mjög ákveðið. Flest ríki virðast ætla að taka upp ISPM 15 staðalinn, þ.e.a.s. gerð er krafa um að umbúðirnar séu rétt merktar til staðfestingar á því að umbúðirnar sjálfar eða sá viður sem notaður var til framleiðslu þeirra hafi verið hitaður nægjanlega til að hitinn í innsta kjarna nái 56°C og haldist þannig í 30 mínútur. Frá 1. janúar 2006 tóku aftur gildi nýjar reglur í Kína. Þá var tekinn upp ISPM 15 staðallinn og fallið frá kröfu um heilbrigðisvottorð (phytosanitary certificate). Því nægir að brettin séu rétt merkt en hins vegar krefjast Kínverjar að tilkynnt sé fyrirfram til réttra eftirlitsaðila ef viðarumbúðir eru í sendingunni og skal óskað eftir skoðun. Sé það ekki gert er hætt við að refsað sé fyrir.

Til að tryggja að íslenskir útflytjendur geti uppfyllt þær kröfur sem innflutningslöndin gera til viðarumbúða og að útflutningsvörur okkar komist þannig vandræðalaust á áfangastað setti landbúnaðarráðuneytið þ. 6. apríl 2004 reglugerð um viðarumbúðir, reglugerð nr. 343 um viðarumbúðir vara við útflutning. Þar er plöntueftirliti Matvælastofnunar falið að annast vottun fyrirtækja til hitunar á viðarumbúðum eða viði til umbúðagerðar. Plöntueftirlitinu er einnig falið að hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Ítarefni

Reglur Evrópusambandsins: 

Nýjar reglur í Kína frá 1. janúar 2006: 
 

Gjald fyrir vottun til meðhöndlunar og framleiðslu á viði og viðarumbúðum til útflutnings og útgáfu heilbrigðisvottorða fer skv. gjaldskrá nr. 220/2018 fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar.