• Email
  • Prenta

Eftirlit með gæðum sáðvöru

Sáðvara sem flutt er til landsins þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að heimilt sé að versla með hana. Matvælastofnun sér um eftirlit með sáðvöru samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 301 frá 1995 og breytingu á henni nr. 202 frá 1996. Hlutverk þess er að sjá um að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt og gefa út innflutningsheimildir fyrir sáðvöru sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í reglugerðinni.

Matvælastofnun á að koma í veg fyrir að sáðvara sem ekki uppfyllir þessi skilyrði fari á markað og vernda þannig hagsmuni bænda og annarra sem sáðvöruna nota. Í 1. viðauka reglugerðarinnar eru taldar upp þær plöntutegundir sem eru skilgreindar sem sáðvara á Íslandi. Gefin hefur verið út opinber listi yfir stofna af sáðvöru sem rækta má undir opinberu eftirliti og viðurkenna til sölu hér á landi. Ekki hefur verið gefinn út listi yfir þau afbrigði sem má nota til ræktunar á Íslandi og þ.a.l. má selja hér hvaða afbrigði sem er, hvort sem það á einhverja möguleika á því að vaxa hér eða ekki. Hins vegar gefur Landbúnaðarháskóli Íslands (Lbhi) í samvinnu við Bændasamtök Íslands út á hverju ári lista yfir yrki sem mælt er með að nota hér á landi, þ.e. afbrigði sem vitað er að geti vaxið hér. Þennan lista er hægt að fá hjá Lbhi (sími 433-5202) og einnig er hægt að leita til sérfræðinga þar ef bændur eru í vafa um hvort tiltekið yrki hentar til notkunar hér.

Nánari umfjöllun um sáðvörur er að finna í greininni Gæði sáðvöru.