• Email
  • Prenta

Eftirlit

Markmið plöntueftirlits

Að hindra að nýir sjúkdómar eða meindýr berist til landsins sem valdið gætu tjóni á innlendri plönturæktun og að hefta frekari útbreiðslu nýrra og hættulegra skaðvalda sem þegar eru komnir og vinna að útrýmingu þeirra teljist það mögulegt. 

Lög og reglugerðir

Plöntueftirlit Matvælastofnunar annast þátt stofnunarinnar í framkvæmd laga nr. 51/1981 um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum ásamt síðari breytinum, og reglugerð nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum, og reglugerðar nr. 630/2008 um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. 

Eftirlit

Innflytjanda ber að tilkynna Matvælastofnun um hvern innflutning á plöntum eða plöntuafurðum sem fellur undir ákvæði reglugerðar nr. 189/1990, en óheimilt er að tollafgreiða og afhenda þær sendingar nema fyrir liggi leyfi og samþykki frá Matvælastofnun.

Framkvæmd eftirlits með innflutningi á plöntum og plöntuafurðum fer fram með skjalaskoðun og eftir atvikum vöruskoðun.

Allar þær sendingar sem koma til landsins og innihalda plöntur eða plöntuafurðir sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 189/1990 eru teknar til skoðunar með tilliti til skjalaskoðunar. Farið er yfir hvert innihald sendingarinnar er, hvort að sendingin innihaldi plöntur eða plöntuafurðir sem óheimilt er að flytja inn og hvort gild opinber plöntuheilbrigðisvottorð fylgi sendingunni. Eftir atvikum eru framkvæmdar vöruskoðanir þar sem plöntusendingin sjálf er skoðuð og tekin eru sýni.

Eftirfarandi gögn þurfa að berast til Matvælastofnunar til samþykkis áður en innflutningsleyfi er veitt:

  1. Tilkynning um innflutning á dýraafurðum, áburði, fóðri, plöntum, sáðvöru og matvælum.
  2. Plöntuheilbrigðisvottorð (phytosanitary certificate).
  3. Vörureikningur.