• Email
 • Prenta

Útflutningur gæludýra

Þegar kemur að útflutningi gæludýra þá eru það reglur móttökulandsins sem gilda.  

Útflutningur til Evrópusambandsins, Noregs og Sviss

Samræmdar kröfur gilda um innflutning hunda og katta til landa innan Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. 

 • Örmerki: dýrið skal vera örmerkt áður en það er bólusett.

 • Hundaæðisbólusetning: lágmarksaldur hunda og katta fyrir bólusetningu gegn hundaæði er 12 vikur. Bólusetning skal fara fram a.m.k. 21 degi fyrir innflutning (að mesta lagi ári fyrir). Hafið samband við dýralækni í tæka tíð til þess að panta bóluefni (sérpanta þarf hundaæðisbóluefni fyrir hvert og eitt dýr).

 • Bandormahreinsun: þau lönd þar sem bandormurinn Echinococcus multilocularis finnst ekki, gera kröfu um bandormahreinsun hunda fyrir innflutning. Um er að ræða Noreg, Bretland, Írland, Finnland og Möltu. Þetta skal gera 1-5 sólarhringum fyrir innflutning, þ.e. má ekki gerast á síðasta sólarhringnum.

 • Útflutningsvottorð: nota skal eyðublöð gefin út af ESB. Dýralæknir fyllir út vottorðið og svo þarf áritun og stimpil hjá opinberum dýralækni, þ.e. hjá Matvælastofnun (Dalshrauni 1b í Hafnarfirði, Austurvegi 64,  Selfossi eða á umdæmisskrifstofum). Vottorð þessi sem eru ígildi evrópska gæludýravegabréfsins veita inngöngu í ESB, Noreg og Sviss í 10 daga eftir útgáfu, og gilda í 4 mánuði fyrir ferðalög innan ESB.

  Í notkun eru tvenns konar Evrópuvottorð vegna útflutnings á hundum og köttum. Algengara er nota 8 síðna vottorðið fyrir s.k. „non-commercial movement“. Það er fyrir hunda og ketti sem eru að fara utan með eiganda sínum eða einstaklingi sem hefur umboð eiganda. Þetta skal einnig nota ef nýr eigandi (erlendur) ferðast til Íslands og flýgur með dýrið aftur úr landi. Nafn eiganda skal skrá bæði í reit sendanda og viðtakanda. Sá sem fylgir dýrinu í flug/skip skal skrifa undir á síðu 7.

  Hitt vottorðið sem er fyrir „import into the Union“ er hugsað fyrir þau tilfelli þar sem um eigendaskipti er að ræða og dýrið fer fylgdarlaust í flug. Þau dýr skal heilbrigðisskoða í mesta lagi 48 klst fyrir brottför.

  Leiðbeiningar 
  Vottorð vegna útflutnings hunds/kattar (til ESB/EES) án eigendaskipta (búferlaflutningar) (non-commercial)
  (Ný útgáfa 05.11.2018)
  Leiðbeiningar vegna útfyllingar vottorðs

  Vottorð vegna útflutnings hunds/kattar (til ESB/EES) með eigendaskiptum (og dýrið fer fylgdarlaust í flug) (import into the Union)
  Leiðbeiningar vegna útfyllingar vottorðs 

 • Undanþágur: eftirtalin lönd heimila innflutning óbólusettra hvolpa og kettlinga sem eru yngri en 12 vikna gömul: 1) Austurríki (sækja þarf um undanþágu til dýralæknayfirvalda), 2) Tékkland, 3) Danmörk, 4) Eistland, 5) Litháen og 6) Sviss. Athugið að þessi landalisti getur breyst fyrirvaralítið en uppfærðan lista má sjá hér. Slíkur innflutningur er heimilaður ef annað hvort; (a) ræktandi leggur fram yfirlýsingu um að dýrið hafi ekki komist í kynni við dýr sem voru mögulega smituð af hundaæði, eða(b) dýrið er flutt inn ásamt móður sinni sem hefur verið bólusett gegn hundaæði í samræmi við innflutningskröfur. ATH! Þetta gildir eingöngu fyrir þau dýr sem fara á sk. non-commercial vottorði.

Útflutningur til Bandaríkjanna

Vegna útflutnings á hundum og köttum til Bandaríkjanna þarf dýralæknir að gefa út heilbrigðis- og upprunavottorð þar sem eftirfarandi er staðfest:

- Að hundurinn/kötturinn hafi engin einkenni smitsjúkdóms.
- Að hundurinn/kötturinn hafi verið á Íslandi í a.m.k. 6 mánuði (eða frá fæðingu sé um yngra dýr að ræða)

Æskilegt er að vottorðið sé gefið út í mesta lagi 10 dögum fyrir brottför. Ekki er krafa um að vottorðið skuli áritað af dýralæknayfirvöldum.

ATH! Ekki er krafa um bólusetningu hunda og katta gegn hundaæði vegna flutnings til Bandaríkjanna. Þó gera sum fylki kröfu um hundaæðisbólusetningu og mælt er með því að innflytjendur kanni skilyrði innflutnings á ákvörðunarstað.

Yfirlit yfir hundaæðisfrí lönd á vef CDC í Bandaríkjunum


Útflutningur til annarra landa


Í flestum tilfellum er hægt að finna upplýsingar um innflutningskröfur á vefsíðum viðkomandi dýralæknayfirvalda (leita að pet import requirements fyrir viðkomandi land).


Ástralía  
Nýja Sjáland  
Japan  


Önnur gæludýr

Innflutningur búrfugla, kanína og þeirra tegunda nagdýra sem finnast á Íslandi til annarra landa krefst almennt ekki heimildar eða heilbrigðisvottorða.  Matvælastofnun hvetur þó dýraeigendur til að kynna sér kröfur viðkomandi móttökulands.