Matvælastofnun varar við Bonsoy soy milk

12.01.2010 Fréttir - Fréttir


  Matvælastofnun hefur borist tilkynning frá Viðvörunarkerfi Evrópu fyrir matvæli og fóður (RASFF - Rapid Alert System for Food and Feed), þar sem varað er við japönskum sojadrykk, Bonsoy soy milk, sem inniheldur alltof  hátt magn af joði. Ástæða joðmagnsins er að drykkurinn inniheldur þara sem nefnist kombu.

Drykkurinn hefur ekki fundist í verslunum hérlendis, en hann er seldur í netverslunum svo hugsanlegt er að hann hafi verið fluttur til landsins. Hann hefur m.a. verið í dreifingu í Danmörku og á Bretlandi. Í Ástralíu veiktust tíu manns af völdum drykksins. Joð í miklu magni hefur áhrif á skjaldkirtilinn og þar með á hormóna og efnaskipti líkamans.

Hugsanlegt að fleiri japanskir sojadrykkir hafi verið markaðssettir og er það til skoðunar í Evrópu. Neytendur slíkra sojadrykkja eru beðnir um að skoða í innihaldslýsingu hvort þeir innihalda kombu Mikilvægt er að tilkynna Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga ef drykkir með kombu eru í dreifingu hér á landi.

Til baka