• Email
 • Prenta

Góðir framleiðsluhættir

Innra gæðaeftirlit fyrirtækja sem eru á sviði framframleiðslu fóðurs skal byggja á reglum um góða framleiðsluhætti.

Undir frumframleiðslu fóðurs fellur t.d. flutningur, geymsla og meðhöndlun á heyi og byggi, blöndun fóðurs, sem er eingöngu fyrir eigin bújörð, án þess að nota aukefni eða forblöndur aukefna.

Góðir framleiðsluhættir fela í sér eftirfarandi:

I. Ákvæði um hollustuhætti


 1. Stjórnendur fóðurfyrirtækja, sem eru ábyrgir fyrir frumframleiðslu fóðurs, skulu sjá til þess að rekstrinum sé stjórnað og hann fari þannig fram að komið sé í veg fyrir hættu, sem getur ógnað öryggi fóðurs, henni eytt eða haldið í lágmarki.
 2. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu tryggja að frumframleiðsluvörur, sem eru framleiddar, unnar, hreinsaðar, settar í umbúðir, geymdar og fluttar á þeirra ábyrgð séu varðar gegn mengun og skemmdum. Stjórnendur fóðurfyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir, einkum í því skyni: 
  • að halda hreinni aðstöðu, búnaði, ílátum, grindum og farartækjum, sem eru notuð til að framleiða, tilreiða, flokka, pakka, geyma og flytja fóður, og sótthreinsa þau á viðeigandi hátt að lokinni hreinsun ef nauðsyn krefur,
  • að tryggja að fóður sé heilnæmt og að framleiðsla þess, flutningur og geymsla fari fram við hollustusamleg skilyrði,
  • að nota hreint vatn til að koma í veg fyrir hættulega mengun,
  • að koma í veg fyrir að hættuleg mengun hljótist af dýrum og skaðvöldum, 
  • að geyma og meðhöndla úrgang og hættuleg efni á aðskilinn og öruggan hátt þannig að ekki hljótist hættuleg mengun af,
  • að tryggja að efni, sem notað er í umbúðir, valdi ekki hættulegri mengun fóðurs,
  • að taka tillit til niðurstaðna hvers kyns greininga sem eru gerðar á sýnum úr frumframleiðsluvörum eða öðrum sýnum sem skipta máli í tengslum við öryggi fóðurs.

II. Skráahald

 1. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu, á þann hátt sem við á og í viðeigandi tíma, í samræmi við eðli og umfang fyrirtækisins, halda skrár með upplýsingum sem tengjast ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni að sporna gegn hættunni. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu gera viðeigandi upplýsingar í þessum skrám aðgengilegar lögbæru yfirvaldi.
 2. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu einkum halda skrár um: 
  • alla notkun plöntuvarnarefna og sæfiefna, 
  • notkun erfðabreytts fræs, 
  • öll tilvik skaðvalda eða sjúkdóma sem koma upp og geta haft áhrif á öryggi frumframleiðsluvara, 
  • niðurstöður hvers kyns greininga, sem gerðar eru á sýnum, sem eru tekin úr frumframleiðsluvörum, eða öðrum sýnum sem eru tekin til sjúkdómsgreiningar og skipta máli í tengslum við öryggi fóðurs, 
  • uppruna og magn fóðurs sem tekið er við ásamt ákvörðunarstað og magn fóðurs sem er afhent.