• Email
 • Prenta

GÁMES

Innra gæðaeftirlit fóðurfyrirtækja sem nota aukefni eða forblöndur aukefna skal byggja á reglum um greiningu áhættuþátta og mikilvæga eftirlitsstaði - GÁMES (eða HACCP á ensku).

Aðstaða og búnaður

 1. Halda skal vinnslu- og geymsluaðstöðu fyrir fóður, búnaði, ílátum, grindum, farartækjum og nánasta umhverfi hreinu og beita skal skilvirkum varnaráætlunum gegn skaðvöldum.
 2. Útfærsla, hönnun, bygging og stærð aðstöðunnar skal vera þannig:
  • að unnt sé að þrífa og/eða sótthreinsa hana nægilega vel,
  • að hættu á mistökum sé haldið í lágmarki og komist sé hjá mengun, víxlmengun og öllum öðrum skaðlegum áhrifum á öryggi og gæði varanna. Eftir hvers kyns vothreinsun skal þurrka vélbúnað sem kemst í snertingu við fóður.
 3. Hafa skal viðeigandi og reglubundið eftirlit með aðstöðu og búnaði, sem eru notuð við blöndun og/eða framleiðslu, í samræmi við skriflegar verklagsreglur sem framleiðandinn ákveður fyrir vörurnar.
  • Allar vogir og mælitæki, sem eru notuð við fóðurframleiðslu, skulu gerð fyrir það þyngdar- eða rúmmálsbil sem mæla á og skal reglulega prófa nákvæmni búnaðarins.
  • Allur blöndunarbúnaður, sem er notaður við fóðurframleiðslu, skal gerður fyrir það þyngdar- eða rúmmálsbil sem mæla á og skal hann vera þannig að unnt sé að framleiða blöndur og þynningarlausnir sem eru nægilega einsleitar.  Stjórnendur skulu sýna fram á skilvirkni blöndunarbúnaðar að því er varðar einsleitni.
 4. Í aðstöðunni skal vera næg náttúruleg lýsing og/eða gervilýsing.
 5. Frárennsliskerfið skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til slíks kerfis; það skal hannað og byggt þannig að ekki sé hætta á að fóður mengist.
 6. Vatn, sem er notað við framleiðslu fóðurs, skal vera fullnægjandi að gæðum fyrir dýr; vatnsleiðslur skulu vera úr hvarftregu efni.
 7. Farga skal skólpi, úrgangi og regnvatni þannig að tryggt sé að búnaður og öryggi og gæði fóðurs verði ekki fyrir áhrifum. Skemmdum og ryki skal haldið í lágmarki til að koma í veg fyrir að skaðvaldar komist inn.
 8. Gluggar og önnur op skulu, eftir því sem nauðsyn krefur, geta haldið skaðvöldum úti. Dyr skulu vera þéttar og geta haldið skaðvöldum úti þegar þær eru lokaðar.
 9. Ef nauðsyn krefur skulu loft og festingar í lofti vera þannig hönnuð, byggð og frá þeim gengið að ekki safnist þar fyrir óhreinindi og að þétting raka, óæskilegur mygluvöxtur og losun agna, sem geta haft áhrif á öryggi og gæði fóðurs, verði sem minnst.

Starfsfólk

Fóðurfyrirtæki skulu hafa yfir að ráða nógu mörgum hæfum starfsmönnum sem hafa nauðsynlega þekkingu, menntun og hæfi til að framleiða viðkomandi vörur. Semja skal skipurit með upplýsingum um menntun og hæfi (t.d. prófskírteini, starfsreynslu) og ábyrgð starfsmanna, sem hafa yfirumsjón með framleiðslunni, sem lögbær eftirlitsyfirvöld eiga að hafa aðgang að. Allir starfsmenn skulu hafa skýrar, skriflegar upplýsingar um verkefni sín, ábyrgð og valdsvið, einkum þegar breytingar eru gerðar, til að vörurnar verði af þeim gæðum sem sóst er eftir.

Framleiðsla

 1. Tilnefna skal hæfan einstakling sem ber ábyrgð á framleiðslunni.
 2. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu tryggja að vinna á mismunandi framleiðslustigum samræmist fyrirfram ákveðnum, skráðum aðferðum og fyrirmælum sem miða að því að skilgreina, fylgjast með og hafa stjórn á mikilvægum stöðum í framleiðsluferlinu.
 3. Gera skal tæknilegar eða skipulagslegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða lágmarka, eins og þörf krefur, hvers kyns víxlmengun og skekkjur. Nauðsynlegt er að til séu fullnægjandi og viðeigandi úrræði til að sinna eftirliti meðan á framleiðslu stendur.
 4. Hafa skal eftirlit, í tengslum við heilbrigði manna eða dýra, með því hvort fram komi bannað fóður, óæskileg efni eða önnur mengunarefni og koma skal á viðeigandi varnaráætlunum til að halda áhættunni í lágmarki.
 5. Úrgangur og efni, sem ekki henta sem fóður, skal einangra og auðkenna. Farga skal á viðeigandi hátt öllum slíkum efnum sem innihalda hættulega mikið af dýralyfjum, mengunarefnum eða öðrum hættulegum efnum og skulu þau ekki notuð sem fóður.
 6. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að rekja feril afurðanna.

Gæðaeftirlit

 1. Ef við á skal tilnefna hæfan einstakling sem ber ábyrgð á gæðaeftirliti.
 2. Það skal vera liður í gæðaeftirlitskerfi fóðurfyrirtækja að þau hafi aðgang að rannsóknarstofu með viðeigandi starfsfólki og búnaði.
 3. Gera skal skriflega áætlun um gæðaeftirlit og hrinda henni í framkvæmd og skal hún einkum taka til eftirlits með mikilvægum stöðum í framleiðsluferlinu, aðferða við sýnatöku og tíðni sýnatöku, greiningaraðferða og tíðni greininga, athugunar á því hvort farið sé að forskriftum, allt frá vinnslu efna til lokaafurða og hvernig bregðast skal við ef ekki er farið að forskriftunum.
 4. Framleiðandi skal varðveita skjöl, sem varða hráefni sem notað er í lokaafurðir, í því skyni að tryggja rekjanleika. Slík skjöl skulu vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum í hæfilega langan tíma sem ræðst af því í hvaða tilgangi afurðirnar eru settar á markað. Að auki skal taka nægilegt magn sýna úr innihaldsefnum og úr hverri framleiðslulotu afurðar sem er framleidd og sett á markað eða úr hverjum tilteknum hluta framleiðslunnar (þegar um samfellda framleiðslu er að ræða) samkvæmt aðferð sem framleiðandinn ákveður fyrirfram með tilliti til þess að unnt sé að tryggja rekjanleika (ef framleiðslan er eingöngu til eigin nota skulu sýnin tekin með reglulegu millibili). Nauðsynlegt er að innsigla og merkja sýnin þannig að auðvelt sé að sannreyna þau og skal geyma þau við skilyrði sem koma í veg fyrir óeðlilegar breytingar á samsetningu þeirra eða að þau spillist. Sýnin skulu geymd þar sem lögbær yfirvöld hafa aðgang að þeim í hæfilega langan tíma sem ræðst af fyrirhugaðri notkun fóðursins þegar það er sett á markað. Ef um er að ræða fóður, sem er ætlað dýrum sem ekki eru alin til matvælaframleiðslu, þarf framleiðandi fóðursins eingöngu að geyma sýni úr lokaafurðinni.

Geymsla og flutningur

 1. Aðskilja skal unnið fóður frá óunnum fóðurefnum og aukefnum til að koma í veg fyrir víxlmengun við unna fóðrið og skal nota viðeigandi umbúðaefni.
 2. Fóður skal geymt og flutt í viðeigandi geymum. Geyma skal fóðrið á stöðum sem eru þannig útfærðir og lagaðir og haldið í þannig standi að góð geymsluskilyrði séu tryggð og þeir einstaklingar einir hafi aðgang að þeim sem hafa til þess leyfi stjórnenda fóðurfyrirtækisins.
 3. Fóðrið skal geymt og flutt þannig að auðvelt sé að sannreyna það til að komast hjá hvers kyns ruglingi eða víxlmengun og koma í veg fyrir að það spillist.
 4. Gámum og búnaði, sem eru notuð við flutning, geymslu, afhendingu, meðhöndlun og vigtun, skal haldið hreinum. Innleiða skal hreinsunaráætlanir og leifar þvotta- og hreinsiefna og sótthreinsiefna skulu vera í lágmarki.
 5. Öllum skemmdum skal haldið í lágmarki til að verjast skaðvöldum.
 6. Þar sem við á skal hitastig vera eins lágt og unnt er til að koma í veg fyrir þéttingu raka og skemmdir.

Skráahald

 1. Allir stjórnendur fóðurfyrirtækja, þ.m.t. þeir sem eru eingöngu söluaðilar en geyma aldrei vörurnar á athafnasvæði sínu, skulu halda skrá með viðeigandi gögnum sem taka til upplýsinga um kaup, framleiðslu og sölu svo unnt sé að rekja ferlið frá móttöku til afhendingar, þ.m.t. útflutningur á lokaákvörðunarstað.
 2. Stjórnendur fóðurfyrirtækja, að undanskildum þeim sem eru eingöngu seljendur sem geyma aldrei vörur á athafnasvæði sínu, skulu skrá og varðveita:
  • Skjöl sem varða framleiðsluferli og eftirlit. Fóðurfyrirtæki skulu ráða yfir skráningarkerfi sem er hannað bæði til að geta skilgreint og haft stjórn á mikilvægu stöðunum í framleiðsluferlinu og komið á og hrint í framkvæmd gæðaeftirlitsáætlun. Þau skulu geyma niðurstöðurnar úr þessu eftirliti. Þessi skjöl ber að varðveita svo að rekja megi framleiðslusögu hverrar framleiðslulotu vöru sem er sett í dreifingu og skera megi úr um það hvar ábyrgðin liggur ef kvartanir berast.
  • Skjöl sem varða rekjanleika, einkum:
   • aukefna í fóðri:
    • eðli og magn þeirra aukefna sem hafa verið framleidd, framleiðsludagar þeirra og, ef við á, númer framleiðslulotunnar eða tiltekins hluta framleiðslunnar ef um samfellda framleiðslu er að ræða,
    • heiti og heimilisfang starfsstöðvarinnar, sem fékk aukefnin afhent, eðli og magn aukefnanna sem voru afhent og, ef við á, númer framleiðslulotunnar eða tiltekins hluta framleiðslunnar ef um samfellda framleiðslu er að ræða,
   • vörur sem falla undir tilskipun 82/471/EBE:
    • eðli varanna og magn framleiðslunnar, framleiðsludagar þeirra og, ef við á, númer framleiðslulotunnar eða tiltekins hluta framleiðslunnar ef um samfellda framleiðslu er að ræða,
    • heiti og heimilisfang starfsstöðva eða notenda (starfsstöðvar eða bændur) sem hafa fengið vörurnar í hendur, ásamt upplýsingum um eðli og magn þeirra vara, sem hafa verið afhentar, og, ef við á, númer framleiðslulotunnar eða tiltekins hluta framleiðslunnar ef um samfellda framleiðslu er að ræða,
   • forblöndur:
    • heiti og heimilisfang framleiðenda eða birgja aukefna, eðli og magn þeirra aukefna, sem hafa verið notuð og, ef við á, númer framleiðslulotunnar eða tiltekins hluta framleiðslunnar þegar um samfellda framleiðslu er að ræða,
    • framleiðsludagur forblöndunnar og, ef við á, númer framleiðslulotunnar,
    • heiti og heimilisfang starfsstöðvarinnar sem hefur fengið forblönduna í hendur, afhendingardag, eðli og magn þeirrar forblöndu sem hefur verið afhent, og ef við á, númer framleiðslulotunnar.
   • fóðurblöndur/fóðurefni:
    • heiti og heimilisfang framleiðenda eða birgja aukefnisins/forblöndunnar, eðli og magn forblöndunnar sem er notuð, ásamt númeri framleiðslulotunnar ef við á,
    •  heiti og heimilisfang birgja fóðurefna og fóðurbætis ásamt afhendingardegi,
    • tegund, magn og samsetning fóðurblöndu,
    • eðli og magn framleiddra fóðurefna eða fóðurblandna ásamt framleiðsludegi og nafni og heimilisfangi kaupanda (t.d. bónda eða annarra stjórnenda fóðurfyrirtækis).

Kvartanir og innköllun vara

 1. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu taka upp kerfi fyrir skráningu og meðhöndlun kvartana.
 2. Þeir skulu koma á, ef nauðsyn krefur, kerfi sem gerir kleift að innkalla með skjótum hætti vörur í dreifingarkerfinu. Þeir skulu ákveða, samkvæmt skriflegum aðferðum, viðtökustað vara, sem hafa verið innkallaðar, og áður en slíkar vörur eru settar aftur í dreifingu skulu þær gangast undir gæðaeftirlit að nýju.