• Email
  • Prenta

Aukefni

Einungis er heimilt að nota sem aukefni í fóðurvörur efni og blöndur sem hafa fengið til þess samþykki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í samræmi við gildandi lagaákvæði á EES svæðinu og fram koma í skrá ESB um heimiluð aukefni í fóðri samkvæmt reglugerð ESB nr. 1831 frá 2003.

Aukefni í fóður eru skilgreind sem efni, örverur eða efnablöndur, aðrar en fóðurefni og forblöndur sem er bætt í fóður eða vatn af ásetningi, einkum til að gegna einu eða fleirum af eftirfarandi hlutverkum:

  • bæta eiginleika fóðurs,
  • bæta eiginleika dýraafurða,
  • bæta lit skrautfiska og -fugla,
  • fullnægja næringarþörf dýra,
  • hafa jákvæð áhrif á afleiðingar búfjárframleiðslu fyrir umhverfið,
  • hafa jákvæð áhrif á búfjárframleiðslu, afurðasemi eða velferð búfjár, einkum með áhrifum á maga- og þarmaflóruna eða meltanleika fóðurs eða
  • hafa hníslalyfja- eða vefsvipungaverkun (histomonostatic effect).
Sýklalyf, önnur en hnísla- eða vefsvipungalyf, eru bönnuð sem aukefni í fóðri. Fóðurframleiðandi sem afgreiðir fóður sem inniheldur hníslalyf eða vefsvipungalyf skal ávallt vera í stakk búinn til að afgreiða sambærilegar fóðurblöndur án hníslalyfja eða vefsvipungalyfja.

Fóðurfyrirtæki sem flytja inn, selja, kaupa eða nota aukefni eða forblöndur aukefna skulu hafa sérstaka viðurkenningu Matvælastofnunar fyrir starfsemi sinni.